11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

97. mál, fiskimálanefnd

*Emil Jónsson:

Aðeins nokkur orð til viðbótar því, sem ég sagði áðan um þetta mál. Eins og ég viðurkenndi og undirstrikaði áðan, að endurnýjun togaraflotans er nauðsynleg, þá viðurkenni ég einnig nauðsynina á endurnýjun vélbátaflotans. En ég vil aðeins benda á þá hættu, sem af því gæti stafað, ef l. hrófluðu við þeim fjárveitingum, sem þegar eru veittar í því augnamiði að styrkja togaraflotann. Ef farið verður að skerða það fé að verulegu leyti, þá er útséð um togarana. Því vil ég leggja áherzlu á, að fyrst og fremst verði séð fyrir þeim og að það mál verði leyst á þann hátt, sem um hefir verið talað, þ. e. a. s. að fengnir verði 2 nýir togarar, og síðan verði snúið að stuðningi við vélbátana.

Ég vænti, að um þetta geti náðst samkomulag, þannig, að bæði málin verði leyst, en ekki annað leyst á kostnað hins; það er það, sem nauðsynlegt er. Um þetta hafa farið fram samningaumleitanir og samtöl milli Alþfl. og Framsfl., og vænti ég, að árangurinn verði sá, að bæði málin verði leidd til lykta, en ekki annað málið leyst á kostnað hins.