28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

77. mál, ríkisborgararéttur

Sveinbjörn Högnason:

Það gleður mig mjög, að hv. þm. A.- Húnv. er sömu skoðunar og ég um, að frekar beri að þrengja um innflutning útlendinga en rýmka, og þess vegna gefur hann yfirlýsingu um, að þetta frv. sé í hugsunarleysi flutt, sem ég vona, að hann taki afleiðingunum af og hjálpi til, að frekar verði þrengt um innflutninginn heldur en rýmkað, eins og ég veit, að hv. þm. er mér sammála um, að yrði gert, ef þetta frv. yrði að l.

Hv. þm. telur, að hjá ríki og bæjum séu þeir einir útlendingar starfandi, að ekki væri hægt að fá hérlenda starfsmenn til að vinna þeirra verk. Þess vegna séu þetta nauðsynlegir menn. En ég vil benda honum á, að þótt með þurfi um stundarsakir að taka útlendinga hér í vinnu vegna „tekniskra“ fyrirtækja, þá á það ekki að vera okkar takmark, að þeir séu búsettir hér um alla eilífð, heldur að við getum svo fengið okkar eigin sérfræðinga, sem vinni þessi verk, því að ég held, að óhætt sé að segja, að útlendir embættismenn hér á landi hafa gefizt illa. Það eru aðeins til einstakar undantekningar um, að útlendir embættismenn hafi gefizt svo vei sem við getum gert okkur vonir um, að innlendir embættismenn geti gert. Þess vegna eigum við að setja skorður við, að þeir útlendingar, sem við þurfum með aðeins um stundarsakir, verði hér fastir starfsmenn og fái hér ríkisborgararétt. heldur sé það aðeins bráðabirgðaúrlausn, meðan við höfum ekki okkar sérfræðinga, en þeim beri að víkja, þegar við höfum sjálfir menn, sem geta unnið þessi störf. Þetta hygg ég, að hv. flm. sé mér sammála um, og ég veit það líka, að hann mun bera þetta frv. fram með tilliti til eins manns, sem er starfsmaður við rafveituna á Blönduósi. Ég veit, að það mundi ekki verða einasta þessi maður, heldur fjöldi manna hér á landi, sem eins er ástatt um. Þetta mundi því opna leið fyrir því, að tugir og jafnvel hundruð útlendinga fengju fasta búsetu hér á landi og lokuðu fyrir atvinnumöguleika landsmanna, ekki aðeins um stundarsakir, heldur alla tíð, meðan þeir lifðu hér á landi.