11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

39. mál, efnahagsreikningar

*Thor Thors:

Það voru nokkur ummæli, er féllu hér síðast, þegar málið var til umr., hjá hv. þm. N.-Þ., sem ég vildi gera að frekara umræðuefni. Ég hefi skorað eindregið á þennan hv. þm. í fyrri ræðu minni að láta þess getið, hvar slík ákvæði, sem ráðgerð eru í þessu frv., séu gildandi l., og hefir hann ekki enn getað bent á, hvar það sé, en sagði, að slík ákvæði mundu finnast sumsstaðar í erlendri löggjöf. Ég býst við, að hv. þm. viti ekkert um þetta, og ef hann leitaðist við að kynna sér þetta má!, myndi hann komast að þeirri niðurstöðu, að slík ákvæði sem þessi gilda hvergi. Það er upplýst, að engin slík ákvæði eru í norðurlandalögum. Hv. þm. hélt því fram, að eitthvað svipað þessu mundi gilda hjá Englendingum. Hygg ég það mesta misskilning. Þar eru ekki önnur félög, sem birta efnahagsreikninga. en þau hlutafélög, sem selja hlutabréf sín á frjálsum markaði, og sjá allir, hvílíkur reginmunur er á slíkum fyrirtækjum og algerum einkafyrirtækjum, sem hér á að skylda til að birta efnahagsreikninga sína.

Hv. þm. reyndi að snúa út úr ummælum þeim, er ég viðhafði viðvíkjandi því að þessi ákvæði ætti aðallega að setja fyrir niðurrifsmennina í þjóðfélaginu, og vildi hann segja, að ég hefði með því átt við Samband íslenzkra samvinnufélaga. að það væri skipað niðurrifsmönnum þjóðfélagsins. Þetta er eintómur útúrsnúningur; ég hefi aldrei haldið því fram, að S. Í. S. væri skipað tómum niðurrifsmönnum, né heldur samvinnufélögin úti um land; þó að fyrir liggi meðmæli frá einum forstjóra samvinnufélaganna um, að hann sé frv. meðmæltur, þá get ég ekki álitið þann eina mann tala fyrir munn allra samvinnumanna landsins. Og það er langt frá því, að ég telji þennan mann, sem að þessari umsögn stendur, niðurrifsmann, þó að hann með sinni umsögn verði til að veita lið málefni, sem er fyrst og fremst niðurrifsmönnunum til ánægju og framdráttar.

Hv. þm. taldi, að þetta mundi ekki verða til að draga úr framtaki manna. Ég verð að halda því fram, að svo sé, því að ofan á áhættuna, sem fylgir atvinnurekstrinum, þá mega þeir nú eiga á hættu, að vegna birtingar efnahagsreikninganna verði það opinbert fyrir hverjum og einum óviðkomandi, hvernig fjárhagur þeirra er, og það hvað efnalega sjálfstæðir sem þeir kunna annars að vera. — Hv. þm. vildi þó fallast á gagnrýni mína á því, að það væri óeðlilegt, að skyldur samkvæmt frv. næðu til skuldunauta einkafyrirtækja. Nái frv. að ganga til 3. umr., mun ég freista þess að bera fram brtt., sem fer í þessa átt.

Hv. verjendur þessa máls hafa haldið því eindregið fram, að þetta mundi verða til að skapa nýtt aðhald um lánveitingar. Þetta er hinn mesti misskilningur. Það mundi ekkert aðhald skapa, heldur verður þetta aðeins til að skapa nýja tegund árása í okkar allt of árásargjarna þjóðfélagi. Það gefst aðeins betra tilefni eftir en áður til að draga efnahag einstaklinga og fyrirtækja inn í pólitískar illdeilur í blöðum og á mannfundum. Lánsstofnanirnar hafa eftir sem áður sama rétt til lánveitinga og munu fara sínu fram, hvað sem einstakir stjórnmálamenn segja. Það er nú einu sinni svo, að það er lítið mark tekið á pólitískum árásum utan þess flokks, sem ber þær fram, svo að þess er ekki að vænta, að árásirnar hafi nein áhrif. en þær verða aðeins til að auka á ófrið.

Ég tel kosti þessa frv. enga, en galla þess marga og hættulega. Þess vegna mun ég greiða atkv. móti frv.