29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

117. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Pálmi Hannesson:

Út af brtt. á þskj. 370 vil ég geta þess frá mínu sjónarmiði, að mér finnst enginn skaði skeður, þó að hún sé samþ. Í henni felst ekki annað en bending til veitingarvaldsins, og ef hægt er að fá í þetta embætti mann, sem getur bæði kennt barnasálarfræði og uppeldisfræði og einnig almenna sálarfræði og rökfræði, þá get ég ekki séð, að það sé til ills, heldur þvert á móti. Í brtt. er ekkert um, að það skuli endilega vera sami maður, enda teldi ég það of sterkt að orði kveðið, en eins og hún er orðuð, sé ég enga hættu á að samþykkja hana upp á starfið í þessari grein við háskólann í framtíðinni, en hún felur í sér praktíska lausn, sem ekki er hægt að slá hendinni við.

Annars vil ég geta þess út af ræðu hv. þm. V.- Sk., að hann kom þar niður máli sínu, að maður skildi orð hans svo, að vafasamt væri um gagnsemi af kennslu í uppeldisfræði og barnasálarfræði. Ég geri varla ráð fyrir, að þetta hafi verið sannfæring hans, því að það ætti að vera öllum ljóst, að það er eins nauðsynlegt fyrir kennara við alla skóla, æðri sem lægri, að hafa fengið þekkingu á hugarfari og sálarlífi nemenda sinna og lært, hvaða aðferðum eigi að beita við kennsluna, eins og bílstjórinn verður að þekkja á vélina, sem hann á að stjórna, eða bóndinn jarðveginn, sem hann á að græða sitt gras á. (GSv: Hv. þm. veit, að það er nokkuð kennt í þessu). Hv. þm. er svo vel kunnugur þessum málum, að hann hlýtur að vita, að sú kennsla er engan veginn fullnægjandi á borð við það, sem heimtað er sem undirstaða í uppeldisvísindum fyrir kennara í öllum skólum erlendis. Þar er ekkert kennaraefni talið hlutgengt, nema það hafi fengið próf í almennri uppeldisfræði og sálarfræði og líka praktískt próf í sömu greinum. Bókleg kunnátta er ekki nóg; praktísk þekking verður að vera með. Á þá leið er róið með frv. því, sem menntmn. hefir borið fram. — Þetta var dálítill útúrdúr, en mér þótti rétt að láta það koma fram, úr því að tilefni gafst til af orðum hv. þm. V.-Sk.