04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru örfá orð út af því, sem fram kom við 1. umr., þó að nú sé orðið nokkuð langt síðan. Í frv. er ekki ákveðið, að ríkið skuli byggja ákveðnar rafveitur eða línur út frá Soginu, sem þó er gert ráð fyrir aukalínu frá. En hv. þm. Borgf. kom inn á það við 1. umr., að hann teldi sjálfsagt, að stöðin við Andakílsárfossa kæmi undir ákvæði frv., úr því að gert væri ráð fyrir línu frá Soginu, en ekki væri vitað, hvort Akranes og Borgarnes fengju rafmagn. Í sambandi við umræður um þetta mál er ekki hægt að slá neinu föstu um þetta atriði, og það vildi ég, að kæmi skýrt fram af minni hálfu, svo að menn vitni ekki til samþykktar þessa frv. um kröfur um stuðning við framkvæmdir á rafvirkjunum.

Það kom fram í ræðu hv. 9. landsk., að mikið lægi á, að þessi rafveita frá Soginu kæmist í framkvæmd. Auðvitað er það mjög áriðandi frá sjónarmiði þeirra, er þetta svæði byggja. En ég vil, að það komi skýrt fram, að það er ekki hægt að slá neinu föstu um það nú, hvenær þessi lína verður byggð, og þar kemur fleira til greina en það eitt, hvort hægt verður að afla fjár til að reisa hana. Svo að fólkið geti notfært sér rafmagnið frá stöðinni, þarf það mjög mikið af nýjum tækjum, bæði eldavélar og önnur tæki. Við höfum orðið þess varir í sambandi við Sogsvirkjunina, hve innflutningur, sem stendur í óbeinu sambandi við hana, hefir reynzt mikill og þungur nú í þessum gjaldeyrisvandræðum. Þó að við ættum kost á lánsfé til að reisa alla þessa linu og orkustöðvarnar, þá þýðir ekki að leggja út í það, því að við myndum ekki hafa gjaldeyri til að afla þeirra tækja, sem fólkið þarf til að nota sér orkuna. Þess vegna verður þetta að koma á fleiri árum. Allar þessar línur og nýju rafstöðvar verða að koma á nokkrum árum, því að það má ekki hraða framkvæmdunum meira en svo, að hægt sé að fullnægja eftirspurninni á raftækjum.

Þetta vildi ég benda sérstaklega á. Því er ekki hægt að spá neinu um það, hvernig framkvæmd þessa máls verður hagað.