29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

*Emil Jónsson:

Ég myndi ekki hafa eytt mörgum orðum um málið við þessa umr., ef ekki hefði komið fram hjá hv. flm. það sjónarmið, sem mér finnst vera heldur vafasamt, að ég ekki segi meira, og kom það sérstaklega fram í því, að hann vildi vísa málinu til fjhn. til afgreiðslu frekar en landbn.

Það er greinilegt, að hann skoðar það frekar sem fjárhagsmál á þann hátt, hvernig þessi skattur mætti nást, frekar en mál landbúnaðarins. Vitanlega ætti þetta að vera fyrst og fremst mál landbúnaðarins og þess vegna að fara til þeirrar n. til afgreiðslu, sem hann á hér í þinginu. Ég finn ástæðu til að benda á þetta, af því að þetta er fyrst og fremst í mesta máta óvenjulegt, og í sambandi við þetta mál eins og það liggur fyrir ekki heldur rétt.

Ég skal annars ekki fara langt út í þær hugleiðingar, sem hv. 5. þm. Reykv. var hér með um mjólkurskipulagið almennt, en ég vil undirstrika það, sem segir í upphafi grg. frv., að mestu örðugleikar mjólkurskipulagsins og mjólkurframleiðenda felist nú í þeirri framleiðsluaukningu, sem eigi sér stað á þessari vörutegund. Þetta vildi ég undir engum kringumstæðum orða á þennan hátt, heldur segja. að örðugleikarnir felist í því, að koma út og hafa möguleika til að selja þá mjólkuraukningu, sem fyrir hendi er.

Það virðist ekki vera, en þó er á þessu höfuðmunur. Annarsvegar liggur til grundvallar viðleitni til að draga úr framleiðslunni, hinsvegar viðleitnin til þess að koma út þessari vörutegund.

Það orkar ekki tvímælis, að mjólk og mjólkurafurðir eru þær hollustu fæðutegundir, sem búnar eru til í þessu landi, og það er líka jafnvíst, að mikill hluti landsmanna hefir minna af þessari fæðutegund en hann þarf, til þess að vel megi teljast. Örðugleikarnir í þessu máli ættu því alls ekki að liggja í því, að halda niðri þessari framleiðslu, heldur þvert á móti að sjá til þess, að hún geti komizt út til þeirra manna, sem þurfa á henni að halda og vantar hana.

Ég er á því, a. m. k. að því er snertir annað höfuðatriði frv., sem er skatturinn á smjörlíki, að hann fari í skakka átt. Það má vel vera, að þetta tíðkist hjá Norðmönnum, Svíum og Dönum, og öllum í kringum okkur, en það getur verið jafnvitlaust fyrir því, og þó að einhverjir útlendingar geri þetta eða hitt, þarf það ekki endilega og óvéfengjanlega að vera rétt og við skuldbundnir til að taka það upp eftir þeim. — Það er nú einu sinni svo með smjörlíkið, að það er sú feitmetistegund, sem fátækur almenningur er neyddur til að kaupa, vegna þess að hann hefir ekki efni á að kaupa aðra vöru en þessa. Skatturinn, sem hér er lagt til að verði lagður á smjörlíki, 10 aurar á kg., er mjög verulegur, milli 15 og 20%, eftir því, sem ég veit bezt um verð á þessari vöru.

En það hefir líka verið reynd önnur leið í þessu sambandi, sem ég tel miklu betri og skynsamlegri á alla lund, þó að hún kosti líka fé fyrir þá, sem smjörlíki kaupa, og það er íblöndun smjörs í smjörlíki, því að þótt hún feli í sér örlitla verðhækkun, þá gefur hún fyrir þá verðhækkun betri og heilnæmari vöru. En ofan á þá verðhækkun, sem stafar af íblöndun smjörs, á að koma önnur verðhækkun, sem er hreinn skattur á neytendur, án þess að þeir fái neitt í staðinn, og þá held ég, að komið sé út á vafasama braut.

Um hitt atriði frv., skattinn á fóðurbæti, vil ég segja það, að ég vakti máls á því í þessari hv. d. fyrir einum 2 árum síðan, þegar rætt var um tekjuöflun til verðjöfnunarsjóðs mjólkurbúa, að það væri órétt í mesta máta, eins og nokkrir hv. þm. fluttu till. um, að skattur væri lagður á útlendan fóðurbæti allra landsmanna til þess að koma þeim að notum, sem á verðjöfnunarsvæðinu byggju og nytu því styrks úr verðjöfnunarsjóði. — Nú hefir þessu verið snúið við. Nú er tekinn skattur af fóðurbæti á þann hátt, að allir landsmenn eiga að greiða hann og hann fyrst og fremst að koma þeim að notum, sem eru fyrir utan verðjöfnunarsvæðið. Mér finnst þetta stefna í rétta átt og bæta úr því misrétti, sem verðjöfnunarsvæðin skapa á milli þeirra, sem á þeim búa, og hinna, sem búa utan þeirra.

Í grg. segir, að þessi skattur mundi verða um 200 þús. kr. á ári, og hv. flm. virðist gera ráð fyrir, að hann geti farið upp í 280 þús. kr. á ári, samkv. þeim tölum, sem hann hafði frá hagstofunni frá árunum 1935 og 1936, 120 þús. kr. fyrir smjörlíkið og 160 þús. kr. fyrir fóðurbætinn. Þetta er enginn smáræðis peningur, allt upp undir það eins mikið og allur verðjöfnunarsjóður mjólkurbúanna hér á verðjöfnunarsvæðinu á suðvesturlandi, ef ég man rétt. Og þrátt fyrir það er ekki nokkur stafur um það í frv., hvernig stj. þessa sjóðs eigi að vera. annar en sá, að landbúnaðarráðh. á að setja, eftir eigin geðþótta og án nokkura skilyrða af l. hálfu, reglur um það, hvernig þessu skuli varið.

Mér finnst þetta svo losaralega uppsett, að það megi á engan hátt við það una, og þó að ekki væri annað en þetta ákvæði frv., þá væri það nóg til þess að það færi til landbn., því að það er hagsmunamál bændanna, hvernig þessum 280 þús. kr. verði dreift.

Ég minnist þess, að það hefir staðið styr um, hvernig skipting verðjöfnunarsjóðs yrði framkvæmd. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinni yfirstjórn yfir sjóði, sem verður nærri jafnstór og verðjöfnunarsjóðurinn fyrir suðvesturland. Ég er ekki þar með að segja, að landbráðh. geti ekki gert þetta á þann hátt. sem einhverjum — jafnvel mörgum — muni líka, en ég álit mikla tryggingu fyrir því, að framkvæmdin verði góð, ef einhver frekari ákvæði væru sett í frv. því að nú eru þar engin önnur ákvæði en að landbráðh. skuli setja reglugerð um þetta efni.

Ég vildi gera það að minni till., að málinu yrði nú vísað til landbn. í stað fjhn., því að mér finnst, að hér sé fyrst og fremst um landbúnaðarmál að ræða, en ekki fjárhagsmál, á hvern hátt þessi skattur yrði píndur út úr þeim mönnum, sem jafnvel sízt hefðu möguleika til að greiða hann. Vandamálið er ekki það, heldur hitt, hvernig vöru sem er möguleiki til að framleiða mikið af í landinu, meira en þegar er gert, verði dreift út til hinna, kannske ennþá fleiri, sem hafa þörf fyrir þessa vöru, en geta ekki keypt hana.