06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

39. mál, efnahagsreikningar

*Gísli Guðmundsson:

Hv. þm. Barð. hafði hér tvennt að athuga. Ekki eiginlega við frv., heldur við grg. þess og eina brtt., sem fram er borin. Hann taldi, að það mundi geta verið vafamál, hvort hér væri ekki farið í bága við skyldu skattan. til þess að halda leyndum þeim skjölum, sem henni berast, með ákvæðum brtt. um það, að vottorð skattstofunnar skuli fylgja efnahagsreikningi, þegar hann er sendur. Á þetta hefir nú ekki verið bent fyrr í umr., og geri ég því ráð fyrir, að aðrir þeir, sem um þetta mál hafa talað, hafi ekki álitið hættu á því, að þetta kæmi í bága við gildandi lög. Auðvitað verður að gjalda varhuga við árekstri á gildandi lög, og sé ég ekki annað en mætti gera það með breyttu orðalagi. En brtt. hefir verið borin fram til frekari tryggingar því, að þeir efnahagsreikningar, sem sendir eru, séu réttir. Og um það hefir einmitt verið mikið talað í þessum umr., sérstaklega af hv. 8. landsk., að sérstök ástæða væri til að tryggja, að þessir reikningar væru réttir, og er ég honum alveg sammála um það. Að vísu er ég ekki maður lögfróður, en ég hefi ekki álitið, að þetta þyrfti að koma í bága við ákvæði skattalaga um þagnarskyldu skattanefnda, þó að hlutaðeigandi sjálfur útvegaði hjá skattstofunni það vottorð. Því að þannig mundi það verða í framkvæmdinni, að um leið og hlutaðeigandi fyrirtæki sendir sinn efnahagsreikning til birtingar, fer hann til viðkomandi skattstofu og biður hana um vottorð um það, að samskonar efnahagsreikningur verði sendur til stjórnarráðsins. En ef svo ólíklega háttar til, að þetta komi í bága við gildandi lög, þá mætti taka það til athugunar.

Þá hefir bæði af hv. þm. Barð. og hv. þm. Snæf. verið nokkuð rætt um, að það væri ofmælt í grg. frv., að hliðstæð ákvæði giltu í öðrum löndum. (BJ: Ekki ofmælt, en að það lægju ekki fyrir upplýsingar um það). Já, að ekki lægju fyrir upplýsingar. En hv. þm. Snæf. mælti frekar í hina áttina. Nú er það svo, að í grg. segir, að hliðstæð ákvæði séu í erlendri löggjöf. Það er ekki sagt, að það séu sömu ákvæðin, eins og einn hv. þm. sagði í umr. Og ég vil halda því fram, að þau ákvæði, sem eru í erlendri löggjöf um þetta efni — sem ég því miður hefi ekki við höndina —, þau megi telja algerlega hliðstæð. Því til sönnunar bendi ég á ákvæðið um það, að hlutafélög séu skyld að birta reikninga, ekki eingöngu efnahagsreikninga, heldur rekstrarreikninga. Miðað við staðhætti erlendis og hér verður þetta að skoðast mjög hliðstætt. Það er t. d. svo í Englandi, að fjöldi af hlutabréfum er almennt til sölu á opinberum markaði. Mikill fjöldi manna, og ekki eingöngu þeir, sem hafa yfir miklum fjármunum að ráða, heldur þeir, sem óska að ávaxta sitt litla sparifé á tryggilegan hátt á góðum vöxtum, kaupa þessi hlutabréf. Þannig má aðstaða hluthafa í Englandi í ýmsum tilfellum teljast mjög hliðstæð aðstöðu sparifjáreigenda hér á landi. Munurinn er bara þessi, að hér á landi tíðkast ekki, að fólk, sem hefir litlar fjárhæðir, kaupi hlutabréf, vegna þess að hlutabréfasalan er ekki á þá leið, heldur leggja þeir sínar litlu fjárhæðir á sparisjóðsreikning í banka. Síðan lánar bankinn fyrirtækjum spariféð, sem hann hefir tekið á móti með ábyrgð ríkisins. Þegar þetta tvennt er nú borið saman, þá tel ég mega fullkomlega orða það þannig, að um hliðstæðar aðgerðir sé að ræða til tryggingar í þessu frv. eins og eru í löndum, þar sem hlutafélög afla fjár síns eins og ég hefi greint. Og tel ég mig þá hafa svarað þessum aðfinnslum, sem í rauninni ekki voru gegn frv., heldur viðkomandi orðalagi á einum stað í grg.

