01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

Sigurður Kristjánsson:

Í þessu máli hefir verið bent á það sem þýðingarmikið atriði, að það gæti ekki stafað aukin eldhætta af því að byggja timburhús, sem væri ekki stærra en það timburhús, sem fyrir er. Og í öðru lagi hefir verið gert mjög mikið úr því, að byggingu þessa húss eigi að fylgja þau skilyrði, að það skuli verða tekið burt, þegar sá krefur, sem leyfið veitir. Ég vil leyfa mér að andmæla þessu hvorutveggja sem firru. Það er vitað, að til þess að eyða eldhættunni í bænum er það ákveðið, að útrýma sem mest timburbyggingum, láta þær hverfa úr sögunni, sérstaklega þar, sem þéttbýlt er, jafnóðum og þær ganga úr sér, og vitanlega er það til þess að hefta það, að eldhættan minnki, ef byggð eru ný timburhús og vönduð á þessum sömu stöðum, þar sem nú eru að hverfa timburhús fyrir elli sakir. Hér er a. m. k. óbeint verið að stórauka eldhættuna í bænum, auk þess sem því er að sjálfsögðu ekki hægt að neita, að af nýju efnismiklu húsi mundi út af fyrir sig stafa meiri eldhætta en af gamla húsinu, sem fyrir er. En hitt er aðalatriðið, að hér er verið að halda við þessari eldhættu um ófyrirsjáanlega langan tíma, í staðinn fyrir, að þessi hætta er nú að hverfa á þessum stað, með því að hús það, sem þar stendur, er að falli komið. Hitt atriðið er einnig mesta firra, af þeirri ástæðu, að mál þetta snýr fyrst og fremst að Reykjavíkurbæ, og það er hans réttur, sem verið er að ganga á með frv., en það er allt annar aðili, sem ræður yfir því, hvenær hús þetta yrði flutt. Þegar af þessari ástæðu er það alveg gagnslaust, þó að þetta ákvæði væri sett inn í l.

Ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. og leggja á það mikla áherzlu. að alls ekki er um almenningsþarfir að ræða í því, sem frv. fer fram á, og af þeirri ástæðu er það, eins og hann sagði, fullkomin óhæfa, að ganga svo freklega ofan í alveg sameiginlegan vilja bæjarvaldanna í þessu máli og loka algerlega augunum fyrir þeirri hættu, sem bænum stafar af slíkum ráðstöfunum, bæði beinlínis af þessari sérstöku ráðstöfun og einnig af því fordæmi, sem þetta mundi skapa.

Það þarf ekki að gefa á því neina skýringu eða koma með yfirlýsingu um það; það er vitað, að hér á hlut að máli verzlunarfélag, sem hagsmunir almennings eru ekkert við bundnir, heldur aðeins hagsmunir þessa félags eins, og það kemur að sönnu ekki málinu við, að þetta virðist vera félagsskapur kommúnista hér í bænum, eftir því sem síðustu fulltrúakosningarnar þar benda til, og mér kemur það hálfundarlega fyrir sjónir, að hv. þm. N.- Þ., sem er þm. Framsfl:, skuli skera svo opinberlega upp úr með það, að sá flokkur sé orðinn skuldbundinn til þess að láta beita sér fyrir hagsmunavagn kommúnista hér á Alþ. Ég hélt, að það væri öllu mildara að láta slíkt gerast á bak við tjöldin.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr.; ég geri ráð fyrir, að það sé þýðingarlaust. Mér sýnist allur tónninn í flutningi þessa máls vera sá, að hér um séu komnir samningar og það muni ekki þykja heppilegt fyrir Framsfl., sem stendur nú völtum fótum, svo sem kunnugt er, að brigða þá samninga, sem útlit er fyrir, að hann sé búinn að gera í þessu hagsmunamáli kommúnista.