29.04.1938
Efri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

39. mál, efnahagsreikningar

*Árni Jónsson:

Mér finnst, að vel hefði farið á því, að hæstv. atvmrh., sem er aðalflm. frv., að vísu sem óbreyttur þm. V.-Húnv. — því að hann var þá ekki kominn í tignina —, hefði fylgt því úr hlaði hér í hv. d. með nokkrum orðum. En hann er nú sennilega við annað bundinn.

Frv. er hingað komið frá hv. Nd. Það, sem einkum vakti athygli við meðferð þess þar, var, að einn þingflokkurinn tók því með sérstökum fögnuði, og það var ekki flokkur hv. flm., heldur andstöðuflokkur hans í orði kveðnu. Konmmúnistar í hv. Nd. réðu sér ekki af fögnuði, er þetta mál kom þar fram. Aftur voru flokksmenn hæstv. atvmrh. skiptir í málinu, og tveir þeirra töluðu og greiddu atkv. gegn frv. Mér finnst þetta segja nokkuð til um eðli málsins. Málið snertir íslenzka atvinnurekendur, og þegar vitað er, hver er afstaða kommúnista til atvinnurekendastéttarinnar, má fara nærri um, hvort þetta frv. muni vera til eflingar íslenzkum atvinnurekstri eða ekki.

Maður sá, sem flutti frv. upphaflega, er í millitíðinni orðinn atvmrh. Og svo mikil skylda sem honum bar sem óbreyttum þm. til að gera ekkert til að íþyngja atvinnurekstrinum, þá mætti ætla, að honum bæri nú enn meiri skylda til þess, sem þeim manni í þjóðfélaginu, er vegna stöðu sinuar á að hafa manna mesta ábyrgðartilfinningu í þessu efni.

Þetta mál hefir reyndar algerlega farið úr reipunum í meðferð hv. Nd. Í frv. er upphaflega gert ráð fyrir, að stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar skuli birta efnahagsreikninga, ef skuldir þeirra nema 50 þús. kr. eða meira. Allshn. hafði orðið ásátt um að snúa sér til nokkurra stofnana og leita álits þeirra um frv. Nú liggja fyrir umsagnir Landsbankans, verzlunarráðs Íslands og Vinnuveitendafélags Íslands, og leggja þessir þrír aðiljar eindregið á móti frv. S. Í. S. hefir aftur lýst sig málinu hlynnt, en telur þó of háa upphæð, 50 þús. kr., sem við er miðað, og leggur til, að hún verði lækkuð. En þeir, sem snúið hafa sér til þessara aðilja og leitað umsagnar þeirra, láta sér ekki nægja að berja málið fram, þvert ofan í till. Landsbankans, verzlunarráðsins og Vinnuveitendafélagsins. Þeir taka ekki heldur tillit til umsagnar stofnunar eins og S. Í. S., sem ætla mætti þó, að þeir vildu leggja eitthvað upp úr, því að í grg. er sagt, að frv. sé flutt samkvæmt ákvörðun fundar Framsfl.

Í grg. segir núverandi hæstv. atvmrh., að erlendis séu til hliðstæð dæmi ákvæðum þessa frv. Mér er kunnugt um, að við umr. í hv. Nd. var gengið á hæstv. atvmrh. um að benda á þessi dæmi, og gat hann það ekki. Enda er það ekki hægt. Í nágrannalöndum okkar eru engin fyrirmæli í l. um það, að einstaklingar skuli birta efnahagsreikninga. Til þess eru aðeins skylduð fyrirtæki, sem eru svo stór, að hlutabréf þeirra em seld á kauphöllum.

Upphaflega var þessi skylda miðuð við 50 þús. kr. skuld, en síðar var sú upphæð hækkuð upp í 100 þús. kr. Svo gerir einn hv. flokksmaður hæstv. ráðh. till. um, að hún sé enn hækkuð, upp í 150 þús. kr., og var sú till. samþ. í Nd. við 3. umr.

Í nágrannalöndunum er það meira að segja svo, að almenningur hefir ekki aðgang að vitneskju um það, hvað einstök fyrirtæki greiða til almennra þarfa. Útlendingar, sem hingað koma, furða sig á því, að hægt skuli vera fyrir hvern og einn að kaupa niðurjöfnunarskrána, þar sem lagðar eru fram glöggar upplýsingar um hag einstaklinganna. Það, sem hæstv. ráðh. segir um hliðstæð dæmi frá nágrannalöndunum, er því ekki rétt, og er það illa farið, að svo skuli vera kastað höndum til slíkra mála, að ekki skuli mega treysta flm. til að fara rétt með, er þeir mæla fyrir þeim. Þm. eiga kröfu til að mega treysta orðum flm. mála, er svona stendur á.

