05.04.1938
Neðri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

39. mál, efnahagsreikningar

*Gísli Guðmundsson:

Mér þykir rétt, þar sem ég er meðflm. að þessu frv. og einn í þeim nefndarmeirihluta, sem mælt hefir með því, að segja nokkur orð. Eins og fram hefir komið í umræðum, var ákveðið að senda málið nokkrum aðiljum til umsagnar: bönkunum, S. Í. S., verzlunarráðinu og Vinnuveitendafélaginu. Ég vil taka undir það með hv. frsm. meiri hl., að þegar þetta var ákveðið í n., var það gert til samkomulags við minni hl.

Ég bjóst við því fyrirfram, að flestir þessir aðiljar mundu vera frv. fremur andvígir. Það leggur skyldur á atvinnurekendur og það gerir bönkunum skylt að gefa upplýsingar. Það er ekkert óskiljanlegt, að þessir aðiljar vilji losna við nýjar skyldur. Það hafa þeir nú látið í ljós, og með því hefir ekkert gerzt nema venjulegur sjálfsagður hlutur.

Hinsvegar get ég ekki viðurkennt sum þau rök, sem þessir aðiljar bera fram móti frv. — Ein umsögnin er svo fjarstæð, að jafnvel minni hl. n. hefir ekki séð sér fært að láta prenta hana upp.

Hér er um það að ræða að skylda fyrirtæki, sem skulda 100 þús. eða meira úr bönkum eða sjóðum, til þess að birta efnahagsreikninga sína. Um þetta komst hv. frsm. minni hl. svo að orði í gær, að með því væri verið að gera að engu friðhelgi eiguarréttarins og brjóta þá leynd, sem slíkum fyrirtækjum væri nauðsynleg. En jafnvel þó að svo væri, að hér væri brotin sú leynd, sem sumir atvinnurekendur vilja halda, þá er þetta ekki lagt á aðra en þá, sem skulda a. m. k. 100 þús., og það munu ekki vera ákaflega mörg % af atvinnurekendum á landinu. Annars hefir hæstv. atvmrh. fært nóg rök fyrir því, að það nær engri átt, að verndun eignarréttarins sé burt numin með þessu, og hrakið önnur svigurmæli af því tægi.

Það hefir verið sagt, að með frv. sé gengið lengra en í nágrannalöndum í því að heimta birting efnahagsreikninga, og ummæli grg. um hliðstæður erlendis dregin í efa. Það má deila um, hvað séu hliðsfæður, en ég vil leyfa mér að fullyrða, að hér sé um virkilegar hliðstæður að ræða.

Með þessu frv. er verið að stofna til óþarfa eftirlits, segja menn, og afskiptasemi við stofnanir landsins. Með þessu er ráðizt á einkaframtakið. Þetta er gert í þeim pólitíska tilgangi, að geta komið fram „krítík“ á atvinnurekstri nokkurra andstæðinga, vakið umtal og róg um fyrirtæki þeirra, segja andstæðingar frv., og þykir það mesta goðgá, að almenningur fái vitneskju um það veltufé þjóðarinnar, sem tiltölulega fámennum hópi hefir verið trúað fyrir að ávaxta; bankaráðið eitt eigi að vita um það, endurskoðendur bankareikninganna að gefa vottorð um, að allt sé í lagi, — og þá sé þetta nógu tryggt.

Ég held, að hver sanngjarn maður hljóti að viðurkenna, að hér stendur öðruvísi á en víðast annarsstaðar. Lánsfénu er þannig varið, að það snertir alla þjóðina. Hér á landi eru bankarnir allir ríkiseign eða sama sem, en óvíða erlendis. Það mun líka vera nær einsdæmi, að ríkið ber hér ábyrgð á öllu sparifé þeirra. Það er því eins nauðsynlegt og að vita, hvernig ríkisfé er varið. að vita, hvernig þessu sparifé í ríkisábyrgð og lánsfé fengnu með ríkisábyrgð er varið. Munurinn er aðeins sá, að fé ríkissjóðs er tekið með sköttum, en hitt með lánum, sem endurgreiðast af almenningi með vöxtum og jafnvel með beinum ríkisframlögum til skuldaskila. Vegna þessa hlýtur hver maður að viðurkenna réttmæti sérstakra ráðstafana hér á landi. Og þá má ekki minna vera en að þjóðin fái að fylgjast með þessum fyrirtækjum sínum.

Bæði hv. 8. landsk. og hv. 6. þm. Reykv. héldu því fram, að tilgangur frv. væri að gefa tilefni til gagnrýni á pólitískum andstæðingum. Þessu hefi ég þegar svarað að mestu leyti. En af því að tilgátan er ekki sérstaklega falleg, verð ég að minna á það, að því aðeins verður það fyrirtækjum óhagstætt að birta reikninga sína, að þau séu enn verr stæð en almannarómur segir. Standa þau sig hinsvegar betur, hafa þau ekkert nema hag af. Ef ekkert er birt, hlýtur gagnrýnin á rekstri skuldugra fyrirtækja stöðugt að vaxa og verða ómótstæðileg. Vegna ýmissa atvika hefir ekki orðið hjá því komizt, að hagur sumra slíkra fyrirtækja yrði opinbert mál, og hv. andstæðingar frv. geta varla ímyndað sér, að nokkurt fyrirtæki sé friðað fyrir gagnrýni, þó að þetta frv. yrði stöðvað. Enda álít ég, að slík friðun væri ekki holl.

Með þessu frv. á að vera tryggt, að sú gagnrýni. sem fram kemur, geti byggzt á opinberlega skjalfestum upplýsingum. Þá þarf ekki lengur að þrátta um, hvort fyrirtæki skuldi 2 eða 3 hundr. þús., 3 eða 4 millj. kr. Og það á að tryggja, að þegar sum fyrirtæki hafa orðið fyrir opinberri gagnrýni, þá liggi opið fyrir að bera hag þeirra saman við önnur hliðstæð, en enginn njóti þess öðrum fremur að vera leystur undan gagnrýni, ef hann starfar með miklu lánsfé.

Það er hvorttveggja um þetta frv., að það felur ekki í sér nema rétta og sanngjarna ráðstöfun fyrir þá þjóð, sem sjálf ber ábyrgð á öllu því fé, sem bankarnir lána út — sanngjarna tryggingu vegna sérstakra ástæðna hér á landi —, og að gagnvart fyrirtækjunum sjálfum er ekkert skipulag, sem skapazt hefir, réttlátara og sanngjarnara en að tryggja þannig, að gagnrýnin, sem hlýtur að koma upp, verði á réttari og sannari forsendum byggð en áður.