23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Við 2. umr. málsins sýndi ég fram á, að misræmi væri í frv., eins og það var á þskj. 249. Allshn. hefir nú tekið það til athugunar og gert nokkrar lagfæringar á því, en þó engan veginn fullnægjandi. og mér skilst af ræðu hv. 2. þm. S.- M., að þar sé ókunnugleika mikið um að kenna, og eins því, að bæði hann og aðrir nm. geri of mikið úr því, sem þeir kalla aukatekjur. T. d. nú seinast var hv. 2. þm. S.-M. að tala um gjald, sem greitt væri af flutningaskipum, er kæmu í fyrsta sinn í höfn. En samkv. lögum er ekki heimilt að taka neitt aukagjald af slíkum skipum, nema þar, sem hreppstjórar eru. Þar, sem bæjarfógetar eru, er ekki um neitt slíkt gjald að ræða, heldur eingöngu af fiskiskipum, og er það 10 aurar á nettósmálest. Flest þau fiskiskip, er til Siglufjarðar koma, eru 30–50 smál. að stærð, og nemur því þetta gjald 3–5 kr. á skip. Geta menn því gert sér í hugarlund, hvað miklar þær aukatekjur eru.

Annars er enginn vandi að fá þetta upplýst. Öll þessi gjöld eru skráð í hafnargerðabók Siglufjarðar og innheimtubók ríkissjóðs, þar sem hægt er að ganga úr skugga um, hversu mikil þessi gjöld eru. Það er því algerlega óþarft að vera að fleipra með það, að hér sé um fleiri þúsundir að ræða, þegar hægt er að fá það svart á hvítu.

Aðrar aukatekjur, er embættunum fylgja, eru innheimtutekjur af tryggingum, 3% af slysatryggingum á skipum, 6% af slysatryggingum í landi, og 2% af ellistyrktarsjóðsgjaldi. Geta menn því ímyndað sér, hversu miklar þær aukatekjur eru, og er því óþarft að vera að kasta fram ágizkunum um það, þar sem hægt var fyrir n. að afla sér fullkominna upplýsinga um þetta atriði. Ég hefði líka getað gefið upplýsingar um það, hvað miklar þessar aukatekjur voru þau árin, sem ég vann á bæjarfógetaskrifstofunni á Siglufirði.

Annars er það eitt atriði, sem algerlega hefir verið gengið framhjá í þessum umr. Að því er snertir Siglufjörð, þá er það afarmikið starf að hafa eftirlit með hinum nýju gjaldeyrislögum og innheimtu á tolltekjum ríkissjóðs. Í þessu sambandi vildi ég taka til samanburðar Vestmannaeyjar. Þar er saltfiskur aðalútflutningsvaran, og fer sá útflutningur allur gegnum Union í Reykjavík. Með síldarútflutninginn á Siglufirði er það aftur á móti svo, að með hverju einasta skipi eru 50–100 útflytjendur. Halda nú hv. þm., að ekki sé mikill munur á því, að 50–100 menn gangi frá sínum pappírum eins og vera á, heldur en eitt félag, sem er viðurkennt, eins og Union? Eins er það ólíkur munur að sjá um matjessíldarútflutninginn, þar sem hann fer fram gegnum einn aðilja, heldur en að passa upp á fleiri tugi manna, sem margir hverjir eru ekki færir um að ganga frá sínum pappírum og vita kannske ekki, hvað með þarf til þess að í lagi sé, bæði hvað snertir gjaldeyrislögin og innheimtu á tolltekjum ríkissjóðs. Þess vegna þarf að vaka yfir þeim og hjálpa þeim til þess að ganga frá sínum skjölum. — Þetta er sem sé svo stórt atriði, að ekki má framhjá því ganga.

Þá sagði hv. frsm., að á Siglufirði væru 2–3 tollgæzlumenn. Þetta er ekki rétt. Þar er einn fastur tollgæzlumaður, sem jafnframt hefir allt svæðið frá Eyjafirði og vestur að Horni, og svo hefir verið annar maður til 2–3 mánuði yfir sumartímann, en aldrei 3 tollgæzlumenn. Það má líka benda á það í þessu sambandi, að á Akureyri er einn fastur tollþjónn, sem hefir ekkert annað umdæmi en Akureyri og Eyjafjörð. og mér er kunnugt um það, að hann hefir innt mikið starf af hendi einmitt í þágu bæjarfógetans á Akureyri, miklu meira starf heldur en tollþjónninn á Siglufirði hefir innt af hendi fyrir bæjarfógetann þar, sem eðlilegt er, þar sem hann hefir miklu stærra svæði og meiri ferðalög.

Hvað viðvíkur þeim tveim lögregluþjónum, sem á Siglufirði eru yfir sumartímann, þá eru þeir eingöngu kostaðir af ríkissjóði, vegna þess að Siglufjörður er eini bærinn utan Reykjavíkur, sem hefir lagt fram fullnægjandi fé til lögreglueftirlits, eftir því sem áskilið er, þannig að ríkissjóði ber skylda til þess að leggja fram fé á móti, en hefir í stað þess tekið þann kostinn að leggja til 2–3 menn yfir sumartímann. En þeir hafa eingöngu með höndum umferðareglur og ölvunaróspektir, og gætu Siglfirðingar lagt það að jöfnu að losna við þessa lögregluþjóna, ef þeir jafnframt losnuðu við áfengisútsölu ríkisins.

Þá var hv. frsm. að tala um, að það væru 3 síldarverksmiðjur, sem væru fyrir utan Akureyrarkaupstað, og að þess vegna væri ekki hægt að afgreiða það, sem frá þeim flyttist, á skrifstofunni. En þetta er misskilningur. Öll þau skip, sem taka afurðir frá Hjalteyri, Dagverðareyri og Krossanesi, taka vörurnar fyrst og fara svo til Akureyrar. En ef það er ekki gert, þá verður þessi tollþjónn á Akureyri að fylgja skipunum og sjá um þau að öllu leyti, og ég veit ekki annað en að það sé bæjarfógetanum á Akureyri algerlega að kostnaðarlausu.

Ég get líka upplýst hv. frsm. um það, að meðan ég var á bæjarfógetaskrifstofunni á Siglufirði voru þar jafnmargir starfsmenn og á Akureyri. Þar var einn fulltrúi, einn gjaldkeri og ein stúlka, en hjá okkur var fyrst einn karlmaður og þrjár stúlkur og síðan tveir karlmenn og ein stúlka.

Ég vil svo að endingu undirstrika það, að taka verður fullt tillit til þess mikla starfs, sem á Siglufirði er að skapast utan um gjaldeyrisverzlunina og allt eftirlit með útflutningnum, sem er miklu erfiðara heldur en t. d. í Vestmannaeyjum, sem hér hafa verið teknar til samanburðar. Þetta vildi ég, að hv. þm. tækju til athugunar við atkvgr. og gættu þess, að hér er ekki verið að fara fram á, að skrifstofukostnaðurinn sé greiddur eins og hann er talinn eftir reikningi; heldur einungis að þessum embættismanni sé gert það fært að hafa fólk, sem hann og ríkissjóður geta treyst til þeirra starfa, sem þar er um að ræða.