05.04.1938
Neðri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

39. mál, efnahagsreikningar

Sigurður Kristjánsson:

Ég leyfði mér í fyrri ræðu minni að tala á við og dreif um málið, þar sem það var í fyrsta sinn, sem ég tók til máls um frv. Ég þurfti líka að svara því, sem fram hafði komið, en það var auðvitað rétt að ræða málið grein fyrir grein. Það er nú seinlegt verk að fara yfir hverja einstaka gr. frv., og mun ég ekki gera það. Ég vil þó minnast á nokkur atriði í 1. gr. Í 1. gr. er birting reikninganna einskorðuð við, að viðkomandi fyrirtæki skuldi 50 þús. kr. innanlands. Það á að vera mælikvarðinn á það, hvort óhætt sé að lána því fé. Þetta ákvæði er eitt af mörgu, sem ber vitni um það, að flm. málsins hafa litla hugmynd um þessi efni, því að sé fyrirtæki „insolvent“ vegna erlendra skulda, er ekki minni hætta að lána því fé innanlands. — Í niðurlagi gr. er svo fyrir mælt, að hvert fyrirtæki skuli afhenda stjórnarráðinu reikninga sína í síðasta lagi 5 mánuðum eftir lok reikningsársins, sem er náttúrlega nýár. Ef út af þessu ber, er hægt að leggja við dagsektir, og skal ég koma að því síðar.

Ég vil minna á það, að við sitjum hér í aprílmánuði og eigum að gera út um reikninga ríkisins fyrir árið 1936. Þessir reikningar eru ekki komnir okkur í hendur ennþá. Það eru m. ö. o. liðnir 15 mánuðir fram yfir lok reikningsársins. Og það er þessi fyrirmyndarstofnun, sem á að leggja dagsektir á atvinnurekendurna. Þetta sýnir m. a., að það á að ganga nokkru ríkar eftir að klófesta þessa menn undir sektar- og refsiákvæðin heldur en ætlazt er til, að gert verði við ríkisstj. sjálfa.

Í 2. gr. frv. segir, að ráðuneytið megi einnig krefjast rekstrarreikninga af þeim aðiljum, sem um getur í l. gr. Þarna er það lagt í sjálfsvald ríkisstj., hvaða stofnanir hún vill, að skili þessum reikningum. Nú er varla hægt að ætlast til þess — a. m. k. hefir núv. ríkisstj. ekki gefið tilefni til slíks —, að stj. myndi kynna sér svo vel atvinnurekstur hvers einstaklings í landinu, a ð hún gæti dregið stofnanirnar í sundur og séð í fljótu bragði, af hverjum hún ætti að heimta rekstrarreikninga og af hverjum ekki. Ég held. að sú krafa yrði út í loftið eða eftir geðþótta ríkisstj., því að hún myndi ekki hafa skilyrði til þess að geta dregið menn og stofnanir í sundur eftir neinum reglum. Enda tel ég vafalaust, að hv. flm. hafi þarna ætlað sér að koma ríkisstj. í góða aðstöðu til þess að geta gert greinarmun á vinum sínum og óvinum og haga þessu þannig, að flokksmenn hennar gætu átt aðgang að henni um upplýsingar, þegar þeir færu að flytja hin dýrlegu meðmæli með atvinnurekendunum út á meðal almennings, sem hv. 1. þm. Rang. er búinn að komast að þeirri niðurstöðu um, að sé mjög gáfað fólk og vel að sér.

Ég hefði gaman af því, að hv. frsm. vildi gera grein fyrir, hvernig á því stendur, að í 1. gr. er gefið í skyn, að skuldir fyrirtækja erlendis hafi enga þýðingu í sambandi við það, hvort fyrirtæki stendur sig vel eða ekki, og eins hinu, hvernig ætlazt er til þess, að ríkisstj. fylgist það vel með atvinnurekstri einstaklinga um land allt, að hún geti innan 5 mánaða frá því, að reikningsárið er liðið, verið búin að sjá, hverjir eiga að birta rekstrarreikninga og hverjir ekki, og það með svo miklum skarpleika, að hún geti lagt á dagsektir, ef út af er brugðið.

