04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

39. mál, efnahagsreikningar

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Ég er flm. að þessu frv. og vil því fara um það nokkrum orðum. Hv. allshn. sem fékk frv. til athugunar, er klofin, og hafa frsm. beggja n. hlutanna gert grein fyrir afstöðu þeirra. — Viðvíkjandi nál. meiri hl. á þskj. 139 vil ég taka það fram, að ég hefi ekkert við að athuga brtt. þær, sem meiri hl. vill gera á frv. 1. brtt. er þess efnis, að miða skuli skyldu til að birta efnahagsreikninga við 100 þús. kr. skuld, í stað 50 þús. kr. Það má alltaf um það deila, við hvaða upphæð sé rétt að miða, en ég fyrir mitt leyti get vel fallizt á að miða við hærri upphæðina, fyrst um sinn a. m. k., eða þar til nokkur reynsla er fengin.

Minni hl. allshn. hefir skilað nál. á þskj. 146, og frsm. þess nefndarhluta, hv. 8. landsk., hefir skýrt málið frá hans sjónarmiði. Vil ég víkja nokkrum orðum að afstöðu hv. minni hl.

Minni hl. bendir á, að hér á landi séu bankarnir háðir eftirliti trúnaðarmanna Alþingis og almennings, þar sem séu bankaráðin, þannig séu þeir aftur háðir eftirliti fjmrh., og sé þetta næg trygging gegn óvarlegum lánveitingum. Þess vegna sé óþarft að skylda fyrirtæki til að birta efnahagsreikninga.

Það er rétt, að Alþingi hefir yfirstj. bankamálanna í raun og veru, t. d. með kosningu bankan. Landsbankans. En ég sé ekki, að þetta geti verið ástæða fyrir því, að fallið sé frá þeirri skoðun, sem fram kemur í frv. og grg. þess. Mætti þá eins segja, að óþarfi væri að birta opinberlega reikninga ríkissjóðs og ríkisstofnana, af því að Alþingi og þingflokkarnir hefðu hvort sem væri aðstöðu til að kynna sér þá reikninga. Má t. d. benda á endurskoðun landsreikninganna, sem falin er mönnum úr öllum þingflokkum, og rekstrarráðin, sem skipuð eru mönnum úr öllum flokkum þingsins og hafa eiga eftirlit með rekstri þessara stofnana. Hinsvegar hefir það ekki komið fram hjá hv. minni hl., að hann telji óþarft að birta reikninga þessara stofnana. Við teljum því rétt, að fyrirtæki einstaklinga, sem skulda bönkum og sjóðum mikið fé, séu engu síður skylduð til að birta efnahagsreikninga sína, þrátt fyrir það, þó að trúnaðarmenn Alþingis hafi aðstöðu til að fylgjast nokkuð með þeim. Þetta er sjálfsagt, því að bankarnir eru að mestu leyti eign ríkisins og reknir á þess ábyrgð.

Í nál. minni hl. segir svo, að það geti talizt rétt að birta efnahagsreikninga kaupfélaga og samvinnufélaga á sama hátt og hlutafélaga, þar sem engar hömlur séu á það lagðar, að almenningur gerist þátttakandi í þessum félagsskap og taki á sig fjárhagslegar skuldbindingar í því sambandi, en þessu sé ekki til að dreifa með fyrirtæki einstaklinga. Nú er öllum ljóst, að því er snertir samvinnufélög, að menn, sem vilja gerast félagar þar, eiga kost á að kynnast hag þeirra. Reikningar samvinnufélaganna standa æfinlega opnir öllum þátttakendum í þeim félagsskap. En þrátt fyrir það álítum við flm., að rétt sé að setja l. um það, að reikningar þessara félaga skuli birtir, ef þau skulda ákveðna upphæð, vegna þess að það eru vitanlega margir aðrir, sem hafa viðskipti við samvinnufélögin, heldur en eigendur þeirra, eins og fjöldi manna hefir viðskipti við einstaklingsfyrirtækin, án þess að eiga kost á að kynnast hag viðkomandi fyrirtækis.

Ég vil taka undir það, sem frsm. meiri hl., hv. 1. þm. Rang., benti á, að hefðu slík l. verið í gildi hér síðustu áratugina, mætti gera ráð fyrir, að töp lánsstofnana og einstakra fyrirtækja væru ekki eins mikil og þau hafa orðið, því að með þessu hefði skapazt aðhald fyrir stj. bankanna. Það eru ekki eingöngu lánsstofnanirnar, sem hafa tapað. Það er vitanlegt, að í mörgum tilfellum hefir fjöldi manna, sem hafa átt innstæður hjá einstökum fyrirtækjum, tapað þar allverulegum fjárhæðum, og margir þeirra hafa ekki verið það vel efnum búnir, að þeir mættu við stórum töpum. Maður getur búizt við, að það hefðu ekki orðið eins mikil brögð að þessu, hefðu slík l. verið í gildi og hér um ræðir. (GÞ: Menn hafa líka tapað á kaupfélögunum).

Þá segir hér í nál. minni hl., að fjárhagsmálefni hvers einstaklings séu og eigi að vera hans einkamál. Ég vil ekki bera á móti þessu, þ. e. a. s., ef viðkomandi einstaklingur er að fara með sitt eigið fé, enda er ekki farið fram á það í frv. því, sem hér liggur fyrir, að skylda þá til að birta reikninga um sinn efnahag.

