21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta er nú ekki stórmál og því ekki ástæða til að halda um það langar ræður. Hv. 8. landsk. sagði, að byggingarnefnd hefði verið einróma samþykk þessu máli. Eftir því, sem mér er tjáð, þá mun þetta vera þannig, að byggingarnefnd hafi samþ. þessa synjun, af því að hún hafi ekki talið sig geta annað vegna reglna, sem hún hefir sett um stærð slíkra húsa. Hinsvegar hefir mér verið tjáð, að bæjarstjórn hafi ekki tekið sjálf neina ákvörðun í málinu, en vísað því til byggingarnefndar. Ég skal ekki fullyrða, að þetta hafi verið svo, en mér hefir verið tjáð, að svo hafi það verið. Aðalatriðið í þessu er í raun og veru það, hvort um sé að ræða aukna eldhættu í miðbænum. Þessi eldhætta getur verið með tvennu móti. Annað hvort að eldurinn komi upp í sjálfu húsinu, sem er frekar hætt við með timburhús. Hinn möguleikinn er sá, að stórbruni komi upp, og þá er bættan á því, að húsin leiði eldinn áfram. Það er mikil hindrun á þessu, ef hús er steinhúðað. — Hv. 2. þm. Reykv. vildi draga í efa, að þetta væri til hagsbóta fyrir kaupfélagið. Það skal ég ekkert um segja. Hitt liggur fyrir, að félagið óskar eftir að fá að byggja á þennan hátt, og þeir, sem ráð, yfir lóðinni, hafa talið ástæðulaust að neita félaginu um það.

Hvað viðvíkur því fordæmi, sem hv. 8. landsk. talaði um, og þeim dæmum, sem hann nefndi, þá vil ég segja það, að ég þekki ekki þau rök, sem þar hafa verið fyrir hendi í hverju einstöku tilfelli. En ég get ekki séð, að það sé neitt sambærilegt, þó að einstaklingur vildi byggja hús á lóð sinni, og það. sem hér er um að ræða. Mér virðist þar vera mikill munur á, þar sem hér er um að ræða félag, sem stofnað er til almenningsheilla og opið er fyrir hvern þann, sem félagsmaður vill verða. — Hvað viðvíkur því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um stærð þessa húss, þá gef ég ekki séð neitt á móti því, að hv. þm. afli sér fyrir 2. umr. nánari upplýsinga um, hvernig sú bygging á að vera, sem þarna á að koma. En það liggur fyrir í grg. frv., að þarna er aðeins um einlyft hús að ræða. Ég hygg, að ekki sé sá stærðarmunur á því og þeim húsum, sem nú eru þar, að af þeim ástæðum geti verið aukin eldhætta.