Þá kemur 4. gr. Það er vitanlega sjálfsagður fylgifiskur þessarar útungunarstarfsemi, sem hv. 1. þm. Rang. og ýmsir fleiri reka, að setja á stofn einhver fyrirtæki, sem rúma fleiri eða færri launamenn. Af þessu leiðir, að einhvern verður að plokka til þess að næra þennan lýð, og í þessu tilfelli eru það að sjálfsögðu atvinnurekendurnir, þótt illa séu stæðir. Ráðuneytið á að setja á fót stofnun, ósköp fina stofnun, eftir því sem 4. gr. skýrir frá, sem á að vera rekin með sérstöku reikningshaldi og ætlað er að gefa út þessa reikninga. Ég hefði nú haldið, að það væru komnir nógu margir bögglar á atvinnurekendurna hér á landi, þótt þessu væri ekki bætt við. Þeir, sem framleiða mjólk, verða að rogast með hv. 1. þm. Rang. og talsvert lið utan um hann, og það leka niður margir dropar á leiðinni frá framleiðanda til neytanda, til þess að fullnægja hans hógværu kröfum. Sama er að segja um kjötið. Þar verða framleiðendur að sjá af mörgum bitanum. Og nú á þetta að færast út nokkuð almennt. Nú á að fara að færa reikninga yfir þessa menn, hvað miklir ódæma glæpamenn þeir eru, að vera orðnir fátækir eftir margra ára baráttu, þó að hv. 1. þm. Rang. segist ekki trúa því, að atvinnurekendur séu svo svívirðilegir að eiga ekki neitt. (SvbH: Ég held, að hv. þm. hafi misheyrzt.) Nei, en hitt má vera, að hv. 1. þm. Rang. hafi talað af sér. Það hefir komið fyrir oftar.

Það er svo fyrir mælt í frv., að ríkisstj. geti ákveðið dagsektir, ef ekki er búið að skila reikningum alveg á mínútunni kl. 12, þegar 5 mánuðir eru liðnir frá reikningsárslokum. Úrskurði ríkisstj. um þetta má ekki áfrýja. Það er ákaflega fallegt að gera ráð fyrir því, að við eigum jafnan svo grandvara ríkisstj., að hún muni ekki misbeita þessu, og oftast nær kynni það að vera. Þó gæti út af þessu brugðið, ef í ráðuneytið kæmi maður með álíka velvildarhug til atvinnurekenda, a. m. k. við sjóinn, og hv. 1. þm. Rang., en ekki með jafnkristilegan hugsunarhátt að öðru leyti. Þá gæti það orðið nokkuð þunghent, þegar það ákvæði dagsektir á þrjózkufulla gamla útgerðarmenn.

Ég ætla ekki að fara langt út í grg. þá, sem þessu frv. fylgir. Ég veik óbeint að henni í fyrri ræðu minni að allverulegu leyti. En ég vil þó mótmæla þeirra firru, að það sé engu minni ástæða til að krefjast þess, að einstakiingar birti efnahags- og rekstrarreikninga sína en ríkissjóður. Ég skil ekki, hvernig nokkur maður getur sagt þetta, því að vitanlega er öllum ljóst, að það er hin mesta fjarstæða. Auðvitað hafa margir af þeim mönnum, sem hafa haft lánsfé með höndum, sem hefir numið yfir 50 þús. kr., farið að mestu leyti með sitt eigið fé, því að ef eitt fyrirtæki á sjálft einhver verðmæti, sem nema 100% eða meira af lánsfjárupphæðinni, þá verður maður að telja, að það lánsfé sé öruggt. En hvað ríkið snertir, er það vitanlegt, að þar er aðeins verið að birta reikninga þess sjóðs, sem er talinn eign almennings í landinu, og ekki eins frekar en annars, þótt menn borgi misjafnt til hans. Hann er því alls ekki hliðstæður einkarekstri. En hitt skal ég játa, að ríkisstj. hefir stundum farið með ríkissjóðinn líkt og hann væri einkaeign hennar. Það er yfirsjón, sem hvorki er lofsverð eða réttlætir það, að leggja að jöfnu að birta reikninga ríkisins og einstaklinga almennt.

Út af ræðu hv. 1. þm. Rang. þarf ég ekki margt að segja. Hann var eitthvað að tala um það, að ég væri þarfasti þjónn skuldugasta fyrirtækisins í landinu. Ég veit ekki til þess, að ég sé þjónn neins fyrirtækis eða hafi nokkurntíma verið það, nema ef vera skyldi tíma og tíma, þegar ég vann sem daglaunamaður hér áður fyrr. En mitt starf var lengst af að vera kennari. Þarf ég ekki að deila við þennan mann um það, enda býst ég ekki við því, að hans orð verði mikils metin í þessu efni. En hvað þessum orðum hv. þm. að öðru leyti viðvíkur, þá þykir mér sennilegt, að þau standi í sambandi við fund nokkurn, þar sem þessi hv. þm. var að segja ýmislegt misjafnt um Reykjavík. Bauðst ég þá til þess að skrifta þessum þm. dálítið, þar eð ég sem þm. kjördæmisins þoldi ekki að heyra hallað réttu máli. Hv. þm. sagði, að Reykv. væri við það að setja landið á hausinn og öll landsins börn.