Hv. 8. landsk. þm. sagði, að það væri vitað mál, að allt það fé, sem fyrirtækin hafa í rekstri sínum, væri í raun og veru sparifé landsmanna og hafi alltaf verið það, þannig, að það væri engin ástæða til þess nú að fara að birta efnahagsreikninga. Út af þessu vil ég vísa til þess, sem ég hefi áður sagt, að gera mætti ráð fyrir, að betur hefði farið að ýmsu leyti hjá okkur, ef þessi ákvæði hefðu verið í l.

Þá telur hv. þm. það mjög varhugavert –og sama kemur fram í áliti stjórnar Landsbankans —. að fyrirtækin eigi að borga fyrir birtingu efnahagsreikninga. Ég fæ ekki séð, að það sé neitt athugavert í sjálfu sér með þau fyrirtæki, sem njóta þeirra hlunninda að fá lánsfé í svo stórum stíl sem hér er um að ræða, þótt þau yrðu að kosta að einhverju leyti birtingu efnahagsreikninga, því að þar getur ekki orðið um stór útgjöld að ræða. Ég get heldur ekki verið sammála hv. 8. landsk. um það, að hér sé allt öðru máli að gegna um hlutafélög, samvinnufélög og opinberar stofnanir heldur en fyrirtæki einstakra manna.

Ég vil benda á það, að fjvn. Alþingis hefir nú að undanförnu gert sér mikið far um að kynnast hag og rekstri allra þeirra fyrirtækja, sem ríkinu eru viðkomandi. Og n. hefir krafizt mjög greinilegra skýrslna frá þessum stofnunum um allt, sem viðkemur rekstri þeirra, og ég get tekið það fram, að flokksbræður hv. 8. landsk. í fjvn. hafa gengið ríkt eftir því, að reikningar þessara stofnana væru greinilega sundurliðaðir, og er ég sízt að lasta þá fyrir það. En ég fæ ekki skilið, hvers vegna þeir hv. þm., sem standa að þessu áliti minni hl., telja það svo ákaflega óeðlilegt að fara fram á, að aðeins efnahagsreikningar, og í sumum tilfellum einstaka atriði úr rekstrarreikningum þeirra fyrirtækja, sem hafa fengið stórfé að láni hjá þeim lánsstofnunum, sem ríkið ber að mestu leyti ábyrgð á, skuli birtir opinberlega.

Það hefir verið að því vikið, að í l. um hlutafélög væru ákvæði, sem gerðu þeim skylt að birta aðalatriðin úr reikningum sínum. Ég hefi ekki kynnt mér, hvernig þessi ákvæði eru, og veit því ekki, hvort þau gætu að öllu leyti komið í stað þess, sem lagt er til í frv.

Hv. 8. landsk. þm. óttast, að birting efnahagsreikninganna myndi verða til þess, að andstæðingar ýmsra þeirra manna, sem þyrftu að birta sína reikninga, myndu nota það til árásar á viðkomandi menn og fyrirtæki þeirra, og talaði hv. þm. um róg og níð í því sambandi, sem gæti orðið mörgum hættulegt. Það getur vel verið, að hv. 8. landsk. hafi dottið í hug dæmi, sem nefna má um þetta. Ég minnist þess, að það hefir komið fyrir oftar en einu sinni, að andstæðingar S. Í. S. hafa ráðizt hatramlega á það og talið sig hafa ástæðu til þess af upplýsingum, sem fram hafa komið hjá þessu fyrirtæki, þegar það hefir birt efnahagsreikninga sína. Þetta hefir að vísu ekki gert því fyrirtæki neitt til, vegna þess að árásirnar hafa ekki verið á rökum reistar. Geri ég ráð fyrir, að eins myndi fara hér. Það mun standa, sem heilbrigt er, en hitt, sem er sjúkt, má gera ráð fyrir, að falli. Og ég er þeirrar skoðunar, að það eigi líka að gera það.

Hv. 8. landsk. telur óheppilegt að miða birtingarskylduna við ákveðna skuldarupphæð, þar sem skuldarupphæðin sé enginn mælikvarði á það, hvernig fyrirtæki séu stæð. Ég er honum sammála um það, að margt annað geti komið til greina. En ég vil spyrja, við hvað eigi að miða, ef ekki þetta. Ég hefi ekki orðið var við, að minni hl. allshn. hafi bent á neitt, sem eðlilegra er að miða við.

Hv. þm. talaði um það í lok ræðu sinnar, að hér væri um að ræða dulbúna árás á bankana. Ég vil þá spyrja hann, hvort það sé ekki eins dulbúin árás á ríkisstj., að það skuli vera ákveðið, að reikningar ríkissjóðs, margendurskoðaðir, og allra ríkisfyrirtækja skuli birtir opinberlega. Ég sé ekki, að þar sé neinn munur á.

Hv. 8. landsk. talaði um það, að eignarrétturinn sé friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni og eigi að vera það. Þetta er rétt, enda erum við með flutningi þessa frv. ekki að raska því og munum aldrei deila um það, að eignarrétturinn sé friðhelgur. En það, sem okkur greinir á um. er, hvort skuldarétturinn eigi að vera friðhelgur eða ekki.