05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

42. mál, héraðsþing

Skúli Guðmundsson:

Ég hefi ekki getað komið auga á, að nein aðkallandi þörf sé fyrir þessa lagasetningu. sem hér er farið fram á með frv. um lög um héraðsþing. 1. flm., hv. þm. N.-Ísf., færir það fram til stuðnings máli sínu um þörf slíkrar lagasetningar, að það sé í mörgum tilfellum svo erfitt fyrir þm. að hafn samband við kjósendur í sínu kjördæmi, og hann virðist líta svo á, að nauðsynlegt sé, að einhver félagsskapur eða stofnun sé til í hverju kjördæmi, sem þm. geti snúið sér til í þessu efni. Ég get ekki að öllu leyti fallizt á þetta. Eins og kunnugt er, munu allir stjórnmálaflokkar hafa flokksfélög í flestum kjördæmum landsins, og tíðkast það mjög, að þessi flokksfélög beri fram ákveðnar kröfur eða till. um einstök mál við sinn þm. Það má að vísu segja, að það nái aðeins til þeirra kjósenda, sem hafa þm. úr sínum flokki. Ég álít þó, að það, á hvern hátt kjördæmið hefir samband við sinn fulltrúa, eigi að vera sérmál hvers einstaks kjördæmis og hvers þm., og ég sé enga þörf á því, að Alþingi fari að setja ákveðin lög um það efni. Og ég vil benda á eitt atriði í frv., sem ég tel varhugavert og gæti orðið til þess að tefja allmjög fyrir störfum Alþingis. Það er ákvæðið um það, að samþykktir, sem koma fram á slíkum héraðsþingum, skuli sæta sérstakri meðferð hér á Alþingi, þ. e. að þeim málum, sem afgr. eru frá héraðsþingum, skuli vísað án frekari aðgerða til viðkomandi þingn. til athugunar. Mér skilst á þessu, að þarna geti komið fram margt af málum og till. beina leið utan úr kjördæmunum og til n., án þess að nokkur þm. vilji taka á móti þeim til flutnings hér á Alþingi. Mér finnst ekki vera hægt að benda á, að það sé sérstökum erfiðleikum bundið fyrir menn, í hvaða kjördæmi sem er, að koma á framfæri góðu máli, sem þeir kunna að vilja fá flutt hér á Alþingi.

Þá vil ég leyfa mér að nefna dæmi, sem sýnir, hvað héraðsþing gæti orðið einkennilega skipað, ef frv. verður gert að lögum. Dæmið er úr mínu kjördæmi, þar sem ég er kunnugastur. Þar mun vera allmargt af mönnum, sem telja sig til Sjálfstfl., þrátt fyrir það, þótt sá flokkur fengi ekki nema 14 atkv. við síðustu kosningar í kjördæminu. Verði þetta frv. að lögum, þá mun Sjálfstfl. vera útilokaður frá því að hafa nokkurn fulltrúa á héraðsþingi í Vestur-Húnavatnssýslu á þessu kjörtímabili. Án þess að ég ætli sérstaklega að gerast málsvari þeirra góðu manna þar, þá get ég ekki fallizt á, að þetta sé rétt. Og ég efast um, að sjálfstæðismenn í Vestur-Húnavatnssýslu séu þakklátir þeim þrem flokksbræðrum sínum hér á Alþingi, sem hafa gerzt meðflm. að þessu frv. Eftir þessu frv. væri í því kjördæmi ekki hægt að setja saman héraðsþing nema með Framsfl. og Bændafl., þótt gera megi ráð fyrir, að Sjálfstfl. hafi í kjördæminu allmikið fylgi. Það er þess vegna svo fráleitt, sem haldið er fram í þessu frv., að á þennan hátt væri tryggður réttur minni hl. í viðkomandi héruðum á hverjum tíma. Því að þótt t. d. sjálfstæðisflokksmenn í Vestur-Húnavatnssýslu og fleiri kjördæmum hafi við síðustu kosningar gefið öðrum flokki sín atkv., er ekki þar með sagt, að þeir kæri sig um að vera alveg útilokaðir frá þátttöku í þessum væntanlegu héraðsþingum.