30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

120. mál, útvarpsráð

*Thor Thors:

Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af allshn. deildarinnar, sem ég á sæti í. Ég lét þess getið við fyrstu umr. málsins, að ég hefði gerzt flm. frv. fyrst og fremst fyrir þá sök, að ég óskaði, að það yrði tekið til athugunar á þessu þingi, á hvern veg málefnum útvarpsins sé skipað. Við sjálfstæðismenn höfum á undanförnum þingum flutt frv. um breyt. á útvarpslögunum. Hafa okkar till. gengið í þá átt, að gefa útvarpsnotendum sjálfum meiri rétt yfir málefnum þessa fyrirtækis en þeir hafa haft. Við höfum gert að till. okkar, að útvarpsnotendur, sem að öllu leyti rísa undir rekstri þessa fyrirtækis, fengju sjálfir að ráða meiru í kosningu útvarpsráðs. Það hefir verið skipað 7 mönnum, og höfum við lagt til, að útvarpsnotendur fengju að ráða vali fjögurra þessara manna. Nú flytur hv. 1. þm. Skagf. brtt. við þetta frv. á þskj. 389, þar sem hann vill í fyrsta lagi fækka meðlimum útvarpsráðs úr 7 niður í 5. Ég get fallizt á, að það sé oft og tíðum a. m. k. auðveldara að starfa í 5 manna n. heldur en 7 manna n., og ég hygg, að það muni verða til góðs þessu máli, að yfirstjórn útvarpsins verði skipuð 5 mönnum, en ekki 7, eins og verið hefir. Auðvitað mun ég verða flm. brtt. sammála um það, að veita útvarpsnotendum meiri rétt en þeir hafa haft. Þess vegna fagna ég till. hans um það, að útvarpsnotendur eigi þess kost að kjósa 4 af 5 mönnum í útvarpsráð, og ég vil eindregið mælast til þess, að hv. deild fallist á þetta fyrirkomulag. Það miðar vissulega í lýðræðisáttina. Það er full réttsýni á bak við það, að þeir menn, sem í rauninni bera fyrirtækið á herðum sér, fái eingöngu að ráða yfir málefnum þess. því hefir að vísu verið haldið fram, að ríkið ætti mikinn rétt til þess að hafa hönd í bagga með stjórn þessa fyrirtækis, og því er varla að neita, að það hafi við rök að styðjast. En hvað sem skipun útvarpsráðs líður, þá er það kennslumálaráðh., sem ætti að vera yfirmaður þessarar stofnunar og hlýtur sem slíkur að hafa hin æðstu ráð um meðferð mála í útvarpinu. Nú er samkv. þessum brtt. eingöngu ætlazt til, að ráðh. skipi einn mann í útvarpsráð, og má það sanngjarnt teljast. En flm. ætlast til þess, að þessi maður þurfi endilega að vera sjálfkjörinn formaður útvarpsráðs. Mér finnst engin ástæða til þess, og því hefi ég borið fram brtt. á þskj. 402, þess efnis, að þótt kennslumálaráðh. hafi ráð á því að skipa einn mann í útvarpsráð, þá sé ekki slegið föstu, að sá maður yrði formaður ráðsins, heldur eigi útvarpsráð sjálft að kjósa sér hann, því ég tel, að það sé eðlilegast, að þessir 5 menn, sem eiga að vinna saman að velferð þessa fyrirtækis, ráði því sjálfir, hvern þeir velja fyrir formann. Af því, sem ég nú hefi sagt, leiðir það, að ég er eindregið fylgjandi brtt., sem hv. 1. þm. Skagf. ber fram, og vil skora á hv. deild að samþ. brtt. ásamt minni brtt.

1) Þingskrifarinn hefir fellt svo mikið niður af ræðunni, að hún verður ekki leiðrétt að neinu gagni nú. er svo langt er um liðið. — 3/2 '39. PHann.