02.05.1938
Efri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

39. mál, efnahagsreikningar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil ekki láta þetta frv. fara til n. án þess að segja um það nokkur orð. Ég hefi hlustað á hv. 1. þm. Reykv. andmæla frv., meira með því að teygja lopann en með rökum, því að svo langt komst hann með lopann, að hann var farinn að vita hv. Nd. fyrir meðferð málsins, eins og sú hv. n., sem þar hafði málið til meðferðar, ætti að svara fyrir sig hér.

Sparisjóðsfé manna í þessu landi er milli 60 og 70 millj. kr. Þetta fé er mikið í veltunni hjá einstökum mönnum. Með því að fá þetta fé til veltu og umráða fá þeir, sem það hafa, sérréttindi á mjög mörgum sviðum. Hinsvegar ber þjóðfélagið sem heild ábyrgð á sparifénu, og því ekki óeðlilegt, að þjóðin vilji sjá, hverjir það eru, sem njóta þessara sérréttinda, og hvernig þeir nota þau. Ég hefði óskað, að þetta 150 þús. kr. lágmark hefði verið miklu lægra, og líka, að ekki ætti einungis að birta efnahagsreikninga, heldur líka rekstrarreikninga. Þetta er nú ekki í frv., og ég mun ekki bera fram brtt. En ég tel, að þjóðin eigi fullan rétt á að sjá, hverjir fara með þetta fé bæði til að græða á því sjálfir og til að fá sérstöðu í þjóðfélaginu gagnvart þeim, sem vinnu þurfa að fá hjá þessum mönnum, og gagnvart þeim, sem ekki fá slíkt rekstrarfé sem þessir menn.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þótt efnahagsreikningar yrðu birtir, gæti þjóðin ekkert annað gert en að ráðast á bankana og sparisjóðina og kippa burt fé sínu og koma þessum fyrirtækjum á heljarþrömina. Þetta sagði hann fyrst, en eftir nokkurn tíma í ræðu sinni, þegar hann talaði um meðferð málsins í hv. Nd., virtist hann búinn að gleyma því, sem hann fyrst sagði, að þjóðin myndi rjúka með þetta í blöðin og eyðileggja með því fyrirtækin. Ég er viss um, að birting reikninganna mundi hafa mikla þýðingu. Skal ég því til sönnunar taka dæmi, ekki af fyrirtæki, sem nú lifir, en dæmi, sem er dálítið aftur í tímanum. Ég ætla að taka dæmi frá Seyðisfirði. Hv. 1. þm. Reykv. mun vita, að á Seyðisfirði voru tveir bræður, annar var bankastjóri þar í útibúi, en hinn var atvinnurekandi, sem lögum samkvæmt átti að vera gjaldþrota fyrir löngu síðan. en bankinn lánaði honum sífellt, og skuldirnar jukust sí og æ, þar til allt fór um koll. Heldur hv. þm., að það hefði ekkert aðhald skapað, hefðu reikningar þessa manns verið birtir? Hv. þm. segir sennilega, að þetta hafi verið einkafyrirtæki og þjóðinni hafi ekkert komið við, hvernig fyrir því fór. Þetta er ekki rétt. Bankinn tapaði á þessu, og ríkið ábyrgist bankann, svo að öll þjóðin hefir orðið að endurgreiða þetta með hærri vöxtum. Vegna þessa og svipaðra dæma víðsvegar um land tel ég nauðsynlegt, að þetta frv. nái samþykki. Ég tel það eitthvert allra merkilegasta málið, sem fyrir þessu Alþ. liggur, og hvað mesta þýðingu getur haft í framtíðinni. Annarsvegar á þjóðin rétt á að vita, hverjir það eru, sem njóta þeirra sérréttinda, að hafa þetta sparifé hennar til meðferðar, og hinsvegar gengur birting efnahagsreikninga í þá átt, að tryggja þjóðinni, að það verði ekki lánað mönnum. sem látnir eru sökkva dýpra og dýpra, og þjóðfélagið verði svo að borga tapið. — Hvað viðvíkur því, að menn muni taka fé sitt úr bönkum og sparisjóðum og lána það sjálfir, þá tel ég ekki mikla hættu á því. Það munu ekki vera nema sárfáir menn, sem eiga yfir 100 þús. inni í banka, sem þeir geta tekið út og lánað einstaklingum. Að bankarnir þá verði óþarfa milliliðir, er óþarfa ótti.