29.03.1938
Neðri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

Einar Olgeirsson:

Það er ekki margt, sem ég þarf að segja, vegna þess að ég býst við, að í aðalatriðunum séum við hv. flm. sammála um þær afleiðingar sem mjólkurskipulagið hefir haft. En hann benti á, og það er það, sem ég vildi athuga, að það hagaði líkt til um kaupgjald verkalýðsins eins og sölu mjólkur og markað fyrir hana. Ég vil athuga þetta mál, af því að slíkar hugmyndir verðum við oft varir við.

Hann minntist á, að atvinnuleysið stafaði af of háu kaupgjaldi, verkamenn settu of hátt verð á vinnuaflið. Nú vil ég strax taka það fram, að það er nánast sagt óhæfa, að annað eins skuli geta átt sér stað, að í þjóðfélagi, þar sem allir eru sammála um, að vinnuaflið haldi því saman, þar skuli vinnuaflið vera meðhöndlað sem vara, að það skuli ganga kaupum og sölum, sem þýðir ekkert annað en það, að þeir menn, sem eingöngu verða að lifa af slíku vinnuafli, skuli settir sem þrælar. Þetta er óhæfa í einu skipulagi og dæmir skipulagið til dauða, því að þetta er ástand, sem þeir viðkomandi menn, verkamennirnir, geta ekki sætt sig við.

En svo maður víki nú hreinlega að því spursmáli, sem hér liggur fyrir, þá stafar atvinnuleysið alls ekki af of háu kaupgjaldi. Atvinnuleysið stafar af allt öðru. Atvinnuleysið stafar af sjálfu auðvaldsskipulaginu með þeim mótsögnum, sem í því eru. Það, að einn maður skuli ekki hafa möguleika til að vinna, stafar af því, að hann hefir engin tæki til þess. Það er af því, að það er lítil stétt manna, sem á öll framleiðslutækin, og verkamenn hafa ekki aðgang að þeim. Síðan notar þessi litla stétt, sem á framleiðslutækin, aðstöðu sína til þess að svipta eignalausa verkamenn möguleikum til þess að geta unnið sjálfir, ráða yfir þeirra lífsskilyrðum, gera þeirra vinnuafl að vöru, sem hún kaupir, þegar henni þóknast, og svo framarlega sem hún telur ekki borga sig að kaupa það, þá gerir hún það ekki. Og fyrir hana borgar sig aldrei að kaupa vinnuafl allrar verkamannastéttarinnar. því hefir líka atvinnuleysið alltaf verið föst fylgja auðvaldsskipulagsins, því að án þess er ekki hægt fyrir auðmannastéttina að halda uppi þeim gróða, sem hún hefir af vinnuafli verkamanna. Þess vegna er atvinnuleysið bein afleiðing auðvaldsskipulagsins sjálfs, afleiðing eignarréttar auðmannanna yfir framleiðslutækjunum og eignaleysis verkamannanna á þeim. Því meir sem auðvaldsskipulagið ætti að geta fullnægt þörfum fólksins, því meira áberandi verður atvinnuleysið og því skelfilegra verður það í þjóðfélaginu og nær hámarki sínu á síðustu tímum, þegar ekki aðeins 1/3 allra verkamanna er atvinnulaus, heldur helmingur allra framleiðslutækja, sem til eru, liggur ónotaður.

Þetta er það, sem þarf að athuga í sambandi við þetta mál. Það er óhugsandi fyrir þingið að ætla sér að gera neitt til að bæta úr atvinnuleysinu, meðan þær hugmyndir eru ráðandi, að atvinnuleysið stafi af of háu kaupgjaldi. Ef menn ætla sér að lækna einhverja meinsemd; er það fyrsta skilyrðið, að menn þekki orsakir meinsemdarinnar. Þá fyrst er hugsanlegt að geta gripið fyrir hana.

Hv. flm. minntist á, að það væri til lítils, þó að kaupgetan yrði nægileg í kaupstöðunum, ef engir yrðu til að framleiða. Það er með öllu óhugsandi, ef búið væri að afnema atvinnuleysið, að ekki yrðu nógir til að framleiða. Í heiminum er nú það einkennilega ástand, að það eru framleidd öll ósköp af allskonar gæðum, það eru til allsnægtir af öllu, en innan um þessar allsnægtir eru þúsundir og milljónir af mönnum, sem hungrar þrátt fyrir allsnægtirnar og bókstaflega vegna þeirra.

Það, sem liggur fyrir í því máli, sem hér er til umr., er ekki það, að ekki séu nógu margir til að framleiða mjólk; það er hitt, sem veldur erfiðleikunum, hvernig eigi að fá nægilegan markað fyrir þá mjólk, sem framleidd er, og sérstaklega að láta aukna neyzlu haldast í hendur við aukna framleiðslu. Þetta er það spursmál, sem alltaf strandar á í auðvaldsskipulaginu, af því að þar er mótsögn milli framleiðslunnar og kaupgetunnar, mótsögn, sem stafar af því, sem ég gat um áðan, að verkamannastéttin er kúguð og nær eignalaus, og hinsvegar örfáir menn, sem ráða yfir framleiðslutækjunum.

Hv. flm. minntist líka á, að framleiðslan væri ekki á öruggum grundvelli. Það er rétt, og það er einmitt eitt af einkennum auðvaldsskipulagsins, að framleiðslan er á svo ótryggum grundvelli, og það er vegna þess, að aðalgrundvöllurinn er gróðalöngun ákveðinna eignamanna, og þegar þeim, sem eiga framleiðslutækin, finnst ekki borga sig að reka þau, þá stöðva þeir þau.

Hv. flm. kom inn á það í þessu sambandi, að ekki væri nægilegur markaður fyrir vinnuaflið. Það er einmitt mein auðvaldsskipulagsins og það, sem dauðadæmir það, að slíkt ástand skuli geta skapazt, í fyrsta lagi að það skuli þurfa að tala um markað fyrir vinnuaflið og að lifandi manneskjur skuli svo að segja verða að halda uppboð á sjálfum sér, — að innan þessa skipulags skuli ekki aðeins vera farið svo ómannúðlega að að gera vinnuaflið að markaðsvöru, heldur skuli ekki einu sinni vera hægt að nota allt vinnuaflið. Þegar ástandið er þannig í þessu skipulagi, að fjöldi manna fær ekki að nota sitt vinnuafl, þá er ekki nema tvennt að gera: Annarsvegar að skera niður mennina, sem ekki fá að nota sitt vinnuafl, og það er það, sem gert er með fasisma og stríði, eða hinsvegar að skera niður auðvaldsskipulagið, og það er það, sem við viljum gera.