07.03.1938
Efri deild: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

43. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Herra forseti! Þetta frv. um uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga er ekki nýmæli í þessari hv. d., þar sem það er nú flutt í þriðja skipti. Óþarft er að fara mörgum orðum um tilgang frv., því að hv. þdm. er öllum vel kunnugt um, hvernig ástandið er orðið í landinu, og þá einnig um hina miklu þörf, sem betur og betur kemur í ljós á slíkum heimilum. Ég hefi hér í hönd­um skýrslu frá barnaverndarnefndinni hér í Reykjavík, þar sem greint er frá starfsemi nefndarinnar og sömuleiðis niðurstöðum henn­ar og yfirleitt því ástandi, sem fyrir hendi er á þessu sviði. Það má segja, að slík skýrsla, sem nær aðeins yfir Reykjavík, sé ekki einhlít, enda þótt Reykjavík geymi flesta íbúa lands­ins. Ég hefi því miður ekki með höndum aðrar skýrslur, en þó veit ég, að þær hafa komið til barnaverndarráðs, og formaður þess hefir tjáð mér, að ástandið sé víðar slæmt en hér í bænum. Mér hefir því miður ekki gefizt kostur á að kynna mér skýrslur þessar að svo komnu, en mun gera það og leggja niðurstöðuna fyrir hv. d. undir meðferð málsins, en svo mikið er víst, að það er ekki hægt að afsaka sig neitt með því, að Reykjavík ein eigi hér hlut að máli, því að það er síður en svo. Að vísu hafa barnaverndar­nefnd og barnaverndarráði ekki borizt skýrslur alstaðar af landinu. Sumstaðar hafa barnaverndarnefndir og skólanefndir ekki skilað skýrslum fyrir árið, sem leið, en það sannar ekki, að það sé ekki full þörf á að hraða athug­un á þessu máli fyrir því. Það er aðeins tómlæti viðkomandi nefnda að kenna, að þær hafa ekki staðið skil á þessum skýrslum; það er mjög áríðandi að fylgjast vel með á þessu sviði, þegar uppeldismálum þjóðarinnar er stefnt í voða með aðgerðaleysi.

Það, sem frv. fer fram á, er, að stofnað sé uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga, og er í 1. gr. frv. skýrgreint, hvað átt er við með þessum orðum. Ég veit, að allir hv. þdm. þekkja eitthvað af slíkum börnum og hve erfitt er fyrir aðstandendurna að sjá um þau. Ég tel sjálfsagt, að enginn hv. þdm. muni mæla því í gegn, að slík heimili séu til mikilla þjóðþrifa, þar sem þeim er vel stjórnað. Eins og við vit­um, hefir sú verið venjan fram á þennan dag þegar um slík börn hefir verið að ræða, að þeim hefir verið komið fyrir hingað og þangað eftir beztu getu og vilja þeirra, sem með hafa átt að fara. Það má vel vera, að þetta hafi getað gengið svona allt fram að þessu, en nú eru komnir þeir tímar, að ekki er hægt að halda lengur áfram þannig. Um það ber órækan vott skýrsla barnaverndarnefndarinnar í Rvík, sem hefir mjög góða aðstöðu til þess að athuga þessi mál rækilega, þar sem hún hefir staðið í bréfaviðskiptum við fjölda heimila úti um land og ráðið til sín dr. Símon Jóh. Ágústsson, sérfræðing í uppeldismálum. Hann hefir við ná­in kynni af málum þessum komizt að þeirri niðurstöðu, að það verði alltaf örðugra og örð­ugra að útvega hæf heimili í þessum tilgangi. Það hefir sýnt sig aftur og aftur, að það hefir orðið að skipta um verustað, jafnvel oft á ári, fyrir börn, einkum þó drengi, sem baldnir eru og mjög erfitt að fást við og nauðsynlegt hefir verið að koma burt úr kaupstöðum. Er slíkt með öllu óhæft, því að með þessu festir barnið hvergi rætur, fær ekki ræktarsemi í sig til neins; það verður eins og rótlaus jurt, sem alltaf er verið að færa úr stað, og við vitum úr náttúr­unnar ríki, hvaða þýðingu það hefir fyrir veik­gerða jurt að fá aldrei að vera í friði og festa rætur. Í skýrslu nefndarinnar segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefir orðið að skipta um staði fyrir suma afbrotadrengi oft á árinu, þar eð við­komandi heimili treystust ekki til að halda þá til langframa“.

Þetta skýrir sig sjálft, og svo framarlega sem okkur er það alvara að koma algerlega í veg fyrir, að þessi blessuð börn verði að vandræða­mönnum fyrir þjóðina, verður áreiðanlega að taka eitthvað betra til ráða í þessum efnum.

