29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Vegna þeirra umr.. sem orðið hafa um frv., vil ég taka fram örfá atriði.

Hv. 5. þm. Reykv. var að ræða um það, að eftir því, sem framleiðslan væri betur tryggð, eftir því myndi hún aukast. Það má vel vera, en þetta gildir ekki aðeins um framleiðslu almennt, heldur mun það líka vera svo á öllum sviðum, að eftir því, sem afkoma einstaklinganna gerði betur tryggð á þessum og þessum staðnum, því fleiri sæki þangað. M. ö. o., þetta gildir ekki aðeins fyrir framleiðendur, heldur líka fyrir starfs- og verkafólk í landinu. Ef hv. þm. telur það háskalegt fyrir framleiðendur að koma á tryggara verðlagi á vörum sínum og gera það sæmilegt, vegna þess að þá verði meiri erfiðleikar á að fá markað, þá er það jafnháskalegt fyrir verkamenn að fara fram á að hækka kaup sitt á þessum og þessum staðnum, því eftir því verði minni eftirspurn eftir vinnu þeirra og fleiri, sem gangi atvinnulausir. Það er enginn, sem getur um þetta deilt.

Hv. þm. segir, og ég er honum sammála um það, að það sé ekki nein bót í því að tryggja markaðinn, heldur verði fyrst og fremst að auka kaupgetu þeirra, sem eiga að kaupa. En ég vil spyrja hv. þm.: Hvað þýðir að tryggja kaupgetuna hjá svo og svo mörgum neytendum, ef ekki er tryggt, að einhverjir verði til að framleiða, m. ö. o., ef framleiðslan verður ekki fyrir hendi? Mér skilst, að það sé óumflýjanleg afleiðing af stöðugt hækkandi kaupi á vissum stöðum í landinn, að sá straumur haldi áfram, sem fyrir er, að menn hverfi frá framleiðslunni og fari þangað, sem kaupið er hærra, og fleiri og fleiri verði atvinnulausir.

Jafnvel þó að kaupgetan yrði eitthvað betri, þá stoðaði það lítið, ef ekki væri um leið fenginn nokkuð öruggur grundvöllur undir aðra aðalframleiðslustarfsemi landsmanna. Það er því ekki aðeins mál framleiðenda að koma framleiðslu sinni á nokkurnveginn öruggan grundvöll, heldur engu síður mál verkamannanna, því að því fleiri, sem flosna upp frá framleiðslustarfseminni, því fleiri verða þeir, sem keppa um markað launastarfseminnar í kaupstöðunum. Þess vegna er það í raun og veru eðlilegt, að þetta sé skylt hvorutveggja og rétt sem almenn hugleiðing hjá hv. þm., að eftir því sem verðið verði tryggara og framleiðslustarfsemin traustari, eftir því verði framleiðslan meiri.

Þá skal ég geta þess, að enn sem komið er er til markaður fyrir aukna framleiðslu í landinu, og eins og ég benti á í framsöguræðu minni, er ekki um mjólkurafurðir að ræða, sem ekki er hægt að koma út, og ennþá er ótakmarkaður markaður fyrir smjörframleiðslu, þar sem hér eru framleidd 1200 tonn af smjörlíki á ári. Þar af leiðir, að það liggur í hlutarins eðli, að það verður að styrkja þessa framleiðslu og láta hana aukast áður en hinni yrði útrýmt, sem hlýtur að vera takmarkið.

Þá vil ég benda á hitt, atvinnuna hjá verkamönnunum; þar er orðið yfirfullt, vegna þess að á öllu landinu ganga hundruð manna atvinnulausir. Á þá hliðina er háskinn ennþá meiri, að útbúa þar öryggi og hækka kaupið, heldur en að hækka framleiðsluna, vegna þess að ennþá er hægt að láta framleiðsluna aukast án þess að það verði örðugleikum háð, en það virðist örðugleikum háð á meðan framleiðslan er ekki á öruggari grundvelli að hafa nóg að gera handa öllum verkamönnum kaupstaðanna. Þetta er staðreynd, sem liggur fyrir og ekki þýðir að skella skollaeyrunum við, því að það er alveg gagnslaust.

