19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

101. mál, tilraunabú

Steingrímur Steinþórsson:

Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þetta mál, enda þótt ég sé í n. þeirri, sem fær það til meðferðar.

Það er rétt, að hér er um stórmál að ræða, sem vel þarf að athuga. Nú er varið um 2 millj. kr. úr ríkissjóði til landbúnaðarins. Það ræður því af líkum, að það varðar miklu, að því fé sé vel og hagkvæmlega varið. Það er stórmikið fé á okkar mælikvarða og það veltur á miklu, að það sé notað á réttan hátt. Það er rétt, sem hv. flm. frv. tók fram í framsöguræðu sinni, að það er svo miklu minna, sem Íslendingar leggja hlutfallslega fram til ýmiskonar tilraunastarfsemi, en flestar aðrar menningarþjóðir gera, þar sem landbúnaður er stundaður eitthvað verulega, og þess vegna er það réttlátt að taka þetta mál til athugunar, og það rækilegrar athugunar. En hitt orkar nokkuð tvímælis, hvort þetta frv. eins og það liggur fyrir geti leyst þetta mál á réttan hátt.

Það er hér gert ráð fyrir því, að sett séu á stofn tilraunabú sitt í hverjum landsfjórðungi. Nú er það svo, að það hefir verið nokkur tilraunastarfsemi hér á landi, og hún hefir verið rekin alla leið frá aldamótum. Þegar Búnaðarfélag Íslands var stofnað um aldamótin, þá hóf það tilraunastarfsemi hér í Reykjavík, sem svo hefir verið haldið áfram á Sámsstöðum og að nokkru leyti á Laugarvatni. Þegar Ræktunarfélag Norðurlands var stofnað 1903, þá byrjaði það á tilraunastarfsemi, sem svo hefir verið aðalverkefni þess síðan, enda mun hún halda nafni þess á lofti mest af öllu því, sem það hefir gert í þau 35 ár, sem það er nú búið að starfa. Það er enginn vafi á því, að sú tilraunastarfsemi, sem þar hefir verið rekin með tiltölulega mjög litlu fjármagni, hefir gert mjög mikið gagn. Ég vil í því sambandi nefna eitt dæmi. Strax og þessar tilraunastöðvar hófu starfsemi sína gerðu þær tilraunir með sáðslétturæktun. En svo einkennilega vildi til, að tilraunastöðvunum heppnaðist þetta vel, en bændum þeim, sem ætluðu að taka það eftir þeim, heppnaðist það ekki. Og fram yfir 1920 var mikill munur á því, sem bændur fengu í „praksis“ með því að nota grasfræræktun, og því, sem fékkst á tilraunastöðvunum. Þá sögðu margir sem svo: Hvaða gagn er að því, þó hægt sé að búa til góð sáðsléttutún á tilraunastöðvunum, ef það er ekki hægt hjá bændunum sjálfum? En það hefir nú sýnt sig, að tilraunastöðvarnar höfðu rétt fyrir sér, en bændur höfðu ekki lært að notfæra sér það, sem þær kunnu og gátu gert. Nú má segja, að lausn sé fengin á þessu. Ég bendi á þetta til þess að sýna, að á vissum sviðum hefir ótrúlega mikill árangur náðst með þeirri litlu fjárveitingu, sem til þessa hefir verið veitt.

Við höfum nú 2 tilraunastöðvar, sem fást við tilraunir með jarðyrkju. Það eru tilrannastöð Ræktunarfélags \orðurlands á Akureyri og tilraunastöðin á Sámsstöðum, og svo er lítillega fengizt við tilraunir á Eiðum. Það má því segja, að það sé vísir til tilraunastöðva í 3 fjórðungum hér á landi, eða tilraunabúa, eins og það er nefnt hér í þessu frv. Þessar tilraunastöðvar fást að vísu eingöngu við tilraunir með jarðrækt, en ekki með búpeningsrækt. Þessar tilraunastöðvar hafa nú samtals 25 þús. kr. styrk af opinberu fé til þessarar starfsemi, sem er mjög lítið fé samanborið við það, sem slíkar stöðvar hafa erlendis, svo það er ekki hægt að búast við hliðstæðum árangri.

