28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

77. mál, ríkisborgararéttur

*Flm. (Jón Pálmason):

Eftir því sem ég kemst næst, falla mjög saman skoðanir mínar og hv. síðasta ræðumanns um það, að æskilegt sé að sporna sem mest við, að útlendingar fái hér landsvist og setjist hér að. Tel ég, að það, sem hann sagði um það efni, sé alveg á réttum rökum byggt, því að það er út af fyrir sig ekki nein ástæða til að leyfa útlendum mönnum í stórum hópum hér landsvist. En að hinu leytinu er ég ósammála honum um það, að þegar útlendingar hafa fengið landsvist og eru búnir að vera hér í 5 ár eða lengur, þá sé það ekki eðlilegt, ef það er talið, að þeir menn séu nauðsynlegir starfsmenn hjá því opinbera, hvort sem það er ríkið eða sýslu- eða bæjarfélög, að þeim sé ekki veittur ríkisborgararéttur. Í þessu efni skilst mér, að mestu máli skipti að koma í veg fyrir, að útlendingar setjist hér að, sem ekki er nauðsyn á, að hér fái atvinnu, eða taka frá öðrum mönnum atvinnu á þeim sviðum, þar sem nægir menn eru fyrir, en það tekur ekki að neinu leyti til þessa frv., því að ég tel alveg sjálfsagt, að það sé fullt samræmi hjá ríkisstofnunum og hjá bæjar- og sveitarfélögum og allt þar sniðið við sömu línu. Ef fleiri eru þeirrar skoðunar, sem mér skildist hv. síðasti ræðumaður vera, að rétt sé að binda sig fast við 10 ára ákvæðið, þá yrði einnig að fella niður undanþáguna fyrir þá, sem vinna við ríkisstofnanirnar, því að það er ekki rétt, að annað gildi þar en hjá bæjar- og sýslufélögum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja frekar umr. um þetta, en ég held, að skoðun hv. síðasta ræðumanns sé að verða meira og minna almenn, að ástæða sé til að sporna við því, að útlendingar flytjist inn í landið, en þegar þeir eru búnir að vera hér á ár eða lengur og hafa starf hér, þá sé ég enga ástæðu til að hamla á móti því, að þeir fái mannréttindi eins og aðrir menn.