29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

117. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Gísli Sveinsson:

Ég hefi ekki miklu að bæta við það, sem ég tók fram í fyrri ræðu minni og hefir að engu leyti verið hnekkt með þeim orðum, sem hv. þm. V.-Ísf. lét hér falla. Hann lét í ljós, að honum persónulega væri leiðara, að till. mín væri samþ., enda hefir hv. 1. þm. Skagf. líka réttilega bent á, að hún væri að engu leyti til spillis, heldur til bóta. Ég ætla, að hv. þm. V.-Ísf. sé það aðalatriðið, að þessi ákvæði eins og þau eru nái fram að ganga, og eins og hv. þdm. hafa séð og heyrt, þá hefi ég ekki hreyft við þeim og ætla að greiða atkv. með málinu, ef þessi viðbót nær fram að ganga.

Hv. þm. kom ekki með nein rök í málinu, heldur þvert á móti; hann sagði, að hver sæmilega menntaður maður í þeirri grein, sem frv. talar um, muni geta tekið að sér þessi námskeið í undirstöðuatriðum í heimspeki, sálarfræði og rökfræði. Ég vil því mælast til þess. að hv. þdm. greiði atkv. með brtt. og að málið fengi síðan að ganga þennan gang, sem hv. þm. virðist óska eftir, en þá er ekki rétt að andæfa því, sem bætir fyrir réttu eðli og hagkvæmum gangi málsins.