06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

39. mál, efnahagsreikningar

*Thor Thors:

Það er búið að ræða þetta mál nokkuð mikið, og þarf ég því ekki að vera langorður um það. En af því að ég hefi átt nokkurn þátt í afgreiðslu þess í allshn., finnst mér ástæða til að gera nokkrar aths. við ýmislegt, sem komið hefir fram í ræðum þeirra manna, sem mjög mæla með framgangi þessa máls.

Hv. 1. þm. Rang. hefir mjög látið þetta mál til sín taka, í fyrstu sem form. allshn. í forföllum hv. þm. Barð. Þar lagði þessi maður mjög mikið kapp á framgang málsins, svo mikið, að vart mátti leita umsagnar helztu aðilja um það, áður en það væri afgr. í n. Og hér í hv. d. talar hann með mjög miklum hita um málið og virðist álita það vera eitthvert mesta bjargráð landinu til handa á yfirstandandi örðugleikatímum, að slíkt mál sem þetta nái fram að ganga. Þessi hv. þm. virðist mjög lítið gera úr því aðhaldi, sem eftirlit bankaráðs og jafnvel fjmrh. veitir bönkunum. Og hann lét sér þau ummæli jafnvel um munn fara, að bankaráðsmönnunum væri ekki treystandi, því að þeir væru „interesseraðir“ í lánveitingum. Bankaráðsmenn eru kosnir sem trúnaðarmenn almennings og eiga ekki þar annara skyldna að gæta en að bera fyrir brjósti hag bankanna. Það eru þess vegna þung ummæli þetta í garð formanns Framsfl., hv. þm. S.-Þ., sem á sæti í bankaráði Landsbankans, og hv. þm. N.-Þ., sem á sæti í bankaráði Útvegsbankans, að þeim sé ekki sem bankaráðsmönnum treystandi til að vera trúir í þessum trúnaðarstöðum, þar sem þeir séu sjálfir beinlínis „interesseraðir“ í lánveitingum.

Hv. 1. þm. Rang. og aðrir, sem um þetta mál hafa talað af hálfu stjórnarfl., hafa mjög orð á því, að með þessari birtingu efnahagsreikninga færist eftirlitið með lánsstofnunum yfir til almennings. En þetta er firra. Því að almenningi er ekki gefinn neinn kostur á að veita bönkunum neitt aðhald um það, hvernig þeir ráðstafa sínu fé, þó að frv. verði samþ. Það er aðeins með því opnuð leið til gagnrýni, sem við vitum, að mundi fara eftir pólitískum línum í hvert sinn, en ekki raunverulegum ástæðum bankanna. Og það sýnir sig líka bezt á því, hverjir það eru, sem mest fagna þessu frv., hvernig mál þetta er. Engir hafa gripið þetta mál eins fegins hendi eins og kommúnistar hér í þessari hv. d. Því það er eins og frv. sé flutt fyrst og fremst í þágu niðurrif;mannanna í þjóðfélaginu. Þeim er þannig opnuð leið til þess að beina pólitískum árásum í garð andstæðinga sinna. Þetta, að í þessu felist nokkurt aðhald gagnvart bönkunum, er hin mesta firra. Allar lánsstofnanir eru jafnfrjálsar sinna athafna eftir sem áður, að frv. þetta er samþ., og það er vitanlega útúrsnúningur einn, þegar þessi hv. þm. segir, að andstaða okkar sjálfstæðismanna gegn þessu frv. hljóti að koma af því, að við álítum, að eitthvað ljótt kæmi í ljós, ef efnisatriði þessa frv. kæmi til framkvæmda. Andstaða okkar byggist á því, að við álitum, að hér sé um einkamál manna að ræða. Og við álítum það alls ekki í samræmi við núverandi þjóðskipulag í raun og veru, að slík einkamálefni manna á fjármálasviðinu séu gerð að opinberum umræðuefnum. Hv. 1. þm. Rang. hlýtur að skilja það, að í samkeppninni, sem nú ríkir á sviði viðskiptalífsins, getur það verið mjög óþægilegt, að keppinautar geti að ástæðulausu átt kost á að fylgjast með efnahag annara manna. Og ég vil leggja áherzlu á það, að þessi löggjöf er ónauðsynleg af þeirri ástæðu; að það er í núverandi l. beint ákvæði, sem fyrirskipar birtingu efnahagsreikninga. Það nær að vísu ekki lengra en til hlutafélaga. En þetta ákvæði er í 35. gr. hlutafélagal., nr. 77 frá 1921, því að þar segir í 2. málsgr.: „Aðalniðurstöðu reikninga ár hvert skal tilkynna til hlutafélagaskrár og skrásetja“. — Og í 53. gr. sömu l. eru beinlínis lagðar háar sektir við því, ef þetta ákvæði 35. gr. l. er vanrækt.

