11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það var ekki meiningin að gera frv. í heild að umræðuefni. Það var svo mikið talað um það á síðasta þingi, og gerði ég þá, eins og ýmsir aðrir, grein fyrir mínu atkv. og hvernig ég hefði litið á það frv. Ég kvaddi mér hljóðs vegna brtt. á þskj. 199. Ég vildi gjarnan fá hjá frsm. n. betur skýrt, hvernig hann hugsaði sér að koma þessu í framkvæmd.

Eins og l. voru úr garði gerð á síðasta þingi, var ætlazt til þess, að nokkur hluti almenna fekjuaukans, sem við þetta skapazt, sem frv. fer fram á, væri notaður til þess að kaupa fyrir hann nýtízku togara. Nú er það vitanlegt, að ekki gefa allir kaupstaðir á landinu, sem aðallega stunda sjávarútveg, tekið þátt í að kaupa einn nýtízku togara, né heldur þó að þeir væru keyptir jafnvel tveir. Ef þess vegna þessi tekjuaukning yrði hjá bæjarfélögum, hvort sem það væri Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Siglufjörður eða Akureyri, þá ætti þessi tekjuauki þessara bæjarfélaga að verða til þess að styrkja menn annarsstaðar, t. d. í Reykjavík, til þess að gerast kaupendur að þessum togara eða togurum. En viðkomandi bæjarfélög, sem hefðu greitt þetta gjald í fiskimálasjóð, fengju engin fríðindi vegna þess gjalds þeirra, og misstu þar með tekjur þær, sem þau höfðu áður haft. Mér finnst, að ef ætti að fara að taka nokkurn hluta af þessum tekjum, til þess að láta hann renna yfirleitt til að hjálpa sjálfsbjargarviðleitni manna, eins og hv. frsm. minntist á, til þess að gerast eigendur að fiskiskipum, þá væri það ólíkt skynsamlegri og réttari leið, að þetta gjald væri þá t. d. sett í sérstakan sjóð, innan viðkomandi bæjar- og sýslusjóða, þar sem gjaldið væri greitt, sem hjálpuðu svo sjómönnum og verkamönnum til þess að gerast eigendur að fiskiskipum almennt. Til upplýsinga skal ég geta þess, að t. d. í Hafnarfirði eru töluvert háværar raddir uppi meðal bæjarbúa, verkamanna og sjómanna, um að þeir vilji leggja í mótorbátakaup. Og undanfarin ár hafa komið ekki svo fáir menn og beðið um ábyrgð bæjarsjóðs til mótorbátakaupa. Hefir bæjarstjórn ekki séð sér fært að neita þessum tilmælum og oft og tíðum ákveðið, að bærinn gengi í ábyrgð til slíkra kaupa, og lagt fram meira og mínna fé til slíkra bátakaupa. án þess í sjálfu sér að hún væri þess megnug að standast það. Nú væri það ólíkt betri aðstaða, við skulum segja t. d. fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, ef hún hefði sérstakan sjóð sem hún gæti gripið til og menn gætu fengið lán úr til slíkra bátakaupa, og að það væri ekki bundið við togarakaup, heldur kaup á fiskiskipum almennt. hvort sem það væru mótorbátar eða trillubátar eða önnur fiskiskip. Og þá kæmi þessi hjálparstarfsemi við sjávarútveginn miklu léttar niður fyrir bæjarsjóði og sýslusjóði, ef þessu væri þannig hagað.

Það, sem aðallega kom mér til þess að standa upp, er, að ég vil fá nánari skýringar á því, hvort það er meiningin, að þessi tekjuaukning, sem yrði í viðkomandi bæjum utan Reykjavíkur, skuli renna til þess að hjálpa mönnum í öðru eða öðrum Bæjarfélögum en þeim, sem gjaldið greiða, til þess að kaupa togara, og til þess að gera tillögu um það, hvort ekki væri skynsamlegra að fara þá leið, sem ég benti á. Og ef hv. frsm. virtist svo, að mín till. um þetta væri á rökum byggð, vildi ég beina því til hans, hvort hann vildi þá ekki láta till. koma til atkv. við þessa umr., svo að hægt væri að athuga þetta nánar. Manni hefir eiginlega ekki unnizt tími nú, síðan þessi till. kom fram fyrir þrem dögum, til þess að athuga hana nærri því nógu vel.