Þá sagði hv. þm., að ég myndi tala öðruvísi fyrir almenningi, þegar ég kæmi út í landsbyggðina. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að ég mun segja það sama og ég hefi gert hér.

(SvbH: Hv. þm. er þó hættur að tala um mosa þar.) Ég mun vitanlega ekki halda því fram, sem hv. þm. getur fengið út úr orðum mínum með rangfærslum og útúrsnúningum, en hinsvegar mun ég óhikað standa við það, sem ég hefi sagt, að ég efast ekki um, að almenningur hefir miklu minni þekkingu og miklu minni tök á því að meta, hvaða fyrirtæki eru fær um að taka á móti lánsfé, heldur en þeir, sem með þetta fara nú. Ég efast ekki um, að þessi hv. þm. mundi segja, að fólkið, sem býr úti í strjálbýlinu, og almenningur yfirleitt væri miklu færari um þetta, en allir skynsamari menn myndu fyrirlita slíkt skjall.

Hv. þm. sagði, að almenningur hefði tapað millj. og aftur millj. á atvinnurekendunum. Það er engin leið að eltast við það, þótt einn maður segi svona vitleysu. Hann getur endurtekið það óendanlega. En það verður ekki minni fjarstæða fyrir það.

Hv. þm. sagði, að hann sæi enga mótbáru gegn þessu frv. í nál. minni hl., nema þá, að það væri hættulegt að birta efnahagsreikninga. Í nál. eru prentaðar fjórar umsagnir um frv., og í þremur af þeim eru mjög markverðar upplýsingar um þetta mál, þar á meðal nokkuð, sem ég hélt, að færi ekki framhjá hv. frsm., þar sem tekið er fram, að það sé vitleysa, að þetta frv. sé hliðstætt löggjöf nágrannalandanna. Ég segi ekki, að þetta séu visvítandi ósannindi í grg. frv., heldur aðeins sprottin af því, að hlutaðeigandi menn hafi ekki haft á þessu næga þekkingu. — Þá eru í nál. margvíslegar upplýsingar frá nm. sjálfum. Ég álít ekki, að það sé mitt verkefni að fara út í slíkt, heldur frsm. minni hl., en ég hlýt að benda á það aftur, að hv. flm., og sérstaklega þó hv. frsm. meiri hl., hafa alls ekki fengizt til að ræða þau rök, sem borin eru fram gegn frv. Hv. frsm. sagði, að það hlyti að vera hvöt til að samþ. frv., að þessir menn andmæltu því. En hvað segir hann um það, að stofnun eins og Landsbankinn leggur eindregið á móti þessu frv.? Ætli það sé vegna þess, að þeirri stofnun, sem ætti að hafa gagn af því að fá upplýsingar um atvinnurekendurna, sé svo annt um að hylma yfir svívirðinguna í fari þessara manna — eins og hann komst að orði —, sem hún leggur til fé.

Þó að ég kæri mig ekkert um að grípa fram fyrir hendurnar á hv. frsm. minni hl., get ég minnt á, að hann sagði í sinni ræðu, að flestir eða allir, sem birtu efnahagsreikninga, myndu birta þá með fasteignamati, sem væri víðast langt fyrir neðan sannvirði og langt fyrir neðan það söluverð, sem þessar eignir ganga fyrir manna á meðal, og af þeirri ástæðu sýndi þetta ekki alltaf rétta mynd af fjárhagnum. Þessu snýr hv. 1. þm. Rang. við og þykist hafa þau orð eftir frsm., að það mætti ekki birta reikningana, því að þá yrðu menn gjaldþrota.

Það er nú svo ástatt með flutning þessa máls, að þeir, sem hafa mælt gegn því, hafa haft öll rökin á sinni hlið; hinir hafa ekkert getað annað en orðið reiðir og komið með brigzlyrði. Og afstaða hv. 1. þm. Rang. vitnar einmitt glögglega um það, að bak við frv. er ekki allt eins hreint og hann vill sýnast láta.