Þá talaði hv. 5. þm. Reykv. ennfremur um þá mjólkurhækkun, sem orðið hefði á þessu ári, og taldi, að hún væri óþörf. Ég hefi aldrei séð þá menn, sem hafa talað gegn þessari tveggja aura mjólkurhækkun, sem gerð var í haust, gera sér grein fyrir því, að mjólkin er sú eina neyzluvara, sem ekki hefir hækkað í verði þrátt fyrir þessa hækkun, síðan 1934. Þó er hún sú vara, sem stöðugt er verið að stagast á, að hafi hækkað í verði. Vegna skipulagsins hefir verið hægt að láta framleiðendur fá hækkað verð fyrir sínar afurðir, án þess að níðzt hafi verið á neytendum. Þeir, sem þykjast bera hagsmuni verkalýðsins og neytenda sérstaklega fyrir brjósti, virðast sérstaklega þurfa að beina örvum sínum hingað, þar sem gerðar hafa verið góðar og miklar tilraunir með talsverðum árangri til að koma í veg fyrir, að þessi neyzluvara hækkaði í verði samfara hækkuðu kaupgjaldi og hækkun neyzluvara í landinu almennt.

Hv. 5. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. töluðu um, hve óréttmætt væri að leggja skatt á smjörlíki.

Ég held, að það sé nokkuð almennt álitið, frá heilbrigðislegu sjónarmiði, í öllum menningarlöndum, að það sé ekki gert til ógagns fyrir það fólk, sem sérstaklega notar smjörlíki, að reyna að hamla á móti því, að það sé almennt notað. Mér skilst, að það sé almennt álitið, að það sé háskalegt fyrir heilsufar þeirra, sem nota þessa fæðu mikið, og því sé frekar gagn en ógagn gert með því að stuðla að því, að heilbrigðari fæða komi í þessarar stað.

Ég hefi heyrt ýmsa halda því fram, að smjörlíkið sé alls ekki ódýrara en smjörið, því að þótt hærra verð sé á kg. af smjörinu, þá er enginn vafi á því, að það er margfalt drýgra að nota það heldur en smjörlíkið; ég hefi þar fyrir mér reynslu æðimargra húsmæðra, sem segja, að þær telji í mörgum tilfellum hagkvæmara að nota smjörið, bara frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Hv. 9. landsk. talaði um nokkur fyrirkomulagsatriði frv., og get ég verið honum þakklátur fyrir ýmsar aths. í því efni.

Ég veit, að hv. þm. hafa tekið eftir því, að hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en aðallínurnar, hvað skuli styrkja o. s. frv., en ekki hafa verið sett inn smáfyrirkomulagsatriði, sem þægilegra væri að setja í reglugerð jafnhliða því, sem framkvæmdum miðar áfram. Það mun vera algengt í þessum efnum, að aðallögin, sem samþ. eru af þingunum, séu að mestu leyti heimildarl., en að fyrirkomulagsatriðin séu síðan sett með reglugerð, vegna þess að fyrirkomulagsatriðin verður að laga til í hendi sér, eftir því sem framkvæmdin segir manni til að heppilegt sé, og það er mjög óheppilegt með slíka löggjöf sem afurðasölulöggjöfina, að marka henni í upphafi of þröngan stakk, því að það þarf alltaf að bæta um eftir því, sem framkvæmdin segir til um, að nauðsynlegt sé. Með þá reynslu fyrir augum, sem aðrar þjóðir hafa fengið, og þá reynslu, sem við sjálfir höfum fengið, þar sem við höfum þurft að koma mjólkurl. inn í þingið á hverju ári, þá hefi ég sniðið þetta frv. þannig, að það skuli vera sem mest reglugerðarákvæði, sem að framkvæmdinni lýtur. Hér eru aðeins markaðar þær línur, sem eigi að fylgja í höfuðdráttunum.

Það má lengi deila um það, hversu langt þessi sjóður eigi að ná með verkefni sitt, því að þar getur margt komið til greina, en ég held, að með þessum ákvæðum, sem hér eru ákveðin í 2. gr., sé hægt að ná til æðimargra hluta, sem síðar komi í ljós, að nauðsynlegt sé að styrkja.

Ég held, að ég fari ekki inn á hin einstöku fyrirkomulagsatriði, sem hv. 9. landsk. talaði um; t. d. að ekkert ákvæði væri um það, hve mörg rjómabú skyldu styrkt og á hvaða stöðum, en ég er honum fyllilega sammála um það, að betur væri farið um sumt í okkar mjólkurbúastarfsemi, ef yfirstjórnin hefði verið meiri en verið hefir.

