28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

78. mál, siglingalög

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er farið fram á að breyta 233. gr. siglingalaganna frá 1914, sem er um það, hvernig skipta skuli björgunarlaunum milli yfirmanna á skipi og skipshafnar. Sérstaklega hefir orðið umtal um þetta í sambandi við þau skip, sem rekin eru með samvinnufyrirkomulagi. Það er gefið mál, að ef skip tefst frá afla vegna þess að það tekur þátt í björgun, þá kemur aflamissir niður á skipsmönnum í hlutfalli við þann hluta, sem þeir eiga í afla. Og þá virðist ekki eðlilegt, að í l. séu sérstök ákvæði, sem gera ráð fyrir annari skiptingu á því, sem fæst fyrir björgunina, heldur en því, sem fengist fyrir þann afla, sem veiddist, ef skipið hefði ekki tafizt. Þess vegna er þetta frv. fram komið um viðbót við þessa gr., þar sem sérstaklega er tekið tillit til samvinnuútgerðar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.