28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Haraldur Guðmundsson:

Við undirbúning þessa máls var aðallega rætt um þrennskonar fyrirkomulag á þessu máli. Var það aðallega miðað við Sogsveituna. Fyrsta leiðin var sú, að einstök rafveitusvæði reyndu að koma upp rafveitum. Á því sýndust þau tormerki, að það mundi verða örðugt að afmarka svo rafveitusvæðin vegna mismunandi aðstöðu manna. Af þessum ástæðum hurfu bæði raforkunefnd og atvmrh. frá því, að þessi leið mundi heppileg. Í öðru lagi kom til greina, að Sogsvirkjunin, Reykjavíkurbær eða þá Reykjavíkurbær og ríkissjóður í sameiningu sæju um byggingu á veitunum. Þriðja leiðin var sú, að ríkissjóður sæi um byggingu veitnanna. Að þessari leið var hallazt einum rómi af raforkunefnd, og ég taldi, að eftir atvikum mundi þetta vera heppilegasta leiðin. Hæstv. fjmrh. spurði, hvort þetta frv. væri miðað við framkvæmdir í þessum málum almennt, eða hvort það væri sérstaklega miðað við veiturnar út frá Soginu. Ég geri ráð fyrir, að það, sem raforkunefnd hefir haft í huga, hafi verið sérstaklega veiturnar út frá Soginu, en með þeim ramma, sem hér er lagður, er ætlazt til, að fella megi fleiri veitur undir þetta, ef til þess kæmi. Hæstv. fjmrh. virtist bera kvíðboga fyrir því, að orðalag frv. mundi gefa mönnum tyllivonir um, að ríkisstj. ætlaði að taka að sér að sjá um að fullnægja raforkuþörf manna, hvar sem væri á landinu. Ég held, að þetta sé ástæðulaus ótti. Í 1. gr. segir aðeins, að ríkisstj. sé heimilt að gera þetta. Frv. takmarkar hinsvegar á engan hátt rétt einstaklinga til að koma upp hjá sér rafstöðvum og leggja veitur út frá þeim, svo framarlega sem það ekki brýtur í bága við önnur landslög á hverjum tíma.

Hv. 9. landsk. spurði að því, hvort í þessu frv. fælist nokkurt svar við því, hversu fljótt mætti búast við framkvæmdum. Hann svaraði því réttilega sjálfur, að slíkt svar felist ekki í frv. Frv. ákveður aðeins þetta fyrirkomulag á veitunum, og að þessu frv. samþ., getur ríkisstj., hvenær sem er, ef hún fær samþykki Alþ., byrjað á framkvæmdum. Að minni hyggju þarf ekki sérstök l. til þess, heldur aðeins heimild í fjárl.

Það munu nú vera fullgerðar áætlanir um flestar veiturnar út frá Soginu, og liggja þær fyrir iðnn. Að því er fjáröflun snertir er þessum málum skemmra á veg komið. Ég persónulega lít svo á, að heppilegast væri að fá í einn tryggt lán fyrir allar fyrirhugaðar veitur út frá Soginu. En þó ég teldi æskilegast, að lán væri tekið í einu lagi, þá vil ég enganveginn segja, að loku sé fyrir það skotið, að hægt yrði að hefja einstakar framkvæmdir, þótt þetta fé væri ekki fengið. Það hefir þegar verið unnið nokkuð að þeirri veitu, sem verið er að leggja frá Elliðaárstöðinni til Hafnarfjarðar, og ég get vel hugsað, að á sama hátt geti það sýnt sig, að einstakar framkvæmdir mætti hefja annarsstaðar, þótt ekki væri tryggt fé til þeirra.