Ég vil nú spyrja: Hvaða leyndardómar eru það í rekstri fyrirtækja, sem lánsstofnanir eiga ekki kost á að kynna sér? Hafa ekki bankar og lánsstofnanir rétt til þess á hverjum tíma, ekki aðeins að heimta efnahagsreikninga fyrirtækjanna, heldur líka alla rekstrarreikninga þeirra? Og hafa lánsstofnanir ekki rétt til þess, hvenær sem er, að gera það að skilyrði fyrir áframhaldandi lánveitingu, að sett sé sérstakt eftirlit á hvaða fyrirtæki sem er? Og hvaða leyndardómar eru í sambandi við fyrirtæki þess opinbera? Hafa ekki skattanefndir á hvaða tíma sem er heimild til þess að láta rannsaka allar bækur hvaða fyrirtækis sem er?

Hv. þm. N.-Þ. sagði hér í gær, að fullkomlega hliðstæð lagaákvæði eins og felast í þessu frv. væru í gildi erlendis. Ég vil eindregið skora á þann hv. þm. að upplýsa, hvar eru erlendis í löggjöf nákvæmlega hliðstæð ákvæði í l. því, sem í þessu frv. felst. Það hefir verið sérstaklega rannsakað og upplýst, að t. d. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru engin hliðstæð lagaákvæði þessu í löggjöf. Og fyrr en hv. þm. N.-Þ. vitnar til ákveðinna landa og sannar, að slík lagaákvæði séu þar gildandi, verð ég að telja ummæli hans mælt af vanþekkingu.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að hér væri í raun og veru ekki um svo mikið nýmæli að ræða, því að það hefði mjög tíðkazt, að fjárhagur einstakra fyrirtækja hefði verið gerður að umræðuefni. Og þetta er rétt hjá honum. því að þessir trúnaðarmenn almennings, sem hafa átt kost á að kynna sér fjárhag einstakra fyrirtækja, hafa oftast verið menn, sem eitthvað hafa verið við stjórnmál riðnir, og gegnum þá hafa hafizt umræður um þessi mál, ef þeim hefir þótt ástæða vera fyrir hendi til þess. Það skal látið ósagt, að hve miklu leyti þessir menn hafa rofið þá þagnarskyldu, sem á þeim hvíldi. En ég hygg, að svo muni lengst af fara, að ef eitthvað þykir ískyggilegt um rekstur einstakra fyrirtækja, þá muni það í okkar litla þjóðfélagi verða gert að opinberu umræðuefni. En að það sé nauðsyn til þess að lögbjóða, að opinberlega séu birtir reikningar allra einstaklinga og fyrirtækja, sem skulda vissa upphæð, það er auðvitað allt annað og óskylt mál og miklu lengra gengið af hendi löggjafans heldur en nokkur skynsamleg ástæða mælir með.

Þetta frv. var flutt af hv. þm. V.-Húnv., sem síðan málið var flutt, hefir haft sætaskipti hér á hæstv. Alþ. og er nú orðinn hæstv. atvmrh. Mér þótti leitt til þess að vita, að það skyldi verða sú fyrsta gjöf, sem hann sem atvmrh. ætlar að veita þjóðinni, að leggja nýjar hömlur á atvinnulíf í landinu, eins og felast á þessu frv. Því að óneitanlega munu slík ákvæði sem þessi verða til þess að draga úr því, að menn hætti fjármunum sínum í stórhættulegan atvinnurekstur, sem við Íslendingar nú yfirleitt verðum við að búa. Það er vissulega ekki hvöt fyrir menn til þess að hætta fjármunum sínum í vafasöm fyrirtæki, ef þeir jafnframt fjárhagsáhættunni eiga það yfir höfði sér, að hver og einn geti grúskað í fjárhag þeirra, og keppinautar þeirra og öfundarmenn geta á hverri stundu gert fjárhag þeirra að opinberu umræðuefni. Það sjá allir, sem með einhverjum snefil af sanngirni líta á þetta mál, að það hlýtur að hafa þær afleiðingar, ef þetta frv. verður að l., að menn verða ófúsari til þess að leggja fjármuni sína í okkar áhættusamlega atvinnulíf. Ég hefði kosið hæstv. atvmrh. annað betra en að það yrði hans fyrsta spor sem atvmrh. að rétta atvinnulífi okkar þessa gjöf. — Hæstv. atvmrh. er nú ekki viðstaddur, en hann talaði um, að það væri að sjálfsögðu rétt að skylda einkafyrirtæki til þess að birta sína efnahagsreikninga, af því að ríkisstofnanir og ríkissjóður yrðu að gera slíkt hið sama. Mig furðar á því, að slík ummæli skuli koma frá jafnvirðingarverðum sessi. Það er leitt til þess að vita, að hæstv. atvmrh. skuli ekki gera sér ljósa grein fyrir þeim mun, sem er í þessu sambandi á ríkisrekstri og einkarekstri. Fjárhag ríkisrekstrar er ekki hægt að leyna, af því að hann er eign allrar þjóðarinnar. En yfir einkarekstri verður að hvíla sú leynd, sem nauðsynleg er í samkeppninni. Sá reginmunur er á þessu tvennu, að bak við ríkisrekstur standa eignir þjóðarinnar, en í einkarekstri eru fjármunir einstaklinga í hættu.

