01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Thor Thors:

Ég leitaði umsagnar byggingarnefndar Reykjavíkur um þetta mál, sem hér liggur fyrir, og hefir mér nú nýlega borizt svar við þeirri málaleitun. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem byggingarnefndin hefir samþ. út af þessu máli. En það hljóðar svo:

„Byggingarnefndin vili ekki víkja frá fyrri samþykktum sínum um að leyfa ekki timburbyggingar í þéttbyggðustu hverfum bæjarins, enda telur nefndin mjög varhugavert að gefa slík fordæmi, gegn settum ákvæðum byggingarsamþykktar Reykjavíkur.

Um lóðina Bankastræti 2 tekur nefndin sérstaklega fram, að ný bygging til bráðabirgða tefur fyrir því, að framtíðarbygging verði reist á lóðinni, og að af nýrri timburbyggingu þar stafar aukin brunahætta.

Byggingarnefndin telur óheppilegt, að með sérlögum sé vikið frá settum reglum um byggingar í bænum, þannig að slegið sé af kröfum um öryggi, og telur vafalaust, að slík löggjöf leiði til hækkunar á brunatryggingariðgjöldum í bænum“.

Það er svo að sjá sem þessi ályktun sé samþ. einróma á fundi byggingarnefndarinnar, sem tók þetta mál til meðferðar 28. marz síðastl. Þessari umsögn fylgdi svo skýrsla byggingarfulltrúanna um fyrirkomulag á þessari lóð og ályktun hagfræðings Reykavíkurbæjar um það, hvaða áhrif þetta gæti haft á brunatryggingar í bænum, og endar hann svo með því að segja, að vátryggingarfélögin hafi gengið út frá því sem gefnu, að þeim ákvæðum yrði ekki breytt þannig. að almennt öryggi minnkaði — þ. e. a. s. ákvæðum um eld- og brunavarnir, sem gerðar hafa verið af hendi Reykjavíkurbæjar —, þannig að aukin brunahætta gæti stafað af. Ég vil gera þessi ummæli byggingarnefndar að mínum að flestu leyti og álít sérstaklega varhugaverða braut fyrir Alþ. að fara inn á, að taka þetta sérmál sveitarstjórnanna af þeim og skipa því sérstaklega með l.

Þeir ræðumenn, sem talað hafa um þetta mál, hafa talið þetta vera lítið mál, en í raun og veru er hér um að ræða stórmál og algert stefnumál, sem sé það, hvort bæjar- og sveitarfélög eigi að vera sjálfráð í málum sem þessu, eða hvort Alþ. ætlar að hrifsa þessi mál í sínar hendur.

Hv. þm. N.- Ísf. lét þess getið um daginn, þegar þetta mál var rætt, að þetta frv. væri fram borið vegna þess, að samkvæmt gildandi ákvæðum um byggingar í Reykjavík væri ekki hægt að byggja þarna timburhús, og hann lét þess getið, að ágreiningur væri út af byggingarsamþykktinni. Ef hann telur svo, þá er rétta leiðin fyrir hann að bera fram frv. um breyt. á byggingarsamþykktinni, sem væri þá almenn, en ekki að taka þetta einstaka tilfelli sérstaklega út úr.

Ég vil vara við því, að samþ. þetta frv., sem getur haft það í för með sér, að allir íbúar Reykjavíkur þurfi að greiða hærri iðgjöld af húsum sínum, og með tilliti til þess og einnig til hins, að hér er um að ræða sérmál Reykjavíkurbæjar, mun ég greiða atkv. á móti þessu frv., og ég vil skora á hv. þm. að taka það til alvarlegrar yfirvegunar, að hér er um að ræða mjög hættulegt fordæmi.