19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

72. mál, Landsbanki Íslands

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Frv. þetta var borið fram á síðasta þingi, en komst ekki út úr þinginu. og var þá ekki tekin afstaða til þess nema af Alþfl., sem bar það þá fram. Nú var það borið fram í sambandi við lausn sjómannadeilunnar. en er að sjálfsögðu enn í sínu fulla gildi, þó að það mál hafi verið tekið þeim tökum, sem kunnugt er.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er efni frv. það, að landsbankanefndin skuli kosin í einu lagi og hún skuli kjósa bankaráð í einu lagi, nema formaður skuli skipaður af ráðherra, og þetta skuli gert þegar eftir hverjar kosningar, svo að tryggt sé, að bankaráð sé á hverjum tíma skipað í samræmi við vilja Alþingis. Það hefir sýnt sig í stórmálum eins og Kveldúlfsmálinu, að mikil nauðsyn er á því, að yfirmenn bankans séu nokkurnveginn í samræmi við vilja Alþingis.

Þá er einnig lagt til, að bankaráði verði gefið meira vald gagnvart bankastjórninni viðvíkjandi eftirgjöfum skulda og útlánum. Ég hygg, að í öllum bönkum erlendis, sem ríkisstj. hefir afskipti af, sé það fé takmarkað, sem bankarnir mega lána til einstakra fyrirtækja, en hér hefir það ekki verið gert, og höfum við séð afleiðingarnar af því, eins og í Íslandsbanka á sínum tíma. Það er ekki gert ráð fyrir því, að þau fyrirtæki, hvort sem þau eru hálfopinber eins og samvinnufélög eða félög einstakra manna, sem hafa fengið lán, verði svipt þeim af þessum ástæðum, heldur að gæta þess í framtíðinni og fela það bankanefndinni.

Ég veit, að öll bankamál eru nú til athugunar og koma að sjálfsögðu mjög bráðlega, en þessi atriði eru þess eðlis, að mér virðist rétt að setja sérstök l. um það, ekki sízt þegar tillit er tekið til þess, að nú hlýtur bráðlega að koma fyrir Landsbankann uppgerð á þeim togarafélögum, sem verst eru stödd, og þá er æskilegt, að sú stjórn, sem er í Landsbankanum, sé í samræmi við vilja meiri hl. þingsins.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.