16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

70. mál, saltfisksveiðar togara 1938

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og hæstv. forseti tók fram, hafa verið leyfðar umr. um þetta frv. samtímis hinu frv. um þetta mál. Ég get því látið nægja fá orð um þetta frv., þ. e. till. Alþfl. um það, hvernig leysa beri úr stöðvun togaraflotans. Ég tel, að eins og ástatt er hér hjá okkur nú, þá megi þjóðin ekki við því, að saltfisksvertíðin falli niður að mestu leyti. Ég tel, að málið sé komið á það stig, að Alþ. geti ekki lengur látið það afskiptalaust. Með því að samþ. þetta frv., sem lýtur að því að lögfesta einungis lausn á þeim hluta deilunnar, sem mest er aðkallandi, þá hygg ég, að líkur séu til, að deilan fái skjótan endi og nokkurnveginn sé tryggt, að skipin fari út. En þetta hvorttveggja verður að teljast skilyrði fyrir því, að Alþ. gripi til þeirra ráða, sem hér er gert ráð fyrir. Það er viðurkennt, að það er aðeins þrautarúrræði að grípa til þess, að Alþ. ákveði með l. um kaup og kjör sjómanna, sem annars viðurkennir frjálsan samningarétt. Kauphæðin, sem ákveðin er í frv., er samkv. samningum, sem giltu á síðasta ári, að viðbættum breytingum, sem sáttasemjari lagði til, að gerðar yrðu á kaupi og kjörum. Ég veit, að því fer fjarri, að sjómenn telji þetta nægilega gengið til móts við þá, en á þetta er bent hér sem það líklegasta, sem Alþ. geti fallizt á. Í þessu frv. er aðeins gert ráð fyrir, að Alþ. ákveði um kaup og kjör á saltfisksveiðum. Ég tel, að þar sem ennþá eru margir mánuðir þar til síldveiðar byrja, þá sé óverjandi af Alþ. að grípa fram fyrir hendur réttra aðilja og fara að setja niður gerðardóm til þess að lögfesta um kaup á síldveiðum. Aðiljar hafa þar nægan tíma til þess að reyna að koma sér saman, og ekkert liggur fyrir, sem sanni, að til deilu þurfi að koma, og enn síður að þá deilu þurfi að útkljá á sama hátt og hér er gert ráð fyrir. Ég vil biðja hv. d. að athuga það vel áður en hún fellir þetta frv. Ég sagði í sambandi við frv. hæstv. forsrh. áðan, að ég teldi á því tvo megingalla. Annan þann, að ég tel ekki, að tryggt sé, að það verði sú lausn á málinu, að skipin fari út. Bendi ég þar á samþykkt sjómannafélagsins annarsvegar og þau afdráttarlausu skilyrði, sem útgerðarmenn hafa sett. Það er viðsjárverður hlutur að ákveða að láta gerðardóm fjalla um jafnviðkvæmt mál og þetta, og það er ekki aðkallandi að því er snertir kaup á síldveiðum og ísfisksveiðum. Það má ef til vill segja, að með því að ákveða aðeins um kaup á saltfisksveiðum væri verið að taka aðeins hluta af deilunni. Það er að vísu rétt, en till. sáttasemjara er sérstaklega miðuð við saltfisksveiðikjörin og önnur við síldveiðikjörin. Ég tel því, að þetta þurfi ekki að hafa áhrif hvort á annað. Tel ég ekki gerlegt að lögfesta slíkt. — Ég get látið máli mínu lokið að sinni, en vil mælast til þess, að málið gangi til n. og 2. umr. nú þegar.