05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

42. mál, héraðsþing

*Pétur Ottesen:

Ég heyrði nú ekki það, sem hv. þm. N.-Ísf. hafði fram að bera til varnar þeirri gagnrýni, sem ég hafði gert á ákveðnum ummælum í grg. En ég býst við, að það hafi verið ákaflega litið, og ég veit, að hann við nánari athugun sér og viðurkennir, að það er honum til hins mesta ósóma að hafa borið slíkt fram hér á Alþ. — svo að ég viðhafi nú ekki sterkari orð í því sambandi.

En ég vil aðeins benda á eitt, sem kemur ákaflega greinilega fram í þessu frv. og mér virðist líka muni vera einn aðaltilgangurinn af hendi hv. 1. flm., hv. þm. N.-Ísf., og það er nefnilega umhyggjan fyrir því, að það þurfi ekki að vera allt of mikið og drepandi erfiði fyrir þá menn héðan úr Reykjavík, sem nú sækjast eftir að verða kosnir í kjördæmunum úti um land, að sinna kjósendunum, eftir að þeir hafa bitið á öngulinn og kosið þessa Reykvíkinga á þing. Það er náttúrlega mikill aðstöðumunur, að geta t. d. skotizt á einn hafnarstað, þar sem skipin stinga stafni við, heldur en að þurfa að ferðast um kjördæmið og hafa tal af kjósendunum með slíkum hætti og verið hefir undanfarið. — Nú eru það náttúrlega orðnir nokkuð margir hér á Alþ., sem standa að því að hlynna þannig að sjálfum sér, því að ég ætla, að búsettir þm. hér í Reykjavík séu nokkuð yfir helming allra þm. Það verður því ef til vill á þessum grundvelli reynt að slá nokkra skjaldborg utan um þetta frv., því að ef þeir sameinast allir, þessir góðu herrar, þá er það nokkurnveginn léttur leikur fyrir þá að koma þessu máli í gegn hér á Alþ. — Ég býst sem sagt við, að frá hendi aðalflm., og ef til vill annara Reykvíkinga, þá sé þetta drýgsti þátturinn í framkomu þessa frv., þó að þeir náttúrlega forðist það eins og heitan eldinn að láta bóla á þessu, heldur á það að vera umhyggja og velferð kjósendanna í heild, sem þetta á að grundvallast á.

Þó að ég ætli mér ekki að fara inn á einstök atriði þessa frv., þá vil ég þó benda á það, að mér virðist harla einkennilegt, að samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þeir menn úti um sveitir landsins, sem standa utan við alla stjórnmálaflokka, séu gersamlega sviptir þeim rétti, að koma fram á slíkum fundum, bera fram till. eða hafa áhrif á það, hvernig tekið yrði undir þau mál, sem þeir hefðu annars fram að flytja, og eru þeir þannig settir skör lægra heldur en þeir menn, sem hafa að meira eða minna leyti markað sig flokksmarki. Ég veit ekki, hvort þetta er með ráðnum hug gert, en vel má vera, að svo sé, að því leyti sem sú hugsun kann að koma fram í þessu frv., sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv., sem var í sambandi við þetta frv. að tala um að skipuleggja áhrif kjósendanna á Alþ. — eða einhvern veginn þannig komst hann að orði. En við vitum nú, hvað liggur á bak við þetta skipulagningartal hjá þessum mönnum, sem eiginlega sést yfir flest annað í þjóðfélaginu en skipulagninguna, — eins og hún líka fer í höndunum á þeim!

Það var víst líka hv. 5. þm. Reykv., sem var að tala um, að með þessu móti mundu líka allir framboðsfundir hverfa úr sögunni. (EOl: Nei, nei). En menn geta verið vissir um, að þótt þessir þm. í Reykjavík telji eftir sér að fara út í kjördæmin til þess að tala við kjósendur sína, þá telja þeir ekki eftir sér að fara á framboðsfundina.