14.03.1938
Efri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

60. mál, húsmæðrakennaraskóli og húsmæðraskóli í Reykjavík

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv. nú að þessu sinni, vegna þess, að það hefir legið fyrir tveimur undanförnum þingum, og þykist ég því vita, að hv. þdm. sé það kunnugt.

Það, sem farið er fram á í þessu frv., er það, að settur verði á fót, í eða nærri Reykjavík, húsmæðraskóli í tveimur deildum, annarsvegar venjulegur húsmæraskóli, en hinsvegar framhaldsskóli, eða kennsla, sem sé fyrir húsmæðraskólakennara.

Ég þarf náttúrlega ekki að fjölyrða um, að svo framarlega, sem á annað borð þykir þörf á því, að húsmæður fái sérstaka fræðslu í sínu starfi, þá sé hvergi meiri þörf á því að hafa skóla í þeim fræðum en þar, sem fjölmennið er mest og heimilin flest, en það er hér í Reykjavík og nágrenni, þar sem svo mikill hluti af landsfólkinu hefir safnazt saman. Í Reykjavík, Hafnarfirði og hinum fjölmennu byggðum fyrir austan, á þessu svæði er kominn saman svo mikill hluti af landsfólkinu, að það er næsta einkennilegt, að þessi hluti fræðslunnar skuli hafa verið vanræktur. Að vísu hafa verið starfrækt við kvennaskólann hér í Reykjavík mjög lítil námskeið fyrir húsmæður, en þegar tekið er tillit til hins mikla mannfjölda, sem hér er, og þarfa fyrir kunnáttu fyrir húsmæður, þá er náttúrlega hverfandi sú bót, sem að þessum námskeiðum er.

Ég hygg, að það hljóti að vera viðurkennt, að það sé nauðsynlegt, að þessi hluti landsins fái verulega góðan og öflugan húsmæðraskóla.

Ég skal ekki fara að þreyta hv. d. á því að rifja upp þær aths., sem gerðar hafa verið um það, hve nauðsynlegt sé, að húsmæður fái fræðslu. Það þarf ekki annað en að benda á, að það er ævistarf langflestra kvenna að stjórna heimili, og það væri undarlegt, ef ekki væri nauðsynlegt, að þær fengju fræðslu í því starfi. Það hefir verið bent á, hve mikið fé það er, sem gengur í gegnum hendur húsmæðranna.

Hinn hluti skólans, húsmæðrakennaraskólinn. er hugmynd, sem ekki hefir verið framkvæmd ennþá hér á landi. En eftir því, sem húsmæðraskólarnir verða fleiri og stærri, því meiri þörf verður á, að konur geti lært hér á landi svo mikið í þessum fræðum, að þær geti einnig gerzt kennarar við þessa skóla. Ég hygg, að ekki líði langt þar til verður að koma upp slíkum skóla, þar sem kennarar við húsmæðraskóla geti fengið sérmenntun.

Menn munu ef til vill taka eftir því, að í þessu frv. er eiginlega ekki neitt sett upp nema aðalumgerðin um þessa skóla, en öll nánari ákvæði geymd reglugerð. Getur vel verið, að menn séu ekki sammála um, hvaða aðferð sé réttust í þessu efni, enda mælir margt með hvoru um sig. Að taka allt fram í l. skýrt og greinilega, um námsgreinar, námsefni og tilhögun alla, hefir vitanlega sína kosti. Þá veit löggjafinn betur, hverju hann er að ganga frá. Á hinn bóginn er því ekki að neita, að fyrirkomulag á kennslu er þannig, ef ekki er um alveg þaulviðurkennda og prófaða stofnun að ræða, að oft er mikil ástæða til að gera ýmsar breyt. í smærri atriðum. Og þá er margfalt léttara að breyta reglugerð, sem ráðh. einn getur breytt, heldur en að þurfa að fara til þingsins í hvert skipti, sem þarf að breyta einhverju lítilfjörlegu í fyrirkomulagi skólans. Þessar tvær aðferðir hafa verið notaðar allmikið. Mig minnir t. d., að þegar ekki minni stofnun en lærði skólinn gamli var settur, þá væru l. aðeins ein lína, um að skólinn skyldi settur, en allt annað geymt reglugerð. Í l. um ýmsa aðra skóla hafa þessar leiðir verið farnar sitt á hvað. Í þessu frv. hefir verið farin sú leið, að mæla fyrir um meginatriðin, þannig að sjá má, hversu stór stakkur þessum skóla er sniðinn og hvernig fyrirkomulagið er í öllum ytri búningi, en ekki mælt fyrir um námsgreinar eða námstilhögun í einstökum atriðum.

Það er vitaskuld, að við flm. frv. erum fúsir til að breyta slíku atriði sem þessu, ef menn teldu heppilegra að setja nánari ákvæði inn í frv., og er þá auðvelt að gera það við meðferð málsins í n.

Eins og hv. þdm. vita, liggur fyrir Nd. frv. um nálega sama efni. Það er 25. mái Nd., um húsmæðrafræðslu, flutt af nokkrum hv. þm. þar. Það gæti kannske virzt óheppilegt, að hér skuli vera 2 frv. um sama atriði. Ég sé ekki, að það þurfi að vera. Ef menn vilja ekki samþ. bæði frv., og það þykir mönnum kannske nokkuð stórt spor, þá sé ég ekki annað en hægt sé að samræma þetta, og eiginlega sé skoðanamunurinn þá um það, hvar skólinn eigi að standa, því að ég sé ekki betur en að umgerðin um skólann eins og hún er á þskj. 26 sé yfirleitt þannig, að hún passi fyrir húsmæðraskóla í landinu yfirleitt, og þó að skólinn yrði settur í nánd við Reykjavík, þá getur hann fallið inn í þá umgerð, sem mörkuð er á þskj. 26.

Ég skal ekki fara að ræða um, hvort heppilegra sé að hafa svona skóla í Reykjavík eða á Laugarvatni, en mér finnst miklu eðlilegra, að húsmæðrakennaraskólinn væri í sambandi við húsmæðraskólann hér í Reykjavík, því að hvergi á landinu er eins góð aðstaða til að fá eins góða kennara, ýmis kennslutæki og annað, sem hægt er að sýna nemendum, sem ekki er kostur annarsstaðar. Það er sú aðstaða, sem hefir valdið því, að margir aðrir skólar hafa verið settir hér, af því að hér er margt það saman komið, sem ekki er hægt að fá annarsstaðar á landinu, og ég held, að varla megi minna vera en að þær konur, sem eiga að hafa forgöngu í þessum málum, fái að njóta þeirrar aðstöðu, sem fæst með því að hafa skólann í Reykjavík eða í nánd við Reykjavík. Það eina, sem mætti hafa á móti þessu, væri það, að heilbrigðara væri, að þær færu til útlanda til að læra ennþá meira. Nú vil ég ekki gerast meinsmaður þess, að Sunnlendingar fái húsmæðraskóla í sambandi við Laugarvatnsskólann, en ég er bara ekki viss um, að það sé svo mikið varið í að hrúga skólum þannig saman, þó að það hafi vitanlega sína kosti, að skólarnir standi saman. En þar sem hér í Reykjavík og Hafnarfirði er saman kominn um 1/3 allra landsmanna, þá hlýtur hver maður að viðurkenna, að hér er þörf á slíkum skóla sem þessum, ef það er á annað borð viðurkennt, að húsmæðrafræðsla sé nauðsynleg, sem ég hygg, að sé.

Ég vil svo mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.