01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

79. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

*Þorbergur Þorleifsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir frá hv. 1. þm. Rang., álít ég svo mikilsvert, að ég verð að telja það lítt sæmandi, að það sæti eingöngu andmælum við þessa 1. umr. Menn úr þremur stjórnmálaflokkum hafa þegar andmælt því, hv. 5. þm. Reykv., hv. 6. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. þm. Hv. 9. landsk. hefir talað um málið á víð og dreif, en mér var ekki ljóst af hans ræðu, hvort hann mundi greiða atkv. með eða móti.

Eins og kunnugt er, hefir ríkið mörg undanfarin ár styrkt ræktun landsins víðsvegar úti um hinar dreifðu byggðir. En til þess að þessi ræktun geti komið að fullum notum, verður að vera tryggt, að hægt sé að framleiða eitthvað á þessu landi. Nú hagar yfirleitt þannig til, að á ræktuðu landi er hagkvæmast að framleiða mjólkurafurðir með því að koma upp kúabúum. En markaður fyrir þessa vöru er yfirleitt mjög þröngur og er aðallega bundinn við Reykjavík og ýmsa af hinum stærri bæjum. Þess vegna verður að vinna allmikið úr mjólk af öðrum vörum, þar sem svo hagar til, að ekki er hægt að koma henni á markað óunninni. Það er vitanlega mjög erfitt fyrir hvern einstakan bónda að vinna úr mjólkinni á þennan hátt. En þetta er hægt að gera með félagsskap. Og slíkur félagsskapur um vinnslu mjólkur hefir komizt á fyrir löngu síðan í ýmsum héruðum landsins, þar sem eru rjómabúin. En það þyrfti að koma slíkum rjómahúsum á stofn miklu víðar, og það er yfirleitt ekki hægt, nema með allríflegum styrk frá hinu opinbera. Þetta hefir ríkið ekki séð sér fært að gera eins og þörf er á.

Þetta frv. mun, ef það verður að l., geta hjálpað bændum á þessu sviði og fullnægt þeirri þörf, sem er fyrir það, að komið verði á fót rjómabúum víðsvegar um landið. Það mun stuðla að bættum hag framleiðendanna og verða til þess, að fleira fólk geti lifað í sveitunum en nú. Það mun líka stuðla að bættum hag alþýðunnar í kaupstöðunum, því það mun hjálpa til þess að hefta aðstreymið til kaupstaðanna og þar með draga úr atvinnuleysinu.

Þetta mál hefir fleiri hliðar. Smjör er holl og bætiefnarík fæða. En framboðið á þessari vöru hefir verið það lítið undanfarið, að ekki hefir verið hægt að fullnægja ákvæðum l. um smjörblöndun smjörlíkis. Þetta sýnir m. a., hversu þörfin er rík fyrir það, að komið verði upp rjómabúum. Og verði þetta frv. samþ., þá er nokkurn veginn víst, að á næsta ári geta risið upp rjómabú víðsvegar um landið, sem fullnægja þeirri eftirspurn, sem er eftir þessari vöru. Ég mun þess vegna skora á þá n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að flýta fyrir afgreiðslu þess.

Ég legg ekki svo mikið upp úr því, hvort frv. fer til landbn. eða fjhn., en það væri e. t. v. bezt fyrir framgang málsins, að það færi til þeirrar n., sem hv. flm. á sæti í, fjhn., og mun ég þess vegna greiða atkv. með því.