11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

97. mál, fiskimálanefnd

*Pétur Ottesen:

Ég vil mæla með því, að slík breyt. sem þessi verði gerð á l. frá síðasta þingi um fiskimálan., útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl. Eftir því, sem það mál horfir við frá mínum bæjardyrum séð, virðist mér ekki síður ástæða til að leggja því lið, að hægt sé að láta byggja eða kaupa vel útbúna fiskibáta af hentugri stærð, en að gera slíkar ráðstafanir til að auka togaraflotann, og þótt í l. sé ákveðið, að fé þessu skuli varið til þess, finnst mér ekki hyggilegra, fyrst fjárframlög virðast ekki ætla að fást lögum samkv. til togarakaupa, að sjávarútvegurinn sé þá látinn fara á mis við þann stuðning, sem honum getur verið að þessu fé, sem hér er rætt um. því virðist mér frá mínu sjónarmiði, að að þessu fé eigi að standa jafnopinn aðgangur samkv. l., hvort sem um er að ræða aukningu togaraflotans eða vélbátaflotans. Svo stendur á um vélbátaflotann, a. m. k. sumstaðar í verstöðvunum, að bátarnir, sem þar eru, eru ekki stærri en það, að þeir geta aðeins stundað þorskveiðar frá þessum veiðistöðvum, en geta ekki t. d. stundað síldveiðar fyrir Norðurlandi, en það er mikill ágalli á útgerðinni eða útgerðartækjunum eins og nú er komið, þegar þorskveiðin bregzt ár eftir ár, en síldveiðin gefur góðan arð, að geta þá ekki notað sér þessa aðstöðu til síldveiða, með því að hafa nægilega stóra báta, svo að hægt sé að nota þá jöfnun höndum við þorskveiðar og síldveiðar. Ég álít, að endurnýjun og aukning vélbátaflotans sé engu síður nauðsynleg en endurnýjun togaraflotans, og því virðist mér þetta fjárframlag eigi að standa jafnopið samkv. l. öllum þeim mönnum, sem geta uppfyllt lagaákvæði um fjárframlag í þessu skyni, hvort sem þeir snúa sér að því að kaupa sér vélbáta eða togara. Með því móti verður þetta fé sjávarútveginum verulega til stuðnings. Get ég tekið undir með hv. flm. um að óska, að þessi breyt. fái góðar undirtektir og greiða afgreiðslu á þessu þingi.