Annars verð ég að segja, að mér finnst sumt, sem andstæðingar frv. segja í þessum umr., mjög ofmælt. Mér finnst það mjög ofmælt, þegar hv. þm. Snæf. sagði, að það væru niðurrifsmennirnir í þessu landi, sem stæðu að þessu frv. og fyrir þessu máli. Ég vil spyrja hv. þm. Snæf., hvort hann hafi íhugað, hvað fyrir honum vakir með þessum orðum. Vill hv. þm. Snæf. endurtaka þetta t. d. um forstöðumenn samvinnufélaganna, sem mæltu eindregið með þessu frv. og í nokkuð strangara formi en það er, að þeir séu niðurrifsmenn í þjóðfélaginu? Ég hygg, að samvinnan, bæði um verzlunarrekstur og atvinnurekstur, sé um alla uppbyggingu fullkomlega sambærileg við annan atvinnurekstur hér á landi. Og ég vil ekki taka með neinum þökkum, að hv. þm. Snæf. viðhefir slík orð um samvinnufélögin, að að þeim standi niðurrifsmenn þjóðfélagsins. Enda vil ég mega vænta þess, að hann hafi sagt þetta nokkuð óíhugað og muni fús að taka til greina það, sem ég nú hefi sagt. Ég get ekki heldur með neinu móti skilið, hvernig réttlæta má það orðalag, að með þessu frv. sé verið að leggja hömlur á atvinnulífið, þótt birta eigi efnahagsreikninga, sem hafa stórfelldar upphæðir af almenningsfé. Enda hefir ekki verið nánar útlistað, hvað átt er við. Mér finnst líka algerlega óréttlátt að segja, að slík ákvæði í l. mundu draga úr mönnum að verja fjármunum sínum í atvinnurekstur. Yfirleitt öll löggjöf, sem miðar að því að tryggja atvinnurekstur í landinu, á að vera fremur hvöt til slíks. En eftirlitsleysi allt á atvinnusviðinu miðar að því að draga úr mönnum að leggja fé í atvinnurekstur.

Hv. þm. Snæf. minnkist í sinni fyrri ræðu á það, sem ég sagði hér í gær. að það stæði öðruvísi á hér heldur en í öðrum löndum, þar sem erlendir bankar væru meira og minna einkaeign, en hér á landi allir ríkisbankar. Mér virtist hann í sinni fyrri ræðu ganga inn á þetta sjónarmið að verulegu leyti. En hann sagði, að þó að svona yrði litið á, þá væri ekki rétt að láta þessa löggjöf ná til lána, sem veitt eru úr sjóðum. Ég vil fyllilega taka til greina allar aths. á rökum byggðar. Og ég verð að segja, að að vissu leyti hefir hv. þm. Snæf. rétt fyrir sér í því, að ekki sé algerlega hliðstætt það, sem bankarnir lána, og það, sem ýmsir aðrir sjóðir lána. En samt hygg ég, að af ýmsum ástæðum, sem ég skal ekki koma nánar inn á, sé réttara að hafa ákvæðið það vítt og almennt heldur en láta það eingöngu ná til hankanna. Mun ef til vill gefast síðar tækifæri til að ræða þetta nánar. En ég vil gjarnan viðurkenna, að nokkur rök eru fyrir því hjá hv. þm., að ekki séu algerlega hliðstæð lán bankanna, sem þjóðin ber ábyrgð á að öllu leyti, og lán sumra þeirra sjóða, sem a. m. k. ríkið ber ekki ábyrgð á. Hinsvegar verður þó að telja suma sjóði algerlega hliðstæða að þessu leyti.

Þá hefir nokkuð verið rætt um það, sérstaklega af hv. 8. landsk., hvort sá mælikvarði væri réttur, að binda skylduna til að birta efnahagsreikning við ákveðna upphæð skuldar fyrirtækisins, eftir till. 100 þús. kr. Taldi hv. þm. ekki vit í þessum mælikvarða. Hann benti á, að vel gæti verið, að fyrirtæki, sem skuldaði 50 þús. kr., stæði verr en það, sem skuldaði 100 þús. kr., og að það væri meiri hætta fyrir almenning, að fé væri lagt í það heldur en stærra fyrirtæki og skuldugra, en með meiri tryggingum á bak við. Hann benti út um gluggann og sagði. að allt í kringum Austurvöll væru stórbyggingar, sem ekki væri óeðlilegt að láta hvíla á einar 100 þús. kr. hverri, þær myndu standa vel undir slíkum lánum. Ég get líka gengið inn á, að það út af fyrir sig, hvað atvinnufyrirtæki skuldar mikið, er ekki algildur mælikvarði á það, hvort gott er eða vont að eiga þar peninga. En eins og hv. frsm. meiri hl. hefir bent á, hafa andmælendur þessa frv. ekki bent á annan mælikvarða, sem hentugri væri, þegar um birtingarskyldu er að ræða. En það, sem skiptir máli, er ekki kannske það eingöngu, hvort hættulegt sé, að fé sé bundið í einhverjum tilteknum fyrirtækjum. heldur getur það líka verið álitamál frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, jafnvel þótt féð sé algerlega tryggt þar, sem það er lánað, hvort það sé samt sem áður réttmætt að hafa það á þessum stað. Í landi þar sem eins mikið hungur er eftir peningum til framkvæmda eins og hér á landi, þá þarf á því að halda, að meta þetta, hvað sem tryggingum liður, á hvern stað eigi helzt að lána féð. Það skiptir miklu máli þjóðhagslega, hvernig lánveitingar eru reknar frá þessu sjónarmiði. Ég held fram, að það sé full ástæða til að taka tillit til þessa sjónarmiðs.