Hæstv. atvmrh. sagði, að reikningar samvinnufélaga stæðu opnir öllum félagsmönnum sínum til athugunar. Svo er reyndar líka um einkafyrirtæki, að reikningar þeirra eru opnir öllum félagsmönnum, Hver sem er, sem á einhvern hlut í fjármunum einkafyrirtækis, hefir á hvaða tíma sem er rétt til þess að fylgjast með rekstri þess.

Ég ætla ekki að svara hv. 5. þm. Reykv. mörgum orðum. Hann hélt hér sína vanalegu ræðu um bankatöpin og Landsbankann, sem allir hv. þm. kunna nú utan að og svarað hefir verið við ýms tækifæri, svo að ég nenni nú ekki að vera að endurtaka það að þessu sinni. Það er annars næsta einkennilegt með þennan hv. þm. og samband hans við bankana, að það er alltaf Landsbankinn, sem á sök á öllu, en hann minnist aldrei á Útvegsbankann. Því hefir stundum verið fleygt, að það muni vera einhverjir leyndir þræðir milli sumra stjórnenda Útvegsbankans og Rommfl. Væri æskilegt að fá það upplýst. En það vekur grunsemd, að Útvegsbankinn virðist friðhelgur í Kommfl. Vita þó allir hv. þm., að um töp hefir verið að ræða hjá þeim banka engu síður en í Landsbankanum.

Um einstakar gr. þessa frv. vil ég geta þess, að mér finnst það næstum ósæmandi, þegar í 3. gr. er verið að tala um, að ráðuneytinu sé heimilt að krefjast borgunar fyrir birtingu efnahagsreikninga, og um, að það ákveði söluverð á þeim. Það á að fara að setja á stofn fyrirtæki, hér hjá okkur, sem á að selja þetta út, sem á að vera einkamálefni manna. Mér þykir ríkisvaldinu lítil virðing ger með slíkri stofnun.

Því hefir mjög verið haldið fram, að það sé nauðsyn á því, að þessir reikningar verði birtir, af því að ríkið beri ábyrgð á öllum bönkunum. En út frá þeirri röksemd ætti þó engin nauðsyn að vera fyrir hendi til þess að skylda ýmsa sparisjóði til þess að birta þessa reikninga, við skulum segja fyrirtæki eins og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Þar er fyrirtæki, sem ekkert á skylt við ríkið. Hvaða rök er þá hægt að færa fyrir því, að það beri að skylda slíkt fyrirtæki til þess að birta sína efnahagsreikninga?

Svo eru ákvæði um það í 5. gr. frv., að ráðuneytið geti hvenær sem er krafið banka og sjóði um skýrslu yfir lánveitingar. Þetta er svo víðtækt, að það nær til allra sparisjóða og til allra sjóða einkafyrirtækja líka, sem hafa einhverjar lánveitingar með höndum. Hér er allt of langt gengið, þar sem það verður þó að teljast ríkinu gersamlega óviðkomandi, hvernig einkastofnanir ráðstafa sínum sjóðum, og nær vitanlega ekki nokkurri átt að skylda skuldunauta slíkra fyrirtækja til að birta opinberlega sína efnahagsreikninga.

Ég hefi andmælt þessu frv. af því, að ég álit það fyrst og fremst óþarft með öllu vegna gildandi ákvæða í hlutafélagal. Í öðru lagi álít ég það til óþurftar. þar sem það verður til þess eins að auka illdeilur í okkar þjóðfélagi og draga þær um of inn á fjárhagssvið einstaklinga. Og ég fæ ekki séð, að það feli í sér neitt tryggilegt aðhald gegn hættulegum fjárveitingum. Ég fæ ekki séð, að það hafi annan tilgang eða feli í sér aðra möguleika en að skemmta niðurrifsmönnunum í okkar þjóðfélagi.