29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég skal taka það fram, hafi það ekki komið skýrt fram hjá mér áður, að n. ætlast til, að þær veitur verði teknar fyrst, sem gefa mestar vonir um góða afkomu. Það eitt verður að ráða því, í hvaða röð veiturnar verða teknar. Leiki vafi á um það, hvort einhver veita geti borið sig, er fráleitt að byrja á henni. Þetta er skilyrðislaust álit n., og ég get undirstrikað það fyrir mitt leyti. Í fskj. því, sem málinu fylgir, kemur það skýrt í ljós, hve mikill munur er á veitunum í þessu tilliti og hversu misjafnri notkun gera þarf ráð fyrir, til þess að þær geti borið sig. Til þess að Hafnarfjarðarlínan geti borið sig, þarf notkunin á mann ekki að fara yfir 80 wött, en Eyrarbakkalínan ber sig ekki með minni notkun en 150 wöttum á mann. Sumar fjarlægari línur krefjast jafnvel 400 watta notkunar. Sýnir þetta, hve aðstöðumunurinn er mikill. Það er því nauðsynlegt, að þær línur verði teknar fyrst, sem bezt skilyrði hafa til að bera sig.