Það er nú að vísu ekki þessu máli viðkomandi, heldur sögulegt atriði, sem hv. 8. landsk. hefir dregið inn í umr., en það voru málaferli þau, sem Garðar Gislason stórkaupmaður átti í við þáverandi ritstjóra Tímans. Ég tel ekki rétt að láta því ómótmælt, sem hann fór ekki alveg rétt með. Hann kvað Garðar hafa sannað, að hann hefði beðið tjón við þessi skrif, sem birtust um hans atvinnurekstur. Það var einmitt fram tekið, að ég hygg í forsendum hæstaréttar, að málshöfðunin hefði ekki sannað það, að hann hefði beðið tjón við skrif þessi, en hinsvegar hefðu þau verið til þess fallin að geta skaðað hans atvinnurekstur. Þetta voru talsvert umtalaðar röksemdir á sínum tíma. Og þó að þetta mál komi ekki dagskrármálinu við, vildi ég leiðrétta missögn þá, sem kom fram í umr.

Þá vil ég enn undirstrika það, sem bent var á af hv. frsm. meiri hl. og hæstv. ráðh., að hún virðist vera dálítið undarleg, þessi viðkvæmni, sem andstæðingar þessa frv. ala í brjósti gagnvart hlutafélögum og atvinnufyrirtækjum einstakra manna, ef þau þurfa að birta almenningi rétta reikninga um efnahag sinn. Hún virðist vera dálítið undarleg, þessi viðkvæmni, þegar þess er gætt, að af hálfu ýmissa manna hér á landi er alls ekki verið að taka slík tillit, þar sem um önnur fyrirtæki er að ræða. Það hefir verið bent á það áður, hvernig farið var að gagnvart S. Í. S. á hinum hörðustu tímum eftir stríðið, þegar afurðir bænda höfðu fallið í verði og harðindi gengu yfir landið, þannig að bændur og aðrir meðlimir samvinnufélaganna urðu að verja óvenju miklu fé til að kaupa fóðurbæti. Þá var notað tækifærið til þess að gera harðvítugar árásir á S. Í. S. og samvinnufélögin í landinu. Og ekki nóg með það, að þessar árásir birtust í blöðum og ritum innanlands, heldur var líka gengið svo langt, að þessar ritsmíðar voru þýddar á útlend mál og sendar til lánardrottna Sambandsins, til þess að þeir gætu haft þessar upplýsingar í sínum höndum. Samvinnufélögin hafa ekki út af fyrir sig kvartað yfir þessu sérstaklega. Þau hafa engrar miskunnar beðið, en staðið af sér þessar árásir. Ég verð að kalla það undarlegt, þegar flokksmenn þeirra manna, sem stóðu að slíkum árásum, ganga svo ákveðið móti slíku frv. sem þessu.

Ég skal enda á því, sem hv. þm. Snæf. sagði síðast og fleiri samherjar hans hafa sagt, að þetta um ástand fyrirtækisins væri einkamál þeirra manna, sem lánsfé fengju úr lánsstofnunum landsins. Þetta getur verið skoðun hv. þm. Snæf., og ég ber fulla virðingu fyrir því, að hann hafi sína skoðun um þetta mál eins og aðrir. En ég hefi gagnstæða skoðun. Og það hygg ég þeir aðrir hafi líka. sem að þessu frv. standa. Á þessum skoðanamun byggist mjög eðlilega ágreiningurinn um þetta frv. Við formælendur frv. teljum það ekki einkamál þeirra manna, sem hafa fengið að láni, þó að það sé í góðum og virðingarverðum tilgangi í mörgum tilfellum, hundruð þúsunda og milljónir af fé þjóðarinnar, sem ríkið er í ábyrgð fyrir og verður að borga á einhvern hátt, — við teljum það ekki einkamál lántakenda, hvernig fénu er varið. Ég sé ekki, að þessir menn og fyrirtæki hafi rétt til þess að berjast móti því, að þeim, sem féð eiga og það ábyrgjast, þ. e. a. s. almenningi í landinu, gefist kostur á að vita, hvar það er, — bara vita, hvar það er. Ekki einu sinni að vita, hvar það er allt, heldur, hvar það af því er, sem hefir verið lánað út í fúlgum, sem nema 100 þús. kr. eða hærri fjárhæðum. Öll þau fyrirtæki og allir þeir einstaklingar, sem skulda minna í bönkum og sjóðum en 100 þús. kr., koma ekki undir þessi l., ef brtt. n. verður samþ.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, enda mun ég nú vera búinn með tíma minn við þessa umr. Ég hefi í þessum umr. ekki heyrt nein þau rök, sem hafa breytt skoðun minni um réttmæti þess, að slík löggjöf verði sett hér til tryggingar því. hvernig veltufé því, er almenningur ber ábyrgð á, er varið. Ég játa það hinsvegar, eins og ég sagði áðan, að það virðist vera hér uppi skoðanamunur um ákveðið, djúptækt, þjóðfélagslegt atriði, og það er vitanlega ekkert við því að segja, þó að sá skoðanamunur skipti mönnum í sveitir viðkomandi afstöðu til þessa máls.