28.02.1938
Efri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

21. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég lagði þetta frv. fram á síðasta þingi og tel ástæðulaust að gera frekari grein fyrir því en ég gerði þá. Þetta er 2. skipti, sem ég legg þetta frv. fram, og á þinginu þar á undan var lagt fram mjög svipað frv. frá hv. 6. landsk. og öðrum hv. þm. til. Það gekk í mjög svipaða átt að öðru leyti en því, að það náði aðeins til berklasjúklinga. Í fyrra kom aldrei nál. frá n., sem fjallaði um málið, og á þinginu þar á undan veit ég ekki heldur til, að frv. hv. 6. landsk. hafi fengið neina afgreiðslu. Ég vonast til, að þetta endurtaki sig ekki, þegar það er nú lagt svona snemma fram, og að n. sjái sér fært að afgr. það. Það er ýmislegt fleira í l., sem þarf lagfæringar við, en ég ætla að bíða og sjá, hvernig þessu máli reiðir af, áður en ég legg fram fleiri till.