11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það er nú orðið langt síðan þessu máli var vísað til fjhn., þó að það hafi dregizt, að n. afgreiddi málið, og valda því ástæður, sem ekki þarf að rekja hér. Eins og ég hefi áður getið hér í d., í sambandi við önnur mál, sem vísað hefir verið til fjhn., þá lítur n. svo á, og sennilega eru allir þm. henni sammála um það, að svo sé ástatt nú, að ekki megi skerða þær tekjur ríkissjóðs, sem hann hefir haft á undanförnum árum, og ennfremur vill n. benda á það, að fulla nauðsyn ber til þess að sjá jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga fyrir sömu tekjum á næsta ári eins og hann á að hafa á þessu ári. Þess vegna mælir n. með því, að þetta frv. verði samþ. Þó skal ég geta þess, að hv. 1. þm. Reykv. hefir fyrirvara um málið, sem hann mun gera nánari grein fyrir sjálfur.

Eins og sést af nál. fjhn. á þskj. 199, þá gerir hún nokkrar brtt. við frv. Fyrsta brtt. á þessu þskj. er ekki frá n. allri, heldur frá meiri hl. hennar, mér og hv. 11. landsk. Þessi fyrsta brtt. okkar er þannig tilkomin, að n. tók til athugunar brtt. við þetta frv. frá fyrrv. atvmrh. (HG). Sú till. er á þskj. 24 og er þess efnis, eins og þm. hafa sjálfsagt kynnt sér, að hluti bæjar- og sýslufélaga af hinum svo kallaða hátekjuskatti skuli renna til byggingarsjóða verkamanna, og ennfremur er svo ákveðið í þeirri till., að sá hluti skattaukans, sem innheimtur er á þessu ári, skuli einnig ganga til byggingarsjóða. N. er víst öll á elnu máli um það, að ekki sé fært að taka það fé, sem ráðstafað er á þessu ári, og verja því á þá leið, sem till. á þskj. 24 fer fram á. Aftur á móti lítum við tveir nm. svo á, að eins og nú er ástatt um atvinnuvegina, þá myndi vera réttara og koma að meiri notum að verja þessu fé til þess að styrkja atvinnuvegina í bæjum landsins og við sjóinn, heldur en að láta það renna beint í bæjarsjóðina, og þá töldum við rétt, að fénu væri varið þannig, að reynt væri að styrkja menn til að bjarga sér sjálfir, ef þess væri kostur. Þess vegna leggjum við til, að þetta fé renni í fiskimálasjóð, og því verði varið til þess að lána sjómönnum og verkamönnum, sem vilja gerast þátttakendur í félagi til togarakaupa, samkv. l. frá síðasta Alþ. Þetta lánsfé yrði 1/3–1/2 af þeirri upphæð, sem l. ákveða, að þeir leggi fram. Þó að það sé ekki mjög mikill hluti, sem l. ákveða, að sjómenn og verkamenn leggi fram í slík félög, þá er það skiljanlegt, að þeir muni eiga erfitt með að leggja svo mikið fram. Þess vegna er hér lagt til, að þeir fái þenna stuðning. Þessi till. byggist á þeirri skoðun, að heppilegast sé, að sjómenn og verkamenn taki að nokkru leyti þátt í ábyrgðinni á þeim atvinnurekstri, sem þeir vinna við og að þau fyrirtæki, sem rekin eru á þann hátt, hafi meiri skilyrði til þess að geta staðið heldur en annar rekstur, ef rétt er að farið og þar af leiðandi beri þjóðfélaginu sérstaklega að styrkja slíka starfsemi. Ég skal játa það, að þetta getur vitanlega orkað tvímælis, hvort hér sé lagt út á rétta braut eða ekki; úr því verður d. að skera, en þetta er till. meiri hl. n. — Hvað snertir að öðru leyti till. á þskj. 24, þá veit ég ekki, hvort rétt er að bera hana hér undir atkv., þar sem tillögumaðurinn á ekki lengur tillögurétt í þessari d. Þó hygg ég, að það hafi verið meining hans, þegar till. n. kom fram, að taka .þá sína till. aftur.

