28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Eiríkur Einarsson:

Mér finnst réttmætt, að eins merkilegt málefni og þetta sé rætt hér og að þeir hv. þdm., sem láta sig það skipta, láti í ljós skoðanir sínar á því.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að hann sagði eitthvað á þá lund, að þær reglur, sem hér kæmu fram, bæri að skoða sem einskonar ramma, sem almenn og viðtæk ákvæði, sem lytu að rafveitumálum í heild, en gæfu enga sérstaka heimild til framkvæmda á einstökum sviðum innan rafveitumálanna. Þetta atriði tel ég miklu máli skipta, og menn verða að gera sér glögga grein fyrir því, hvort á að skoða þetta frv., ef það nær fram að ganga, sem almenna heimild fyrir ríkisstj. og rafveitustjóra til þess að ráðast í framkvæmdir á þessu sviði, eða þá hvort það hinsvegar þurfi í hverju einstöku tilfelli, þrátt fyrir þessa lagasetningu, sérlög.

Eftir því sem stendur í 5. gr. þessa frv., finnst mér gefið í skyn, að þetta sé einn algildur rammi og framkvæmdir megi hefjast á þessum grundvelli. Þar segir svo: „Rafveitustjóri gerir, að undangengnum nauðsynlegum rannsóknum og athugunum, till. til ríkisstj. um það, í hvaða framkvæmdir skuli ráðizt til orkuvinnslu og orkuveitu.“

Ég man ekki eftir, að það sé neitt í frv., sem mælir svo fyrir, að þrátt fyrir þetta skuli í hverju einstöku tilfelli eiga sér sérstök lagasetning stað, sem segi fyrir um framkvæmdir í það og það skiptið. Ég vil sérstaklega hafa orð á þessu hér vegna þess, hvað það skiptir miklu máli. Og ég vonast til þess, að þetta atriði verði skýrt nánar af hæstv. ráðh. eða iðnn., sem hafa flutt málið og stendur næst að gefa þær skýringar, sem hér er um að ræða.

Hvað það atriði frv. snertir, að nauðsynlegar rannsóknir og athuganir skuli fara fram, áður en tekin er ákvörðun um það, hvað gera skuli til framgangs þessum málum, þá er það vitað að því er Sogsvirkjuninni og fleiri virkjunum viðvíkur, að undirbúningsnefnd hefir starfað þar, og þetta frv. er runnið undan hennar rótum. Þær athuganir, sem n. hefir gert, mega sjálfsagt teljast allýtarlegar. Og nú er spurningin, hvort þessar athuganir eru ekki svo ítarlegar, að það megi skoða þær sem fullnægjandi rannsókn, t. d. niðurstöður n. um kostnað við lagningu línu til hinna nálægustu staða, svo sem kaupstaðanna Eyrarbakka, Stokkseyrar, Akraness og Keflavíkur. Væri full ástæða til þess að fá svör við þessu atriði hjá hæstv. ríkisstj. eða viðkomandi n.

Þá vil ég drepa á það, hvað mér býr í brjósti viðvíkjandi þeirri grundvallarstefnu, sem kemur fram í þessu frv.. þ. e. afstöðu ríkisins til slíkra raflagninga og hér um ræðir. Ég skal ekki vera myrkur í máli. Ég hefi alltaf verið þeirrar skoðunar, að hér ætti þjóðnýtingin við. Vitanlega þarf að vera svo um hnútana búið, að fullrar sanngirni sé gætt, bæði að því er snertir einstaklinga og heildina. En hér er um mál að ræða, sem er þannig varið, að það er flestum ofurefli að fá þar nokkru áorkað einum út af fyrir sig, heldur krefst það sameiginlegra átaka, ef unnt á að vera að hrinda því í framkvæmd.

Það er vitanlegt, að það er mjög mikill áhugi fyrir framgangi þessa máls hjá þeim, sem hafa góða aðstöðu til þess að fá rafmagn frá Soginu. Og það er ekki nema eðlilegi, að þeir séu áfjáðir í að vita, hvað þessum málum líður.

Þegar rætt er um fjárhagsspursmál eins og þetta hér í þinginu, er venjulega viðkvæðið, að þetta þurfi að vísu að gera, en fjármunina til þess vanti, ekki sízt erlendan gjaldeyri. Í því sambandi segi ég ekkert annað en þetta, að ef það á nokkursstaðar að leggja sig í lima til þess að afla fjár til framkvæmda, þá er það til þeirra framkvæmda, sem miða til þjóðþrifa í heild, sparnaðar á útlendum gjaldeyri Ég stuðla að því að vinna úr þeim öflum, sem felast í íslenzkri náttúru.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að hann lagði enga áherzlu á það, hvort byrjað yrði á þessu verki einu árinu fyrr eða síðar, og nefndi hann í því sambandi árið 1939. Við þessu hefi ég ekkert annað að segja en það, að margir eru þeir, sem óska, að þetta geti orðið sem fyrst, og vitanlega þætti þeim æskilegt, að unnt yrði að hefjast handa þegar á næsta sumri (1938). En mergurinn málsins er vitanlega, að stefnt sé að takmarkinu örugglega og að menn geti treyst því, að hér sé um meira en lagasetninguna einn saman að ræða, það sé stefnt beint til framkvæmdanna. Ég vildi í þessu sambandi vekja athygli á því, að það getur verið óþægilegt fyrir fólk að bíða í óvissu um þetta. Það getur meira að segja leitt til þess, að menn ráðist í að láta byggja smærri orkuvinnslustöðvar, t. d. fyrir nokkur heimili, en það mundu menn ekki gera, ef þeir ættu vissa von á, að byrjað yrði á framkvæmdum í sambandi við Sogsveituna. Mér finnst vera ástæða til að herða á því svo sem verða má, að gefa almenningi upplýsingar um, hvernig þessu verði hagað og hvers fólk megi vænta. Ég fullyrði, að áhuginn er mikill hjá fólki í þessu efni og það viðbúið að sýna það í verkinu, að þarna sé um hagsmunamál þess að ræða, sem það óskar að komist í framkvæmd.