23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Magnús Jónsson:

Fyrst þegar allshn. skilaði áliti um þetta mál, lét hún skrifstofufé allra bæjarfógeta óbreytt frá því, sem var í frv., og án þess að um það væri tekin nokkur fullnaðarákvörðun. Ég held það hafi helzt verið skoðun nm. að láta það óbreytt eins og hæstv. dómsmrh. hafði gengið frá því. Mér varð það ljóst við að fara yfir skýrslur þær, er frv. fylgdu til n., að bæjarfógetaembættin, e. t. v. að einu undanteknu, hlytu að verða vanhaldin af þeim skrifstofukostnaði, sem þeim var ætlaður, og virtist mér helzt þurfa að hækka hann á Siglufirði og Ísafirði, enda sér maður, að skrifstofufé hafði þar verið tiltölulega lítið hækkað frá því, sem áður var, í öðrum staðnum um 3 þús., en hinum 5 þús.

Eins og ég gat um í umr. þeim, er urðu um þingsköp, þá atvikaðist það svo, að ég var ekki á fundi þeim í n., sem borin var fram á till. um að hækka skrifstofufé á Siglufirði, og kenni ég því um, að engin till. kom um hækkun á Ísafirði. Ég álít, að náðst mundi hafa samkomulag um nokkra hækkun á báðum stöðunum, ef ég hefði verið á fundinum. Ég veit, að n. mundi hafa verið með þessu, og því hefi ég borið fram brtt. um þús. kr. hækkun á Ísafirði. Þetta er meira til þess að það kæmi fram, úr því að farið var að bæta við skrifstofuféð, að ég álít, að bæjarfógetinn á Ísafirði sé heldur illa haldinn af því fé, sem honum er ætlað í frv.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, þegar hann mælti fyrir brtt. sinni um allverulega hækkun á skrifstofufé bæjarfógetans á Siglufirði, að í raun og veru ætti að greiða sýslumönnum og bæjarfógetum það fé, sem þeir kostuðu til embættisins. Og ef fara á eftir skýrslum þeirra sjálfra, eru það hin öruggustu meðmæli með brtt. minni, því að skýrsla bæjarfógetans á Ísafirði sýnir skrifstofukostnaðinn þar 23080 kr. Nú má náttúrlega alltaf segja, að það sé erfitt að segja um það, hvað hver þurfi að kosta til. En það, sem bæjarfógetinn á Ísafirði gerir ráð fyrir af starfsmönnum, er einn fulltrúi, einn gjaldkeri, bókari við tollinnheimtu og einn aðstoðarmaður, og svo kemur náttúrlega húsaleiga og þess háttar. En það, sem hann hefir fram yfir Siglufjörð, er kostnaður við umboðsmenn, sem hann þarf að hafa á 4 stöðum, og svo ferðakostnaður við manntalsþing, sem hann þarf að halda á 15 stöðum. Ef maður nú lítur á, hvað hann borgar fyrir þetta, þá held ég, að mönnum geti varla dottið í hug, að um neitt óhóf sé að ræða. Hann borgar öllum 4 umboðsmönnunum 1800 kr. Ég býst ekki við, að það sé hægt að fá menn fyrir minna. Ef menn skyldu nú halda, að hann gerði meiri kröfur fyrir sjálfan sig, þá er bezt að líta á ferðakostnaðinn. Hann er 400 kr. Ég býst við, að mönnum finnist það ekki ósanngjarnt, þegar tekið er tillit til þess, hvernig er að ferðast um þarna vestra. Þessir 2 liðir, umboðsmennirnir og ferðakostnaðurinn eru 2200 kr., sem er umfram það, sem hann þyrfti að kosta til, ef hann hefði kaupstaðinn einan saman eins og bæjarfógetinn á Siglufirði.

Ég skal svo ekki vera að reyna að bera saman þessa kaupstaði. Það er náttúrlega svo, að það er ef til vill meira af þessari starfseminni á öðrum staðnum og aftur meira af annari á hinum, svo að það kann að vera, að það jafnist upp. En ég tel það fulla sanngirni, að ef á að hækka skrifstofuféð á Siglufirði, þá verði mín till. einnig samþ. Ég vil annars ekki vera að halda henni fast fram, en ég veit það bara, að það verður ekki hjá því komizt að greiða þarna hærri skrifstofukostnað. Ég þekki bæjarfógetann á Ísafirði dálítið persónulega og ég veit, að hann er það gætinn maður, að það mun óhætt að treysta því, að hann muni ekki kosta meiru til en þarf.

Ég skal svo ekki mæla frekar fyrir þessari till. Mér þætti miður, ef hún yrði felld. Ég hefi ekki getað kynnt mér vilja hv. þm., en ég hefði miklu heldur viljað taka hana aftur en að hún yrði felld.