04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

75. mál, rafveitur ríkisins

Pétur Ottesen:

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um það, að samkvæmt þessu frv. væri ekki hægt að slá neinu föstu um, hvaða stöðvar yrðu fyrst og fremst reistar, eða hvar byrjað yrði að leggja rafmagnið frá þeirri stöð. sem reist hefir verið fyrir Reykjavík við Sogið, þá vil ég taka fram, að með því, sem ég sagði um leið og ég benti á rafmagnsþörfina á Akranesi og Borgarnesi, meinti ég, að þá væri hvor leiðin, sem farin væri, fær samkvæmt þessu frv. Það getur heyrt undir ákvæði þessa frv., hvort heldur sem bætt væri úr þeirri þörf með því að reisa nýja stöð eða þá að rafmagnið væri tekið frá Soginu. Hitt datt mér ekki í hug, að með samþykkt þessa frv. væri að öðru leyti slegið föstu, hvar byrja ætti framkvæmdirnar. En nái þetta frv. fram að ganga, munum við þm. Borgarfjarðarhéraðs reyna að fá þingvilja fyrir því, að strax og fárhagslegir möguleikar væru fyrir hendi, þá yrði ráðizt í þá framkvæmd, sem leysa myndi þetta mál að því er snerti rafmagnsþörf Borgarfjarðarhéraðs. Á Akranesi er ekki nema um tvennt að gera til að fullnægja þessari þörf: annaðhvort að leiða þangað rafmagn frá Soginu eða Andakílsfossum, eða að ráðast í mikinn kostnað með kaupum á mótor til að stækka þá ljósastöð, sem nú er þar til og alls ekki fullnægir ljósaþörfinni, hvað þá heldur þörfinni til rafmagns handa iðnaði þar. Þar er nú komin verksmiðja og tvö stór frystihús, sem hafa mikla þörf fyrir betra og ódýrara rafmagn en hægt er að veita með kolakyntri stöð eða olíumótor. Þarna er brýn þörf, sem bæta þarf úr, auk þess sem línan til Borgarfjarðar myndi uppfylla þau skilyrði, sem sett eru í þessu frv., sem sé að líkur séu fyrir því, að rafmagnsframleiðslan geti borið sig, þar sem Akranes er fjölmennasta kauptúnið, og sveitirnar þar í kring myndu einnig hafa mikla þörf fyrir rafmagn, svo að allt virðist mæla með því, að hægt verði að standa undir þeim kostnaði, sem af slíkum framkvæmdum myndi leiða. því bar að skilja orð mín svo, að eftir frv. gæti þetta heyrt undir þær framkvæmdir, sem ríkið á að hafa með höndum, hvort heldur sem byggð yrði sérstök stöð eða rafmagnið leitt til þessara kaupstaða frá Soginu. Við hv. þm. Mýr. munum reyna að fá því framgengt, að ákvæði verði tekið upp um það, að í þessa framkvæmd verði ráðizt strax og fjárhagsmöguleikar virðast vera fyrir hendi. Á hvern hátt það yrði gert, hvort það yrði með þál. eða að það yrði tekið upp í fjárlfrv., hvað liggur beinast fyrir, þá munum við í þessu sambandi haga okkur eftir því, sem okkur virðist réttast og færast.