23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir nú á ný tekið þetta mál til athugunar, en ég skal játa, að árangurinn af því er ekki mikill.

N. tók nokkuð til athugunar þær bendingar, sem hv. þm. Hafnf. bar hér fram við 2. umr. málsins, en samkomulag gat þó ekki orðið um það að bera fram brtt. þar að lútandi. Og skal ég geta þess, að a. m. k. hvað mig snertir, þá veldur það mestu um, að þetta frv. er að forminu til aðeins til eins árs. En ef þetta hefði verið frv. um framtíðarlöggjöf, þá hefði ég haft tilhneigingu til þess að setja inn í það ákvæði um, að það fé, sem ætlað er að renna í fiskimálasjóð, yrði notað til hinna einstöku landshluta, en gengi ekki frá ári til árs til sama staðarins. En þessu er ekki hægt að koma við, þar sem lögin að forminu til gilda aðeins til ársins, en ég tel sjálfsagt, að þessa verði gætt, ef lögin verða framlengd, eins og búast má við, frá ári til árs.

Þá hefir n. athugað töluvert úthlutun benzínskattsins og þær till., sem fram hafa komið um það efni. Ég gat þess við 2. umr. málsins, að ég teldi réttast að taka þessa úthlutun á benzínskattinum út úr frv. og hafa hana eingöngu í fjári. Ég hreyfði þessu í n., en hún gat ekki á það fallizt. Ennfremur gat ég þess við 2. umr., að ef þetta fengist ekki — að hafa úthlutunina einungis í fjárl. —, þá teldi ég, að hafa ætti tvö sjónarmið í þessum efnum. Í fyrsta lagi það, að úthlutunin gengi til þeirra staða, sem mestur benzíntollur væri greiddur, og í öðru lagi til þeirra vega, sem hafa að einhverju leyti alþjóðlega þýðingu. Og í framhaldi af þessu hefir meiri hl. n. borið hér fram tvær brtt. á þskj. 309, sem að vísu ekki ganga langt í þessu efni, en eru þó um það að verja nokkru fé þangað, sem talsverður benzínskattur er greiddur, án þess að frv. gerði ráð fyrir, að þeir staðir nytu nokkurs af. Þessar brtt. fara í fyrsta lagi fram á það, að veittar verði 3 þús. kr. til vegar í Vestmannaeyjum. Eins og kunnugt er, þá hafa Vestmannaeyingar enga aðstöðu til þess að nota vegakerfi landsins, en greiða þó auðvitað benzínskatt. Þess vegna virðist okkur í meiri hl. n. það vera sanngjarnt, að Vestmannaeyjakaupstaður nyti nokkurs af þessu fé, og hefði það mátt vera meira, en við sáum okkur ekki fært að hafa till. hærri. því að ef farið væri að róta við fjárhæðunum og ætla þeim í aðra staði, er hætt við, að ágreiningur myndi vaxa innan hv. d. og allt komast í öngþveiti.

Hv. þm. Vestm. hefir bent mér á, að þessi 1. liður till. okkar muni ekki vera rétt orðaður, þar sem stendur „til vega út frá Vestmannaeyjakaupstað“. Bendir hann á, að alla eyjarnar séu í rauninni Vestmannaeyjakaupstaður. En það vakti fyrir okkur, að ekki yrði þessu fé varið til götulagninga í sjálfum kaupstaðnum, heldur til vegalagninga utan hans, svipað og á sér stað á Akureyri, þar sem fé það, sem þangað er ætlað, á ekki að fara til götulagninga í bænum, heldur til vega út fá honum. En sé þetta ekki rétt orðað, er hægurinn hjá að breyta því með skrifl. brtt.

Þá berum við fram till. um að verja 4000 kr. til Siglufjarðarskarðsvegar. Um þetta er sama máli að gegna og um Vestmannaeyjar. Á Siglufirði er greiddur talsverður benzínskattur, e,n Siglfirðingar hafa þó ekki enn sem komið er, aðstæður til að nota sér vegakerfi landsins.

Í 3. lagi leggjum við til, að varið sé 3000 kr. til vegalagninga út frá Seyðisfirði. Kann þessi till. frekast að orka tvímælis, því að Seyðisfjörður er óneitanlega í sambandi við vegakerfi landsins, og í 1. er nokkurt fé ætlað til vegagerða austanlands, en þetta er þó borið fram til samkomulags.

Um till. þær aðrar, sem fram hafa komið, þarf ég ekki margt að segja fyrir hönd n. Það liggur í hlutarins eðli, að meiri hl. n. vill ekki láta samþ. till. á þskj. 224, þar sem við höfum tekið upp till. sama efnis, sem að vísu gengur lítið eitt skemmra.

Till. á þskj. 213 er víst tekin aftur, þar sem flm. hennar hefir borið fram aðra till. um sama efni. En brtt. á þskj. 310 og 311 hefir ekki verið útbýtt fyrr en á þessum fundi, svo að n. hefir auðvitað ekki unnizt tími til að taka afstöðu til þeirra.