05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

42. mál, héraðsþing

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil ekki láta þetta frv. fara lengra án þess að segja um það nokkur orð. Mér kemur það mjög ókunnuglega fyrir sjónir, ef Alþ. fellst á að fyrirskipa með lögum, hvernig íbúar héraða megi ræða um mál sín, bæði héraðsmál og landsmál. Það eru önnur stærri mál og meir aðkallandi, sem liggja fyrir, bæði hér á Alþ. og heima í héruðum. — Hingað til hefir þótt sjálfsagt, að menn væru frjálsir að koma saman í sinni sveit og ræða héraðsmál og landsmál. Og hvað sem liður öllum stóryrðum í grg. frv., þá er það víst, að þessir fundir eru haldnir af þörf manna til þess að ráðgast sameiginlega um lands-, héraðs- og hreppamál, ræða þau og brjóta til mergjar. Áður var það venja flestra þm., að halda fundi með kjósendum, helzt í hverjum hreppi fyrir hvert þing. Var þá fyrst og fremst rætt um það, sem stjórnin ætlaði að leggja fyrir þingið, því að þá var venja, að ríkisstj. kynnti þm. stjfrv. nokkru áður en þing kæmi saman. En auk þess voru rædd önnur áhugamál kjósenda.

Nú er sú breyting á orðin, að ríkisstj. hefir engin mál undirbúin, er rædd verði á þingmálafundum, og þm. eru óðum að leggja niður þingmálafundahöld í hverjum hreppi. Þetta hefir leitt til þess, að kjósendur nokkurra kjördæma hafa tekið upp þing- og héraðsmálafundi. Það fyrirkomulag virðist hagkvæmt, bæði fyrir kjósendur og þm.

Með þing- og héraðsmálafundunum hafa kjósendur sýnt lofsvert framtak og lofsverðan áhuga á því, að vera þátttakendur í undirbúningi löggjafarmála, jafnframt því sem þeir um leið hafa bætt úr vanrækslu ríkisstj. og sumra þm. Frá mínu sjónarmiði fer því mjög fjarri, að þau héruð, sem komið hafa á hjá sér þessum fundahöldum, hafi gefið nokkurt tilefni til þess, að Alþingi færi að setja þeim nokkrar lífsreglur hvað fundahöldin snertir. En skv. frv. því, sem hér liggur fyrir, ætlast þó hv. flm. til, að Alþ. fyrirskipi ákveðnar reglur um fundina, og felst auðvitað í því bann gegn öðrum formum. Mér sýnist það vera hreinn óþarfi. Ég skil ekki í öðru en að fólkið megi vera alveg sjálfrátt, hvort það hefir nokkur þesskonar fundahöld, hvenær eða hvernig, ef það form, sem menn finna, að bezt hentar, er látið haldast.

Með frv. þessu er farið fram á, að kjósendum héraða séu með lögum fyrirskipaðar landsmálaskoðanir um ákveðið árabil. Hér er sem sé svo fyrir mælt, að úfhluta skuli þessum fundum fulltrúatölu fyrir hvern flokk eftir því kjörfylgi, sem stjórnmálaflokkarnir höfðu í kjördæminu við næstu alþingiskosningar á undan. Nú er það ákaflega algengt, að einn flokkur hefir sigur í þetta skipti og annar í næsta skipti. jafnvel þótt ekki sé fjögra ára kjörtímabil, heldur þingrof og nýjar kosningar, meira að segja með eins árs millibili. Það sýnir, að skoðanir manna í kjördæmunum breytast mjög, kannske sumpart á málefnum, kannske vegna breyttrar afstöðu til ríkisstj. út af framkomu hennar og afstöðu til ýmsra mála. Þar af leiðandi getur það hlutfall alveg raskazt. Auk þess getur innflutningur í kjördæmið og brottflutningur valdið hinu sama. Eftir eitt ár geta hlutföllin verið orðin öll önnur en árið áður. Ef kjörtímabilið telst að vera fjögur ár, eins og eðlilegast er, þá eru héraðsbúar skyldir til skv. frv., að hafa fjögur ár eftir kosningar sömu afstöðu til stjórnar og þingmeirihluta, þótt hvorttveggja breytti um stefnu og reyndist á annan veg en lofað var fyrir kosningar, og þótt skipt hefði um kjósendur í héraðinu að talsverðu leyti. Mín skoðun er sú, að lög um þetta séu algerlega óþörf, og í raun og veru sé það talsvert hættulegt spor, að ganga inn á umráðasvið kjósenda um það, hvort þeir megi gera samþykktir eftir sínu höfði. þegar þeim sýnist.

Í því kjördæmi, sem hv. 1. flm. þessa frv. er þm. fyrir, hafa héraðsþing verið haldin um allmörg ár. Héraðsbúar setja sér sjálfir reglur um kosningu fulltrúa. Kjósa þeir þá með hlutfallskosningum meðal allra kjósenda í hreppum sýslunnar fyrir hvern fund. Þetta virðist vera allgott fyrirkomulag og ekki þörf á að grípa inn í það með lögum. Mér er ekki kunnugt um, að neinn maður hafi óskað eftir því, að sett yrðu sérstök lög um þetta. Ég vil þó ekki vera á móti því, að frv. fari til 2. umr., þótt ég álíti, að það eigi þangað ekkert erindi. Það er venja og sjálfsögð krafa flm., að frv. þeirra fái að fara til 2. umr. og athugunar í nefnd.