En þó að Nd. gerði þessa breytingu á frv., að hækka lágmarkið, þvert ofan í till. S. Í. S., þá hefir það vitanlega engin áhrif á meginstefnu þess. Við erum hér að skera okkur út úr nágrannaþjóðum okkar um afstöðu til einkaframtaksins. Einkareksturinn, sem að vísu er viðurkenndur hér á landi, er hér þó ekki eins friðhelgur fyrir árásum og þar. Stefna frv. þessa er sem sé að láta almenning dæma, eftir því, hvað einhver einstaklingur skuldar, um það, hvort í starfi hans ráði heilbrigð eða óheilbrigð fjármálastefna. En almenningur er þó vitanlega, þrátt fyrir þessar upplýsingar, engu nær um það, hvort skuld er vel tryggð eða ekki. Og þetta gæti, er fram í sækti, orðið til þess, að bankarnir yrðu svo bundnir í starfi sínu, að nálega yrði að leita þjóðaratkvæðis til þess að þeir mættu gera sínar ráðstafanir í fjármálum.

Opinber íhlutun með starfi bankanna er sennilega meiri hér á landi en í flestum löndum öðrum. Landsbankinn hefir t. d. 3 framkvæmdarstjóra, yfir þeim er 5 manna bankaráð, yfir því svo 15 manna bankan. og þar yfir sjálfur fjmrh. Mér skilst, að Alþ. sé búið að sjá fyrir því eftirliti með lánveitingum, að nokkuð tryggt mætti teljast. Ég verð því að spyrja: Til hvers er þetta skipulag? Til hvers er verið að skipa 5 manna bankaráð og 15 manna bankanefnd, ef ekki má treysta því? Almenningur á kröfu á því, að fé hans sé ávaxtað á sem tryggilegastan hátt, og ég verð að halda því fram, að þetta sé ekki annað en tortryggni á hendur þeim mönnum, sem Alþ. fyrir hönd almennings hefir falið þetta eftirlit, ef nú á að fara að lögforma það ákvæði, sem um ræðir í þessu frv. Ekki er því til að dreifa, að þörf sé á að knýja þetta frv. fram bankanna vegna, því að þeir eiga aðgang að efnahagsreikningum hvers einstaks lántakanda og verða að meta og vega, hvort honum sé trúandi fyrir meira fé en hann hefir þegar fengið.

Í þessu sambandi verður ekki framhjá því siglt, að ef þetta frv. verður samþ., þá er opnuð ný og næsta óþörf leið, ofan á það, sem áður hefir þekkzt í þessum efnum, — það er opnuð þarna ný leið til árása á atvinnurekendur í landinu. Í rauninni er svo sama, hvort atvinnurekendur eru vel eða illa stæðir. Sé almenningi kunnugt um það, þá er opin leið til árása á þeim grundvelli, að séu menn vel stæðir, þá eru þeir arðræningjar og kúgarar smælingjanna, en séu þeir illa stæðir, þá eru þeir braskarar og svikarar, svo að atvinnurekendurnir verða óalandi og óferjandi í hvoru tilfellinu sem er.

Hér virðist vera verið að undirbúa bókaútgáfu fyrir fjármálaráðuneytið, þar sem því er ætlað að selja þessa reikninga. Get ég trúað, að þetta verði góð tekjulind, því að menn munu vafalaust hafa gaman af að geta hnýstst í hag náungans, og þetta er upplagt mál fyrir pólitíska reifarahöfunda til þess að teygja lopann um. Mér finnst það dálítið hart, að þótt ráðuneytið eigi að selja þessa reikninga, þá eiga þeir, sem eiga að birta reikningana, að bera kostnaðinn við birtingu þeirra. Sé ég atvinnurekandi, þá er mér engin þægð í því, að verið sé að birta mína efnahagsreikninga. Samt á ég að kosta það, en fjármálaráðuneytið að græða á bókasölunni.

Það má ekki bera saman einkafyrirtæki og ríkisfyrirtæki, því að ríkisfyrirtæki eru eign almennings í landinu. og þegar þau birta reikninga sína, er það til að gera eigendum þess fjár, sem þau fara með, grein fyrir því, hvernig þau hafa farið með það fé, sem þeim hefir verið trúað fyrir, og þess vegna er t. d. bönkunum skylt að birta sína reikninga.

Ég vil skjóta nokkru inn í, sem ég hefi tekið eftir hin síðustu ár og fundizt alleinkennilegt. Iðulega er ráðizt á einstaka fyrirtæki fyrir það, hvað þau skuldi bönkunum mikið, en þeir sömu menn, sem gera mest veður út af því, varast að víkja að þeim stofnunum, sem lánað hafa féð. Meira að segja gengur þetta svo langt í sambandi við aðalpeningastofnun landsins, að samtímis hefir verið ráðizt á einstaka fyrirtæki fyrir, hvað það skuldi mikið, þegar í sama blaði eða blöðum hafa verið sérstakar hólgreinar um þá menn, sem bera ábyrgð á að ávaxta þetta fé fyrir þjóðina.

Ég sé enga þörf fyrir frekara eftirlit en það, sem Alþ. hefir þegar skipað. Mér virðist þetta tákna, að Alþ. sé ekki ánægt með þessa skipun sína, en þá ber að breyta því, skipta um bankaráð eða bankastjóra, heldur en að fara inn á þá braut, sem engin hliðstæð dæmi eru til um, að farin hafi verið.

Ætla ég svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. geri síðar nánari grein fyrir frv. Skal ég ekkert hafa á móti, að það fari til n., og álít sjálfsagt að athuga þetta sem rækilegast.