04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Eiríkur Einarsson:

Ég skildi ræðu hæstv. fjmrh. svo, að hann vildi vísa af höndum ríkisstj. allri ábyrgð á framkvæmdum samkv. till. þeim, sem hér um ræðir, og skil ég það fyllilega. En ég vil nú gera það að spurningu minni, til að það komi sem skýrast fram, hvað það er, sem liggja á til grundvallar beinum framkvæmdum þessa máls. Ég skil það, að það lagaákvæði, sem hér er um að ræða, felur í sér svo stórkostlegar framkvæmdir, að ekki er hægt að hefjast handa þar um, nema sérstakar fjárveitingar komi til í fjárlögunum. En ég skil líka, hve mikil þörf er á línunum til hinna nálægari staða, þar sem fullkominn rafmagnsskortur er yfirvofandi, ef ekkert er að gert, og þar til því er mótmælt, skoða ég þá sem rétta aðilja til að óska eftir skjótum framkvæmdum sér til handa, ef fjárlagaheimild fæst.

Ég heyrði, að hæstv. fjmrh. talaði, eins og skylt er, um þau sérstöku gjaldeyrisvandræði, sem nú eru fyrir höndum í sambandi við að útvega nauðsynleg tæki til rafmagnsnotkunar. Ég skil vel, að það fer ekki svo lítill gjaldeyrir í það. En því fremur sem þessi ástæða er fyrir hendi, er nauðsynlegt, þegar áhugi er fenginn fyrir framkvæmdum í þessu efni, að fyrirframáætlanir liggi fyrir hendi, svo að það verði sem skýrast fyrir þeim, sem með málin eiga að fara, hvers megi vænta og eftir hverju megi óska á næstu árum, og hvað þarf að útvega af efni, því að slíkar framkvæmdir koma ekki af sjálfu sér.

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. þm. Borgf. var að tala um óskir og þarfir Borgarfjarðarhéraðs, og þá sérstaklega kauptúnanna þar, að það er ófært að blanda því inn í umr. hér, hvar þörfin sé mest. Það verður ekki annað en þóf, og niðurstaðan fer þá eftir kappi flytjandans, ef það á að leiðast inn í umr. Ég álít, að ekki eigi að svara fyrirspurnum um það, hvar eigi að hefjast handa, eftir öðrum reglum en þeim, hvar skilyrði eru bezt fyrir hendi. Ef fulltrúi eins héraðs fer öðrum fremur að hefjast handa um slíkar ákvarðanir hér á Alþ., þá virðist mér, að það hljóti að leiða til þess, að þeir, sem hafa áhuga fyrir samskonar framkvæmdum annarsstaðar, hljóti einnig að koma fram með sínar kröfur.

Þegar hv. 7. landsk. svaraði fyrirspurn minni um það, hvort hann áliti ekki, að tiltækilegast væri að byrja þar, sem skilyrði virtust bezt fyrir hendi, þá svaraði hann því játandi, enda virðist það sjálfsagt, að byrjað verði þar, sem rafveita ber sig bezt. Þetta er gott að heyra, en ég vil fella nokkuð inn í það til viðbótar, sem mér finnst frá mínu sjónarmiði, að ekki megi vanta í slíkt svar: að byrjað verði ekki einasta þar, sem rafveita mundi bera sig bezt, heldur þar, sem framkvæmdin yrði einnig ódýrust og auðveldust. Af þessu hvorutveggja verður að hafa hliðsjón, þegar skorið er úr um þetta mál.

Að síðustu vil ég minnast á brtt. þá, sem liggur fyrir á þskj. 175. Mér finnst ekki nema góðra gjalda vert, að sú brtt. og skrifl. brtt. frá hv. 2. þm. Árn. eru komnar fram, og virðast þær miða að sparnaði. Ég álít einnig eðlilegt að fela vegamálaskrifstofunni að hafa þetta mál með höndum, bæði vegna þess kunnugleika, sem vegamálastjóri hefir á vatnamálum, og svo virðist það vera til sparnaðar. En samt má ekki horfa svo mjög í kostnaðinn, að málið njóti ekki þeirrar fagmannsumsjónar, sem það krefst. Ég býst við, að vegamálastjóri sé þess umkominn að veita málinu handleiðslu, og ég hefi góða trú á honum til þess, en þar sem sérfræðinga þarf til, má ekki vila fyrir sér að hafa þá með í ráðum.