En það, sem ég vildi benda á við þessa 1. umr., er, að mér virðist það, að miða við 4 bú, sitt í hverjum landsfjórðungi, sé nokkuð þröngt. Ég held, að það þyrfti að taka þetta til rækilegrar yfirvegunar, áður en slík skipan er á þessu gerð. Það verður vitanlega að skoða þær stöðvar, sem þegar eru reknar af Ræktunarfélaginu á Akureyri og Búnaðarfélagi Íslands á Sámsstöðum, sem uppistöðu í þessi væntanlegu tilraunabú. Það er búið að kosta miklu fé til beggja þessara staða, og það eru miklir möguleikar til þess að halda áfram stórauknum tilraunum á þessum stöðum.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að það eru rekin opinber bú við bændaskólana, og það mun hafa vakað fyrir þeim, sem undirbjuggu bændaskólalögin á sínum tíma, að þessi bú væru að einhverju leyti notuð til tilraunastarfsemi, annaðhvort snertandi búfjárrækt eða jarðrækt. Það þarf því að athuga í sambandi við þetta frv., að hve miklu leyti eigi að taka skólabúin við bændaskólana inn í tilraunastarfsemina. Það er nokkuð, sem mælir með því, og nokkuð, sem mælir á móti því. Þeir piltar, sem þar vinna, þurfa að fá að vinna að almennri landbúnaðarstarfsemi, og að því leyti er ekki heppilegt, að búin væru öll sett í tilraunastarfsemi, sem yrði kannske nokkuð fjarri eðlilegum búrekstri. Það er svo aftur ýmislegt, sem mælir með því, að tilraunastarfsemi sé rekin þar.

Ég sé ekki, að það verði neitt úr landbúnaðardeildinni við atvinnudeild háskólans á annan hátt en þann, að hún fái bú til umráða í nágrenni Reykjavíkur, þar sem gerðar væru ýmiskonar tilraunir með búpening, bæði fóðurtilraunir og sjúkdómatilraunir og að einhverju leyti jarðræktartilraunir. Þetta bú yrði að vera í nágrenni við Reykjavík. Ég vil með þessu benda á, að það er dálítið erfitt að hnitmiða þetta við 4 bú, sitt í hverjum landsfjórðungi. Mín skoðun er sú, að þetta mál þurfi að yfirvega miklu meira, og sé einmitt um verkefni að ræða, sem ekki verði leyst til hlítar nema skipuð verði mþn. til að taka þetta til athugunar, því þetta er í eðli sínu svo stórt mál. En hinsvegar eru svo litlir möguleikar fyrir okkur að geta lagt verulegt fjármagn til þessara hluta. Við verðum að gera okkur ljóst, að ef á að setja upp regluleg tilraunabú, sem eigi jöfnum höndum að fást við tilraunir snertandi jarðrækt og búfjárrækt, þá kosta slík bú stórfé, ef þau eiga að vera búin svipuðum tækjum og nú eru gerðar kröfur um til slíkra tilraunastöðva erlendis. Og þetta mál verður að taka upp á þeim grundvelli, að athugaðir séu hinir fjárhagslegu möguleikar, sem þetta eigi að hvíla á. Að mínum dómi er það ekki mikils virði að fá heimildarlög, sem miðuð séu við það, að þetta sé gert, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Þetta mál þyrfti þess vegna að athuga og undirbúa bæði hvað snertir faglegu hliðina eða þau verkefni, sem á að taka til meðferðar, og á hvern hátt ætti að skipta þeim milli stöðvanna, og svo þyrfti hinsvegar að athuga vandlega hinn fjárhagslega grundvöll undir þessu.

Ég vil taka það fram, að ég er hv. 1. þm. Árn. þakklátur fyrir að hafa hreyft þessu máli, því málið þurfti að koma fram í einhverju formi, og tel ég þá niðurstöðu heppilegasta, að skipuð sé nefnd, sem athugi málið milli þinga. Það ætti ekki að þurfa að vera mjög kostnaðarsamt. Þar þyrftu að eiga sæti einhverjir af helztu tilraunamönnunum í landinu, ásamt öðrum mönnum. En ég hefi ekki trú á því, að þetta mál verði leyst vel á öðrum grundvelli, því það, sem hér þarf að gera, er að samræma þetta við þá staði, sem fyrir eru, og athuga, á hvern hátt hægt er að auka þetta með því að taka né verkefni til meðferðar, án þess þó að verja til þess mjög auknu fjármagni. Það verður erfitt að gera þetta svo vel fari.

Ég taldi rétt að láta þessar aths. koma fram við málið nú við 1. umr. í þessari hv. d. Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta, því sennilega fer þetta mál til landbn., sem ég á sæti í.