Hér liggur þá fyrir þessi skýrsla um ástandið eins og það er, og hefi ég þá í huga ástandið á öllu landinu í þessum efnum, enda þótt ekki séu skjalfestar tölur fyrir hendi um það. Það er hægt að fá þær áður en langt um líður. Um þá starfsemi nefndarinnar að koma börnum fyrir, segir nefndin ennfremur, með leyfi hæstv. for­seta:

„Þessi þáttur í starfsemi nefndarinnar hefir kostað hana mikla vinnu og fyrirhöfn. Er alveg orðinn ógerningur að finna nógu mörg góð sveitaheimili, sem vilja taka afbrota- og vand­ræðabörn til langdvala, og vöntun á uppeldi fyrir þau er mjög tilfinnanleg. Af þessum ástæðum verða margir afbrotadrengir að leika lausum hala hér í bænum. Nefndin hefir gert allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að bæta úr þessu ástandi, bæði með því að beita sér fyrir því, að uppeldisheimili verði reist fyrir afbrota­börn, og eins með því að leita uppi þau heimili, sem kynnu að vilja taka þetta hlutverk að sér. Í þeim tilgangi hefir ráðunautur nefndarinnur skrifað formönnum skólanefnda í flestum sveit­um og beðið þá að útvega heimili, sem tekið gætu atbrotabörn og umkomulaus og vanhirt börn í fóstur um lengri eða skemmri tíma. Svör hafa þegar allmörg borizt, en flestir neita að því er tekur til afbrotabarna, og er nefndin því í sömu vandræðunum og áður um dvalar­staði handa þessum börnum“.

Það er nokkuð annað að taka slík börn til langdvalar heldur en í nokkrar vikur t. d. að sumrinu, og þá kemur að þessu, sem ég var að tala um áðan, að það kemst flækingur á barn­ið, það festir hvergi yndi og verður að hálfgerðum flækingi eða flóttamanni. Við höfum ekki ráð á að ala upp slíka flóttamenn, og við verðum að fyrirbyggja það, að nokkurt manns­efni fari forgörðum af þeim ástæðum, að því hafi ekki gefizt kostur á nógu góðu eða hæfi­legu uppeldi. Skýrslan, sem hér liggur fyrir, sannar, að í fyrra voru 88 börn, sem gerðust brotleg hér, en í ár eru þau orðin 172. Þetta er ógurleg tala. Þessi börn hafa orðið uppvís að 526 brotum, og svo fylgir tafla, sem skilgreinir pilta og stúlkur í þessu efni, og einnig í hverju afbrotið liggur, hvar hættan er mest, og að lokum er svo heildaryfirlit yfir fjölda afbrota­barna og hinna ýmsu afbrota. Við sjáum, að ástandið fer ekki batnandi, og í raun og veru er það slíkt, að það hrópar hátt til löggjafar­þings þjóðarinnar, sem málið er borið fram fyrir enn á ný, um að bæta úr ástandinu eða að gera a. m. k. tilraun til þess að koma í veg fyrir, að börnin okkar verði að aumingjum, en á því eru miklar horfur eins og sakir standa nú, sé ekkert að gert. Þó að ekki sé lengra farið en til Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, þá sjáum við, að svo að segja fyrsta boðorð þjóðanna er að athuga uppeldismálin og taka þau til ræki­legrar meðferðar og koma í veg fyrir, að slík ósköp eigi sér stað, að börnin, bezta eign þjóð­arinnar, fari forgörðum fyrir hirðuleysi þeirra, sem eiga að ráða úr vandamálum hverrar þjóð­ar. Ég hefi nú, svo oft sem þetta frv. hefir legið fyrir hv. þd., lesið upp þessar raunatölur, og ég tel tilgangslaust að gera það aftur, því að það er engum blöðum um að fletta, að þetta er nauðsynjamál, sem krefst skjótrar úrlausnar. Það hefir verið talað um kostnaðinn í sambandi við málið, og ég geng þess ekki dulin, að það hefir kostnað í för með sér að stofna slík heim­ili, en mér liggur við að segja, að það verði að gera það hvað sem það kostar, því að hitt kostar miklu meira, að láta reka á reiðanum og hafast ekkert að, þó að við sjáum börnin sökkva niður í eymd og volæði. Það verður enginn vandi að reikna út þann kostnað, sem leiðir af stofnun slíkra heimila eins og hér um ræðir, því að það hefir löggjafinn í hendi sér, en kostnaðurinn fer vitanlega eftir því, hve sparsamlega og vitur­lega er á haldið. En hinn kostnaðinn, sem leiðir af vanrækslu og aðgerðaleysi í þessum efnum, er ekki auðvelt að reikna út með töl­um, enda kemur hann inn á þá gjaldaliði þjóðfélagsins, sem erfitt verður að telja á venju­legan mælikvarða, því að hér er meira í húfi en nokkrar krónur. Framtíð þjóðarinnar er hér í húfi, þegar börn þau, sem gerast brotleg, skipta hundruðum ár hvert, og talan tvöfaldast frá ári til árs. Þá er talsverð alvara á ferðum, og þá þýðir lítið að berja höfðinu við steininn og segja: Við getum komið krökkunum fyrir á sveitaheimilum, — þegar sannað er, að þessi heimili eru ekki til, og þegar sannað er, að börn, sem á slíkum heimilum hafa verið, batna ekkert við dvölina þar, en koma aftur eins og þau fóru. Það, sem ég held, að verði hér helzt til hjálpar, er það, sem stungið er upp á í frv., að ríkið stofni uppeldisheimili, sem það hefir undir sinni hendi og hefir eftirlit með og ræður til hæfilega starfskrafta. — Á þessu stigi málsins er í rauninni óþarft að fara fleiri orðum um það.

Ég vil að lokum mælast til þess, að þetta frv. verði falið hv. allshn. til meðferðar, að þessari 1. umr. lokinni.