28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Sigurður Kristjánsson:

Eftir þessar síðustu upplýsingar sýnist mér ástæða til að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti umr. um málið. Er viðurhlutamikið fyrir þingið að grípa inn í gerðir byggingarn., sem þegar hefir synjað um þetta leyfi. N. gerði það á algerlega ópólitískum grundvelli, og ef halda á málinu áfram hér, þá er það sama og að segja, að það skuli ganga fram, hvað svo sem bæjarvöldin segi. Og ákvörðun um málið eiga þá að taka menn, sem hafa enga aðstöðu til að kynna sér allar aðstæður, en meðal hv. þm. eru hinsvegar margir, sem hafa beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í sambandi við málið.

Það er auðvitað ekki víst, að byggingarleyfið fáist, þó að málið komist á þennan nýja grundvöll. En samkvæmt eðli málsins tel ég sjálfsagt, að því sé frestað. Og ef þetta er flokksmál á annað borð, er vitanlega hægt að koma því hér í gegn á skömmum tíma síðar meir, svo að málið er í engri hættu, þó að því yrði frestað.