04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

75. mál, rafveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég flyt hér brtt. ásamt hv. 7. landsk. um, að upp í 5. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, séu tekin ákvæði um, að vegamálastjóri sé fyrst um sinn vatnamálaráðunautur ríkisstj., og að mælingar, kostnaðaráætlanir og annar undirbúningur skuli framkvæmt á skrifstofu vegamálastjóra og af fastlaunuðum verkfræðingum vegamálaskrifstofunnar.

Vegamálastjóri er vatnsvirkjunarráðunautur ríkisstj. og hefir haft á hendi undirbúning svipaðan þessum, og það, sem unnið hefir verið að þessum málum, hefir verið framkvæmt á hans skrifstofu. Þess vegna þykir okkur flm. rétt, að tekið sé inn í frv. ákvæði um, að þetta fyrirkomulag skuli haldast fyrst um sinn, og að verkefnum séu með því móti tryggðir starfskraftar, sem byggðir eru á þekkingu og reynslu. Virðist okkur, að rétt sé að kveða svona á í frv., svo að það komi skýrt fram, að þetta sé tilætlunin. En eins og þessi gr. frv. er nú, er ekkert að þessu víkið sérstaklega.