05.03.1938
Efri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

38. mál, framfærslulög

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og hv. dm. vita, voru framfærslulögin samin upp á þinginu 1936 og gerðar á þeim ýmsar gagngerðar breytingar. Við framkvæmd þessara l. hafa komið fram ýmsir agnúar, sem einsýnt þykir, að verði að leiðrétta, og miða meginatriði þessu frv. í þá átt. Skal ég drepa á helztu atriðin, sem máli skipta.

Í 1. gr. er ákveðið, að ríkissjóður endurgreiði framfærslustyrk, sem Íslendingum er greiddur af umboðsmönnum íslenzka ríkisins erlendis, en samkv. núgildandi lögum ber oss að endurgreiða framfærslustyrk, sem framfærslunefndir erlendis veita íslenzkum þurfamönnum. Nú er það alþjóða regla, að ekkert ríki endurgreiði styrk, sem þannig er lagður fram. Höfum vér margsinnis reynt að fá endurgreiddan styrk, sem veittur hefir verið erlendum ríkisborgurum hér á landi, en aldrei tekizt. Liggur því í hlutarins eðli, að ekki nær nokkurri átt, að við förum að taka okkur slíka skyldu á herðar gegn öðrum löndum, þar sem ekki tekst að fá sömu hlunnindi vegna útlendinga, er hér dvelja. Tel ég þetta alveg sjálfsagt, og sömuleiðis það, að umboðsmenn íslenzka ríkisins greiði þeim framfærslustyrk, sem nauðsyn er á honum, enda sé hann endurkræfur úr ríkissjóði.

Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr., að fellt verði niður ákvæðið um, að lögreglustjóri skuli leita álits framfærslunefndar áður en ekkjum er veittur styrkur. Þetta ákvæði hefir mælzt illa fyrir, enda álít ég enga þörf á því. Með því að leita álits framfærslunefndar er þessum konum skipað á bekk með þurfalingum, en lögin ákveða sérstaka greiðslu til þeirra, svo þetta heyrir alls ekki undir framfærslunefnd. Hinsvegar er ákveðið, að skýrsla konunnar skuli vera greinileg, og heimilt er lögreglustjóra að leita upplýsinga um hana, ef honum þykir ástæða til, en það er ekki bundið við, að leita beri umsagnar framfærslunefndar.

Þá er lagt til, að 26. gr. gildandi l. falli niður. Í henni er ákveðið, að ef barnsmóðir eða ekkja giftist aftur, þá skuli felldur meðlagsúrskurður falla úr gildi. Hér er lagt til, að þessi grein verði felld niður, en ekki er ástæða til að álíta, að það muni íþyngja sveitar- og bæjarsjóðum, því ef efnahagur konunnar eftir hjúskapinn, eða efnahagur manns hennar, er þannig, að þau séu sómasamlega fær um að framfleyta barninu, þá er auðvelt fyrir sveitarsjóðinn að fá úrskurðinn felldan úr gildi, en reynist þau ekki megna að sjá fyrir barninu, þá er ekki annað en úrskurðurinn sé látinn standa óbreyttur, og þá koma framlögin niður á sama hátt og áður var.

Þá er 4. gr. Fyrra atriðið skiptir engu máli. en síðara atriðið, þ. e. a. s. að framfærslunefnd sé skyld að hlíta úrskurði ráðh. um ágreiningsmál, er til hans verður skotið, þar til þeim úrskurði kynni að verða haggað af dómstólum, þá er ástæðan til þess, að þetta er tekið upp í lög, sú, að þótt ráðuneytið hafi fullt úrskurðarvald um ágreiningsmál milli framfærslunefnda, hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar og þurfamanna, og þeim sé heimilt að fá úrskurði staðfesta með dómi, þá er aðstaða þessara aðilja svo afarólík. Öðrumegin er þurfamaðurinn, en hinsvegar bæjar- eða sveitarstjórnin, sem umráð hefir með þessum greiðslum. Hún er alveg í sínum rétti að segja, að hún þurfi ekki að fullnægja þessum greiðslum áður en þær hafa verið staðfestar með dómi. Margir styrkþeganna hafa ekki fé til að reka mál til dóms og bíða eftir að hann sé felldur.

Þetta ætti ekki að vera nein fjárhagsleg áhætta fyrir sveitar- eða bæjarfélögin, þar sem þeim er í sjálfsvald sett, að fengnum fullnaðardómi, hvernig þau haga greiðslum til þessara manna, en í öllu falli er þarna um að ræða upphæðir, sem nema litlu fyrir bæjar- og sveitarfélögin, en hafa e. t. v. mjög mikla þýðingu fyrir hlutaðeigandi mann eða konu.

Þá er í 5. gr. gert ráð fyrir, að fyrir Reykjavík. sem hefir að ýmsu leyti sérstöðu í framfærslumálum, sé sett sérstök reglugerð um tilhögun framfærslumála bæjarins. Þetta álít ég mjög nauðsynlegt. Í gildandi framfærslulögum er mælt svo fyrir, að borgarstjóri skuli setja reglugerð að fengnum tillögum framfærslunefndar. Mér vitanlega hefir engin slík reglugerð verið sett eða neinar ráðstafanir í þá átt. sem þó er nauðsynlegt vegna ástandsins í bænum. Þá er ennfremur til þess ætlazt, að heimilt sé að setja sérstaka nefnd, sem úrskurði til fullnustu kærur út af ákvörðunum framfærslunefndar. Að vísu er hægt að vísa þessum kærum til ráðuneytisins, sem hefir mörgum öðrum störfum að gegna, en á afgreiðslu þeirra vill venjulega verða nokkur dráttur. Afgreiðsla málanna er venjulega ekki svo undirbúin sem skyldi. Því er lagt til, að sérstök nefnd verði skipuð til að sjá um úrskurðun þessara kæra. Hér er engin ákvörðun tekin um, hvernig nefnd þessi skuli skipuð, en gert er ráð fyrir, að kostnaður við hana verið greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr bæjarsjóði Reykjavíkur.

