04.05.1938
Neðri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

127. mál, landssmiðjan

*Pétur Ottesen:

Hv. 7. landsk. var með einhverjar dylgjur í garð okkar flm., að einhverjar dýpri ástæður lægju til grundvallar fyrir þessu frv. heldur en þær, sem um hefði verið rætt. Ég læt mér náttúrlega í léttu rúmi liggja, hvað hv. 7. landsk. kann að gera okkur upp í þessu efni, og skol ég þess vegna ekki fara frekar út í það.

Aðalflm. þessa frv. hefir gert grein fyrir því hér. Það er svo komið rekstri þessa fyrirtækis, að haldi það áfram, verður það rekið með allverulegum halla á yfirstandandi ári og næstu árum. Þess vegna mun ekki vera að ræða um áframhaldandi starfsemi hjá þessari stofnun, nema með fjárhagslegri ábyrgð frá ríkinu. Hitt er og landskunnugt, að frá upphafi vega hefir ekki frá hálfu landssmiðjunnar verið að ræða um að halda niðri verðlagi í þessu landi á smíðum eða öðru slíku. hað er kunnugt, að þar sem um útboð hefir verið að ræða, hefir þessi stofnun orðið að lúta í lægra haldi í mjög mörgum tilfellum, af því hún hefir ekki getað keppt við þau fyrirtæki, sem fyrir eru í landinu, um framkvæmd á þeim verkum. Það er fyrirsjáanlegt, ef haldið verður áfram þessari starfsemi, að fjárhagslegt tap verður nú og næstu ár fyrir ríkissjóð. Þótt náttúrlega vel megi vera, að hv. 7. landsk. víli það ekki fyrir sér að offra nokkuð miklu til að koma þessari grein smíðanna úr höndum einstakra manna í þjóðnýtingu, eins og þau lög eru byggð á, sem nú hafa gilt í 2 til 3 ár. Framsfl. vildi freista þess, að færa þessa grein smíðanna í landinu yfir í ríkisrekstur, en sem vænta mátti og reyndar vitað var, að ekki myndi leiða til neins annars en vera fjárhagslegur baggi á ríkinu í samkeppni við önnur hlíðstæð fyrirtæki í landinu. Ég held þess vegna, að með þeim horfum, sem nú eru um rekstur á þessu sviði, sé áhorfslaust að gera ráðstafanir til að gera upp reytur þessa fyrirtækis og reyna að koma því, sem þar er, í verð og tela það bæði vitamálastjóra og vegamálastjóra að gera það bezta, sem hægt er í þessu efni. Því þó að reynt sé að búa vel í haginn með því að halda að fyrirtækinu viðgerð á skipum og öðru slíku, þá er ekki að vænta af því nema taprekstrar, eins og skýrsla forstjóra þessarar stofnunar ber með sér og fyrir liggur í fjvn. því er náttúrulega borið við að vísu, að vanti stórar byggingar fyrir þetta fyrirtæki, og það er reynt að breiða yfir tapreksturinn með því, að það hafi ekki haft þá aðstöðu, sem þyrfti til að sýna betri útkomu. Það er vitað að það fyrirkomulag, sem ríkisrekstur þessi byggist á, felur það eitt í sér, að það er ekki að vænta neinna úrbóta frá því, sem menn geta átt von á með því að reka þessa starfsemi á frjálsum grundvelli. Það er bara þessi trú sósíalista, sem liggur á bak við það og algerlega rekst á við veruleikann. Það hefir verið vitnað í, að sum árin hafi reikningslega ekki orðið tap á þessari stofnun. En það er vitað, að hún á útistandandi 100 þús. kr. eða meira. Og eftir að búið væri að gera upp skuldirnar, gæti orðið annað uppi á teningnum en reikningar stofnunarinnar sýna, og vitað er og viðurkennt af hlutaðeigendum, að sumt af þessum skuldum er fullkominn vonarpeningur.

Það er alveg rétt, að þetta frv. er seint fram komið. Við reyndum í fjvn. að fá samkomulag um að létta þessari fyrirsjáanlegu byrði af ríkinu, og þess vegna varð meiri dráttur á því en eðlilegt er. Enda getur vel verið, að þrátt fyrir það, þó að veldi sósíalista hafi kannske minnkað, er þeir drógu ráðh. sinn úr stjórn, þykist þeir standa það föstum fótum í ríkisstj. og á Alþingi, að þeir séu þess megnugir að koma í veg fyrir, að horfið verði í þessu efni út af ríkisrekstrarbrautinni. Ef svo er, þá skiptir ekki miklu máli, hvort þetta frv. er borið fram fyrr eða síðar á þinginu.