04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

75. mál, rafveitur ríkisins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég álit, að það verði að fá till. frá þeirri n., sem undirbjó þetta frv., um það, í hvaða röð sé eðlilegast, að þær framkvæmdin, sem undir frv. geta fallið, komi. Ég geri ráð fyrir, að það mundi nægja að hafa fjárlagaheimild til þess, að ríkissjóður láti byggja línur út frá rafveitu, sem fyrir er, en af því að ég geri ráð fyrir, að þegar í þetta yrði ráðizt, þá yrði það gert með lántöku, þá hygg ég, að réttara væri, að ákvörðun lægi fyrir í lagaformi og að þá yrði um leið tryggð lánsheimild. Ég hygg, að hafa mætti í sama frv. ákvörðun um að ráðast í framkvæmdina og heimild til fjáröflunar. — Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að ákvæði frv. útiloka ekki, að ríkið reisi rafveitu við Andakílsfossa, ef það væri talið hentugra fyrir Borgarfjörð. Ég tel hinsvegar, eins og ég hefi áður tekið fram, að þessi ákvæði séu ekki heppileg. Ég tel það vafamál, hvort rétt sé að taka á herðar ríkissjóðs þann bagga, að byggja sérstakar rafveitur fyrir einstök héruð. En það er af því, að ef ríkið reisti t. d. rafveitu á Akranesi, þá mundu önnur héruð gera sömu kröfu. En þetta er náttúrlega hlutur, sem menn verða að gera upp við sig, þegar till. verður flutt um það, að hefjast skuli handa um framkvæmdir. Ég skal svo ekki tefja framgang málsins með frekari ræðu að sinni.