06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Magnús Jónsson:

Ég get nú eftir ræðu hv. þm. S.- Þ. að mestu leyti hætt við að segja það, sem ég ætlaði að segja við þessa umr. málsins, þar sem það er komið í ljós, að jafnvel félagið muni ekki kæra sig um að fylgja málinu fast fram. En ég get aðeins sagt það með örfáum orðum. að mér finnst þetta óheppileg löggjöf að meira en einu leyti. Mér finnst, án tillits til þess, hvort ég sé efnislega með því, sem farið er fram á í frv., að ég myndi ekki geta fylgt svona löggjöf, vegna þess að mér finnst, að hér sé farið fram á víð Alþ. að gera það, sem Alþ. á ekki að skipta sér af, að skera úr einum einstökum ágreiningi, sem verði á milli einstaklings og stjórnarvalds, sem með l. frá Alþ. hefir fengið fullnaðarvald til að úrskurða það mál. Í þessu tilfelli er það byggingarn., sem styðst við byggingarsamþ. Rvíkur, en hún styðst við l. frá Alþ., sem hefir úrskurðað þetta mál, og það getur á engan hátt heyrt undir Alþ., og ég álít, að Alþ. eigi ekki að sinna svona einstökum klögumálum. Ég vil aðeins taka eitt dæmi. Alþ. hefir með l. skipað fyrir um gjaldeyrisverzlunina. en svo ætti kaupmaður, sem synjað hefir verið um leyfi hjá n., að koma til Alþ. og biðja Alþ. um að gefa út l. um, að hann fengi að flytja þessa vöru inn. Ég álít, að það sé óheppilegt, að Alþ. sé að skipta sér af málum, sem það hefir ákveðið, hvernig afgreiða eigi. Ég myndi því ekki geta verið með svona löggjöf, jafnvel þó að ég væri efnislega með þeirri beiðni, sem fyrir liggur. En svo er því ekki til að dreifa í þessu tilfelli, því ,ð ef þetta leyfi væri veitt, þá tel ég, að það geti haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir bæinn, og ekki sízt fyrir vátryggingarkostnaðinn í bænum.

Eins og sýnt hefir verið fram á í skjölum, sem liggja fyrir í þessu máli, hefir bærinn hvað eftir annað leitað samninga við erlend vátryggingarfélög um tryggingar húseigna í bænum, og þau kjör, sem bærinn kemst að, byggjast á því, hversu mikil brunahættan er talin í bænum; þau færast niður með fjölgun steinhúsa, með bættum eldvörnum, slökkviliði og öðru slíku. Þau félög, sem samið er við, hljóta vitaskuld að ganga út frá því, að þær reglur, sem settar eru um byggingu húsa, séu haldnar, og ég er hræddur um, að þessi félög telji, að þau hafi ekkert til að halda sér við, ef Alþ. fer að grípa hér inn í. Eldhættan í bænum er aukin við það að byggja svona hús. Þetta er stærra hús, hærra og efnismeira en það, sem fyrir er. Það er nýtt hús, og því meiri líkur til, að það standi lengi. En aðalatriðið í mínum augum er það, að þetta er brot á þeirri samþykkt, sem félögin hljóta að byggja á. Það er ekki nóg, að öll hús séu vátryggð. Vissulega er mikils virði fyrir bæina, að þeir séu sem eldtryggastir, án tillits til þess, hvort þeir séu tryggðir eða ekki. Það sýndi sig mjög átakanlega í stórbrunanum, sem varð hér 1914 eða 15, hver geysihætta var fólgin f þessum stóru timburhúsum, sem voru þarna í hrúgu, og eldurinn stöðvaðist einmitt við steinhúsin, þó að hann að vísu eyðilegði þau, sem næst voru. En úr því að ekki virðist eiga að fylgja málinu fast eftir, vil ég ekki tefja það með umr. nú, og vil því ekki fjölyrða frekar um málið að þessu sinni.