21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Jakob Möller:

Það mætti halda áfram að telja upp dæmi þess, að mönnum gæti verið hentugra að fá að byggja bráðabirgðabyggingar á lóðum sínum, sem þá væri erfiðara að neita um, ef Alþ. færi að veita slíka heimild með l. Það mætti benda á hvert dæmið á fætur öðru, þar sem slíkt gæti verið eigendum hentugra. Og mér er ekki ljóst, hvernig hægt væri að synja um slík leyfi, þegar á annað borð er komið inn á þessa braut.

Það mætti náttúrlega segja í öllum þeim tilfellum, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri til að minnka brunahættuna, ef í staðinn fyrir timburhús yrði byggt steinhúðað timburhús. Það er ekki það, sem veldur því, að það er bannað að byggja timburhús, að það sé svo mikil hætta á, að sú bygging brenni, heldur er það af því, að það stafar hætta út frá henni. Það, sem hér er um að ræða, er auk þess, að það er ekki um að ræða að byggja timburhús í staðinn fyrir timburhús, heldur er um að ræða að byggja margfalt stærra hús á staðnum fyrir annað minna. Það má segja, að eldhættan sé ekki meiri fyrir þá byggingu, en eldhættan er meiri fyrir umhverfið. Það er það, sem gerir það að verkum. að bannað er að byggja timburhús í miðbænum. Nú mætti náttúrlega segja, ef hér væri knýjandi nauðsyn, að þá væri þetta álitamál, en hér er ekki um það að ræða. — Hv. frsm. taldi, að ríkissjóður mundi fá aukna leigu eftir lóðina. Ég er í efa um, að svo sé. Ég veit ekki betur en að þessi lóð sé í leigu hjá því firma, sem sækir um þetta, og eignin er sú sama, hvort sem mikið eða lítið er byggt á henni. Ég skal ekki segja um, hvort ríkissjóður gæti hækkað leiguna um svo sem 100–200 kr., en það er auðsætt, að það er ekki nauðsyn ríkissjóðs, sem þarna kemur til greina. Hann er jafndauður hvort sem hann fær þessa leigu eða ekki. Alveg sama er að segja um fyrirtækið. Það getur fengið nóga staði. Það getur fengið nóga staði, sem það getur fengið að byggja varanlega byggingu á og þannig sparað sér það fé, sem það mundi kasta út í bráðabirgðabyggingu, sem ekki mundi verða nema til fárra ára. Mér er nær að halda, að fyrirtækinu væri greiði gerður með því að synja því um að fá að byggja þarna á þessari lóð. Ég get því ekki séð, að þetta sé annað en fásinna, og í raun og veru getur ekki verið um annað en þráa að ræða. Í öllu falli tel ég ekki sæmandi að afgr. þetta mál svo, að ekki liggi fyrir upplýsingar um, hvað farið er fram á í raun og veru. N. segir, að hér sé ekki um annað að ræða en að byggja nýtt hús í staðinn fyrir gamalt. Ég staðhæfi, að hér sé um allt annað að ræða, — það sé um að ræða að byggja miklu stærra hús en nú er þarna. Um leið og ég leyfi mér að mótmæla þessari lagasetningu, þá vil ég skora á meiri hl. n. að leggja fram fullar upplýsingar um málið, ef það á að koma til 2. umr.