Hv. 7. landsk. virðist aðallega setja fyrir sig skattinn á smjörlíkinu, því að um hinn liðinn, skattinn á fóðurbætinum, og hvernig honum yrði varið, er hann mér sammála og telur hann réttan. Þessi smjörlíkisskattur er honum þyrnir í augum. Hann segir, að hann sé jafnvitlaus, þó að hann sé helmingi hærri hjá Norðmönnum og þrisvar sinnum hærri hjá Svíum og Dönum. Ég hygg samt, að okkur sé óhætt að segja, að þessar þjóðir séu búnar að fá fullt eins mikla reynslu í þessu efni og við með okkar unga skipulag og tiltölulega nýju framleiðslu, og okkur er engin skömm að taka þær til fyrirmyndar, þar sem fengin er viðurkenning á því, með því að aðrar þjóðir hafa tekið þetta upp, að hér séum við á réttri leið. Sérstaklega álit ég, að hv. 7. landsk. ætti ekki að vera þyrnir í augum að taka þessar þjóðir til fyrirmyndar, þar sem löggjöf þessara þjóða allra er sett með tilstyrk eða forgöngu sósíalista, sem hafa farið með landsstjórn undanfarin ár í þessum löndum. Það er því vitað, að menn, sem hafa verið sama sinnis og hann í þjóðmálum, hafa talið þetta heppilega leið, að fenginni miklu meiri reynslu en ennþá er fengin um þessa framleiðslu hér á landi.

Þá talaði hv. þm. um, að það vantaði í þetta frv. ákvæði um, hver væri yfirstjórn sjóðsins. Hann segir, að það væri náttúrlega ekki fráleitt að hafa einhverja gr. um það fyrirfram, hvernig hún væri, þegar litið er til þess ágreinings, sem er um stjórn þess verðjöfnunarsjóðs, sem fyrir er. Ég vil þá segja honum, að mér kemur það ókunnuglega fyrir, að ágreiningur sé um úthlutun verðjöfnunarsjóðsins. Ég hefi aldrei heyrt nokkurt mjólkurbú kvarta undan, að þar væri hlutdrægni beitt. Ég veit að vísu, að einstakir óhlutvandir menn bæði utan þings og innan hafa reynt að tortryggja framkvæmdina með ýmsu móti, en til mjólkursölun. hafa aldrei komið kvartanir um hlutdrægni í þessari úthlutun, enda eru skýr ákvæði um það efni, og þeim hefir verið fylgt við úthlutun verðjöfnunarsjóðsins. Hitt er annað mál, að það hefir verið ágreiningur um ýmis fyrirkomulagsatriði laganna, en það hefir jafnan verið fyrir utan verðjöfnunarsjóðinn, og ég álít, að eftir því, sem hér liggur fyrir, sé ekki hægt að tryggja yfirstjórn þessa sjóðs betur en með því, að landbrh. setji um það reglugerð og feli þeim framkvæmdina, sem heppilegast verður álitið, og ég tel, að réttast væri að fela þeim úthlutunina, sem fara með yfirstjórn mjólkurmálanna í landinu.

Ég held, að það séu svo ekki fleiri atriði, sem ég þarf að svara, því að ég held, að það hafi verið meir tilfinningamál en málefnaágreiningur hjá hv. 7. landsk., til hvaða n. þetta frv. ætti að fara. Ég held, að sú togstreita sé aðeins vegna þess, að hann á sæti í þeirri n., sem hann vill fá málið til, en ég á sæti í hinni, sem ég vil, að það fari til. En mér hefir skilizt, að hann álíti þetta miklu meira fjárhagsmál og skattamál heldur en landbúnaðarmál, því að hann ræddi þá hlið eingöngu, enda verður því ekki neitað, að frv. byggist fyrst og fremst á að taka sérstakan toll í þágu skipulags, sem enn er ekki komið á hér á landi, en fordæmi er fyrir í svo að segja öllum löndum, þar sem mjólkurskipulagi hefir verið komið á, og það, sem hér er um að ræða, er, hvort við eigum að leggja þennan skatt á til styrktar þessu fyrirkomulagi. Í frv. eru aðeins dregnir höfuðdrættirnir, en ætlazt til, að fyrirkomulagsatriðin verði ákveðin með reglugerð af landbrh. Og þar sem ágreiningurinn er aðallega um tekjuhliðina, þá tel ég réttara, að frv. fari til þeirrar n., sem sérstaklega hefir með þau mál að gera.