Um 6. og 7. gr. er ekki ástæða til að segja neitt, nema hvað snertir b-lið 7. gr. Samkv. honum er svo ákveðið, að ef þörf er á skjótri hjálp, en ákvörðun framfærslunefndar þar að lútandi fæst ekki, þá sé lögreglustjóra heimilt að veita bráðabirgðaaðstoð þá, sem nauðsynleg er, þar til úrskurður fellur, og er hlutaðeigandi sveitarsjóður skyldur til að greiða þann kostnað, er úrskurðurinn kann að hafa í för með sér.

Þetta er að minni hyggju nauðsynlegt. Að vísu má e. t. v. halda fram, að lögreglustjóra sé heimilt að gera þetta eftir núgildandi l., þar sem honum her skylda til að rannsaka, hvort sveitarfélagið gerir skyldu sína.

Ég drap á það áður, að ef þurfamaður vill ekki una við ákvörðun framfærslunefndar, þá er hægt að áfrýja því máli fyrst frá fátækrafulltrúa til framfærslunefndar, þaðan til bæjarstjóra og síðast til ráðuneytisins. Ráðuneytið leitar álits bæjarstjóra eða framfærslunefndar áður en fullnaðarúrskurður er felldur. afgreiðsla svona máls getur tekið allt að því 2–4 mánuði frá því það var tekið fyrir af bæjarstjóra. Má gera sér í hugarlund, ef málið er um það, hvort styrkur fullnægi þörfum þurfamanns, hvort mögulegt er fyrir hann að bíða eftir úrskurði málsins, ef hann hefir ekkert annað að lifa á. Þá hlýtur hann að líða skort, ef svo fer, sem komið hefir fyrir áður, að fátækrafulltrúi neitar um styrk þar til málið hefir fengið úrskurð. Sé því áfrýjað, tekur það sama tíma og aðalmálið. því er nauðsynlegt, að til séu embættismenn, sem jafnan rannsaka hagi manna og veiti þeim björg, svo þeir liði ekki skort. Jafnframt skal ég taka það fram, að nú mun þetta stundum framkvæmt þannig, að fólkið leitar til lögreglustjóra, hann rannsakar ástæður þess og veitir nauðsynlega hjálp.

Þá er lagt til, að 53. gr. framfærslulaganna sé breytt að allverulegu leyti. Samkv. núgildandi l. er bæjarstjóra heimilt að úrskurða menn til vistar í fangelsi í allt að 3 mánuði, og það eina, sem þarf til, að þessi úrskurður sé lögmætur eins og dómur hefði gengið, er, að hlutaðeigandi lögreglustjóri samþykki gerðir hlutaðeigandi bæjarstjóra.

Ég sé ekki annað en að þetta sé gagnstætt öllum anda íslenzks réttarfars. Svo er ætlazt til, að ekki megi setja menn í fangelsi án þess að dómur sé genginn í máli þeirra, en hér er borgarstjóra og lögreglustjóra fengið sama vald í hendur. Ég skal geta þess t. d., að eitt atvik kom fyrir hér á síðasta hausti, sem sýnir, að hér er þörf athugunar. Þurfamaður, sem lengi hefir verið á framfæri bæjarins, en var búsettur austan heiðar, kom hingað til bæjarins og tjáði framfærslunefnd vandræði sín og kvaðst ekki fara aftur nema hún leysti úr vandræðum sínum. Ég skal ekki leggja dóm á viðskipti framfærslunefndar og þessa manna, en fyrir þetta úrskurðaði framfærslunefnd og bæjarstjórn manninn á Litla-Hraun. Síðar kom þetta mál til úrskurðar stjórnarráðsins, og var þar ákvörðun bæjarstj. felld úr gildi. Ég tel með öllu ótækt að leggja slíkt vald sem þetta í hendur bæjarstjórna. Náttúrlega eiga sömu l. að ganga yfir þessa menn eins og aðra. Þessi mál eiga að ganga sinn gang fyrir dómstólunum, eins og önnur mál, og það á að vera skylda dómstólanna að sjá um, að allt upplýsist í málinu. Samkv. þessari gr. frv. er ætlazt til, að þessu verði breytt í það horf, að málin gangi til dómstólanna, sem felli úrskurð um þau eins og önnur mál.

Þá er einnig ætlazt til þess samkv. frv., að (12. gr. I. breytist þannig, að móðir barns, sem hefir tekið meðlag eftir dauða barnsföður og fengið það frá dvalarsveit sinni, eigi rétt á, að valdsmaður úrskurði henni meðlag eftir reglum III. kafla 1. Með þessu er gert ráð fyrir, að nákvæmlega sömu reglur gildi um ekkjur og ógiftar barnsmæður. Sá skilningur hefir líka verið lagður í þessa gr., en með hæstaréttardómi hefir verið lagður annar skilningur í gr., og er þessu því breytt hér til þess að fyrirbyggja allan misskilning.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um aðrar gr. frv. Þær eru allar um viðskipti sveitarstjórna innbyrðis, aðrar en 13. gr., þar sem tekið er upp ákvæði um það, að allir framfærslustyrkir skuli fyrnast á 4 árum. Þetta er í samræmi við almenn ákvæði í gildandi l. um 4 ára fyrningarfrest og sett inn til þess að hvetja menn til sjálfsbjargar.

Ég held svo, að það sé ekki fleira, sem ástæða er að minnast á við þessa umr. Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.