Þá er önnur brtt. n. á þessu sama þskj. við 3. gr. frv. Er það fyrst tölul. 1, 3. stafl. Þær till. eru um að lækka aðflutningsgjöld á skipum og bátum úr 8% í 2% og einnig að lækka á sama hátt aðflutningsgjald af prentpappír. N. lítur svo á, að það sé hið mesta neyðarúrræði að leggja slík gjöld á framleiðsutæki. Þess vegna vill hún hafa þessi framleiðslutæki, skip og báta, a. m. k. í þeim flokki, sem lægst er tollaður, og auk þess var n. fullkunnugt um það, að innflutningsgjaldið hefir hvílt töluvert þungt á bóka- og blaðaútgáfu í landinu, sökum þess hvað það hefir verið hátt á pappír. N. vill því leggja til, að það lækki þannig á prentpappír úr 8% í 2%. — Þá er annar tölul. brtt. við 3. gr., og 2. stafl. er aðeins orðabreyt, þar sem n. þótti betur fara. Ég skal játa það, að það er sjálfsagt margt fleira, sem ástæða er til að breyta hvað orðalagið snertir, en n. fær ekki séð, að þess þurfi við, heldur gerir aðeins þessa einu orðabreyt.

Þá vil ég geta þess, að ákvæðunum um það, hvernig því fé, sem inn á að koma af benzínskattinum, skuli varið, hefir verið breytt frá því, sem það er í gildandi l. fyrir yfirstandandi ár. Ein af þessum breyt. liggur nú í augum uppi, sem sé, að sjálfsagt er að fella niður framlag til Holtavörðuheiðarvegarins, sem á að verða lokið á þessu ári, en í þess stað er tekin upp allhá fjárveiting til vegar yfir Vatnsskarð. En aftur á móti eru önnur atriði í þessum brtt., sem n. hefir ekki fengið neinar skýringar á, og þykir því ekki tímabært að taka afstöðu til þessara atriða málsins að sinni, heldur lætur það bíða til 3. umr. málsins. Ég verð að segja það sem mína skoðun um þennan benzínskatt, án þess að ég taki það fram fyrir hönd n., að eðlilegast væri, að honum yrði öllum varið til viðhalds á vegum. Bifreiðarnar slíta vegum mest allra farartækja, og því eðlilegt, að þær séu sérstaklega skattlagðar til viðhalds veganna. Þessi leið hefir þó ekki verið farin, nema hvað nokkrum hluta skattsins er varið til malbikunar, sem segja má, að sé viðhald vega. Heldur hefir skattinum að mestu leyti verið varið til þess að leggja nýja vegi. En úr því að þessi aðferð er höfð, sem hefir verið notuð síðan benzínskatturinn var tekinn upp, þá finnst mér, að tvö sjónarmið ættu að koma til greina við úthlutun þessa fjár. Í fyrsta lagi, að vegirnir, sem þetta fé er lagt til, hafi almenna þýðingu fyrir þjóðarheildina eða fyrir heila landshluta, svo að féð komi að sem almennustum notum. Þetta má segja bæði um það fé, sem veitt er til vega norður um land, og líka það fé, sem varið er til Suðurlandsbrautarinnar. Í öðru lagi væri rétt að taka tillit til þess, hvar á landinu mestur benzínskattur er greiddur, og verja því fé helzt til vega á þeim stöðum. En nú er svo komið, að það hafa verið teknir vegakaflar upp í þetta frv. án þess að séð verði, að þeir geti heyrt undir þetta tvennt, sem ég hefi nú talið upp. Af þessum ástæðum telur n. rétt að taka þetta mál um úthlutun benzínskattsins til nánari athugunar fyrir 3. umr. frv.

Þá hefir komið fram brtt. frá tveim dm. einmitt út af þessu atriði, skiptingu benzínskattsins. Þeir þm., sem bera fram þá brtt., eru hv. 6. landsk. og hv. þm. Vestm. Samkv. því, sem ég hefi nú sagt um það, að n. hefir fyrir sitt leyti frestað ákvörðun um þetta mál, þá fyndist mér nú rétt, að flm. þessarar till. láti þær bíða til 3. umr.

Annars verð ég að segja það, að úr því að það er upptekið að úthluta þessum benzínskatti til einstakra staða á annað borð, en ekki til vegaviðhalds, sem ég fyrir mitt leyti hefði talið réttara, þá teldi ég, að sú úthlutun ætti eingöngu að fara fram á fjárl. eftir till. fjvn., eins og hún yfirleitt hefir það hlutverk að gera till. um það, hvernig tekjum ríkissjóðs sé varið. Ég álít það nóg, ef það á að vera á annað borð togstreita um þetta fé, að hún færi fram í sambandi við afgreiðslu fjárl., en sé sleppt úr einstökum málum eins og þessu. Það má því vel vera, að ég geri till. milli umr. í n., að úthlutunin fari fram eftir ákvæðum fjárl. Þarf ég ekki að fjölyrða um þetta að sinni.